Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 281. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 735  —  281. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21 26. mars 1991 (greiðsluaðlögun).

(Eftir 2. umr., 16. mars.)



1. gr.


     Tilvísunin „1..3. og 5. tölul.“ í 3. mgr. 28. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Við 3. þátt laganna bætist nýr kafli, X. kafli a, Greiðsluaðlögun, með níu nýjum greinum, 63. gr. a – 63. gr. i, sem orðast svo:

    a. (63. gr. a.)
    Samkvæmt fyrirmælum þessa kafla getur maður leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar ef hann sýnir fram á að hann sé og verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar.
    Lögin ná ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hafa lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans.
    Eftir því sem átt getur við gilda almennar reglur laga þessara um slíka nauðasamninga, þar á meðal heimild til að leita þeirra og samningsumleitanir, að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum þessa kafla.

    b. (63. gr. b.)
    Með greiðsluaðlögun má kveða á um algera eftirgjöf samningskrafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, greiðslu þeirra með hlutdeild í afborgunarfjárhæð skv. 3. mgr. 63. gr. c í einu lagi eða með ákveðnu millibili á nánar tilteknu tímabili, breytt form á greiðslu þeirra eða fernt það síðastnefnda í senn.

    c. (63. gr. c.)
    Skuldari sem æskir heimildar til að leita greiðsluaðlögunar skal gera beiðni um hana samkvæmt því sem segir í 7. gr. og 1., 3. og 4. tölul. 34. gr. Henni skulu fylgja gögn sem hún er studd við ásamt greiðsluáætlun skv. 2. mgr. og gögnum til staðfestingar upplýsingum í henni, vottorði um hjúskaparstöðu og fjölskyldu og síðustu fjórum skattframtölum skuldara.
    Í greiðsluáætlun skuldara skal koma fram:
     1.      hverjar tekjur hans eru og annarra sem teljast til heimilis með honum, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða atvikum tekjurnar ráðast, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum þeirra eða atvinnuhögum,
     2.      hvort hann muni hafa fé af öðru en tekjum sínum til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra,
     3.      sundurliðuð fjárhæð skulda sem þegar eru gjaldfallnar, svo og fjárhæð ógjaldfallinna skulda og eftir atvikum upplýsingar um afborgunarkjör, gjalddaga, vexti og verðtryggingu þeirra, en frá þessu öllu skal greint án tillits til þess hvort greiðsluaðlögun sé ætlað að ná til þessara skuldbindinga,
     4.      framtíðaráætlun um meðaltal mánaðarlegra útgjalda skuldara og þeirra sem teljast til heimilis með honum, þar á meðal vegna framfærslu, opinberra gjalda, húsaleigu og afborgana af skuldum sem tryggðar eru með veði eða á annan hátt í íbúðarhúsnæði eða öðrum eignum skuldara sem hann hyggst leitast við að eiga áfram,
     5.      hvað ætla megi af framansögðu og öðru sem máli getur skipt að afborgunarfjárhæð geti orðið af samningskröfum, hvenær hún verði greidd í einu lagi eða með reglubundnum greiðslum á tilteknu tímabili og hvort og þá hvaða trygging verði sett fyrir þeim.
    Afborgunarfjárhæð, sem fundin er skv. 5. tölul. 2. mgr., skal bundin við launavísitölu eða á annan hátt við tilteknar mælingar á verðlagsbreytingum sem svara til þess hvernig skuldari hyggst afla tekna til að standa undir greiðslu hennar. Tekið skal fram í greiðsluáætlun hvernig verðtryggingu samkvæmt þessu verði háttað.
    Í greiðsluáætlun má setja ákvæði um að kröfur innan tiltekinnar fjárhæðar, sem hefðu ella talist samningskröfur, verði greiddar að fullu ef sú fjárhæð verður talin óveruleg í ljósi fjárhags skuldara, en ákvæði sem þetta má ekki standa nema allar samningskröfur fáist að minnsta kosti greiddar með þeirri fjárhæð. Leiti skuldari eftir því að tilteknir lánardrottnar hans afsali sér í einhverju tilkalli til hlutdeildar í afborgunarfjárhæð skal þess sérstaklega getið í greiðsluáætlun.
    Dómsmálaráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að skuldara bjóðist endurgjaldslaus aðstoð við gerð beiðni og fylgigagna með henni hjá opinberri stofnun eða öðrum. Eigi skuldari kost á slíkri aðstoð getur hann ekki notið greiðslu sem þessu svarar eftir lögum um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga.

    d. (63. gr. d.)
    Auk þeirra ástæðna sem skv. 1. mgr. 38. gr. skulu leiða til þess að héraðsdómari synji um heimild til að leita nauðasamnings getur héraðsdómari hafnað beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef eitthvert eftirtalinna atriða á við:
     1.      að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á því tímabili sem greiða á af skuldum hans samkvæmt greiðsluáætlun,
     2.      að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað,
     3.      að til skulda hafi verið stofnað á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar,
     4.      að skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu,
     5.      að skuldari hafi svo að máli skipti látið hjá líða að standa í skilum við lánardrottna sína þótt honum hefði verið það kleift að einhverju leyti eða öllu,
     6.      að ætla megi að skuldari hafi hagað gerðum sínum svo sem raun varð á með ráðnum hug um að leita greiðsluaðlögunar.
    Skuldari má skjóta til æðra dóms úrskurði héraðsdómara þar sem synjað er um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Ef heimildin er veitt fyrir æðra dómi miðast tímamörk í ákvæðum VI. kafla við þann dag sem úrlausn hans er kveðin upp. Úrskurði héraðsdómara þar sem veitt er heimild til að leita greiðsluaðlögunar verður ekki skotið til æðra dóms.
     Umsjón með nauðasamningi um greiðsluaðlögun er á hendi sýslumanns, eins eða fleiri, eða annars opinbers aðila samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra.

    e. (63. gr. e.)
    Í innköllun umsjónarmanns til lánardrottna skuldara skal auk þess sem segir í 1. mgr. 44. gr. koma fram að leitað sé greiðsluaðlögunar, svo og hvenær fundur verði haldinn með þeim sem telja sig eiga samningskröfur á hendur skuldara til að fjalla um greiðsluáætlun hans. Áætlunin skal fylgja tilkynningu til lánardrottna skv. 2. mgr. 44. gr.
    Þeir lánardrottnar sem fara með samningskröfur á hendur skuldara og hafa lýst kröfum sínum fyrir umsjónarmanni innan kröfulýsingarfrests eiga einir upp frá því rétt á að láta málið til sín taka.
    Þegar kröfulýsingarfrestur er á enda skal umsjónarmaður gera skrá um samningskröfur sem borist hafa innan frestsins og skal greint í henni frá þeim atriðum sem getið er í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 46. gr. Nú hefur samningskröfu ekki verið lýst sem skuldari hefur gert grein fyrir í greiðsluáætlun og skal þá umsjónarmaður krefja þann lánardrottin svara um hvort krafan sé til, en reynist svo vera skal hún tekin upp í skrána með þeirri fjárhæð sem upplýst hefur verið um. Þegar skuldara hefur gefist kostur á að kynna sér skrána skal umsjónarmaður veita honum aðstoð til að gera breytingar á greiðsluáætlun ef efni standa til þeirra.

    f. (63. gr. f.)
    Fundur skal haldinn til að fjalla um greiðsluáætlun skuldara innan tveggja vikna frá lokum kröfulýsingarfrests og gilda um hann ákvæði 1. og 2. mgr. 48. gr. eftir því sem á við. Sé kröfu á skrá skv. 3. mgr. 63. gr. e mótmælt af öðrum lánardrottni eða skuldaranum skal umsjónarmaður staðreyna hvort deila standi um kröfuna í heild eða afmarkaðan hluta hennar og leitast annars við að jafna ágreining um hana. Slíkur ágreiningur stendur að öðru leyti ekki því í vegi að umleitunum til greiðsluaðlögunar verði fram haldið.
    Á fundinum ber skuldara að gefa þær skýringar sem lánardrottnar leita eftir, en umsjónarmaður skal síðan gefa þeim hverjum fyrir sig kost á að lýsa afstöðu sinni til greiðsluáætlunar skuldara sem greint skal frá í fundargerð. Skuldara skal að því gerðu gefinn kostur á að endurskoða greiðsluáætlun vegna fram kominna athugasemda og taka eftir atvikum afstöðu til þess hvernig hann hafi í hyggju að fara með umdeilda kröfu, en að þessu öllu gerðu skal hann lýsa yfir að greiðsluáætlun sé endanleg.

    g. (63. gr. g.)
    Þegar greiðsluáætlun skuldara er orðin endanleg skal umsjónarmaður innan viku taka rökstudda afstöðu til þess í skriflegri greinargerð hvort hann mæli með því að greiðsluaðlögun komist á fyrir skuldarann. Við mat á því skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum skv. 2. mgr. 63. gr. f og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni aðlögun þeirra að greiðslugetu sinni og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem hafa látið samningsumleitanirnar til sín taka.
    Mæli umsjónarmaður gegn því að greiðsluaðlögun komist á skal hann tafarlaust senda greinargerð sína ásamt skriflegri tilkynningu til skuldara og héraðsdómara. Þegar sú tilkynning berst héraðsdómara fellur sjálfkrafa niður heimild skuldara til að leita greiðsluaðlögunar. Falli heimildin niður samkvæmt þessu eða af öðrum þeim ástæðum sem greinir í 41. eða 42. gr. skal umsjónarmaður fá birta svo fljótt sem verða má auglýsingu um þau málalok í Lögbirtingablaði.
    Nú mælir umsjónarmaður með því að greiðsluaðlögun komist á og svarar það þá til þess að samþykkt hafi verið við atkvæðagreiðslu frumvarp að nauðasamningi eftir ákvæðum VIII. kafla. Skal umsjónarmaður þá boða skuldara tafarlaust á sinn fund og láta honum í té greinargerð sína ásamt samþykktu frumvarpi að greiðsluaðlögun þar sem eftirfarandi skal koma fram:
     1.      hvað skuldari bjóðist til að inna af hendi til greiðslu á samanlögðum samningskröfum, þar á meðal með greiðslu af afborgunarfjárhæð, hvort heldur með eingreiðslu tiltekinn dag eða á nánar tilgreindum gjalddögum hverju sinni, svo og hvernig sú fjárhæð verði verðtryggð,
     2.      hvaða lánardrottnar eigi þessar samningskröfur, hversu mikið hver og hvaða hlutfallslega greiðslu þeir fái af kröfum sínum eða hvert hlutfall hvers þeirra verði í afborgunarfjárhæð,
     3.      hvort skuldari geri ráð fyrir að umdeild krafa, ein eða fleiri með nánari tilgreiningu, sé meðal þeirra sem greitt verði af skv. 2. tölul. eða hvort hann beri sjálfur áhættu af niðurstöðu um hana,
     4.      hvort tilteknar skuldir verði greiddar að fullu eða meira gefið eftir af þeim en af öðrum samningskröfum, sbr. 4. mgr. 63. gr. c,
     5.      hvort trygging verði sett fyrir greiðslum og þá hver hún sé,
     6.      hvaða skilmálabreytingar hann leggur til að gerðar verði á skuldum sem tryggðar eru með veði samkvæmt ákvæði til bráðabirgða.
    Umsjónarmaður skal senda lánardrottnum, sem lýst hafa kröfu við umleitanir til greiðsluaðlögunar, greinargerð sína og eftir atvikum samþykkt frumvarp að greiðsluaðlögun ásamt tilkynningu um lyktir málsins í hans höndum.

    h. (63. gr. h.)
    Hafi umleitunum til greiðsluaðlögunar lokið á þann hátt að umsjónarmaður mæli með því að hún komist á skal skuldari leggja skriflega kröfu um staðfestingu nauðasamningsins fyrir héraðsdómara innan viku frá þeim fundi sem umsjónarmaður boðaði skuldara til skv. 3. mgr. 63. gr. g. Með þeirri kröfu skal fylgja greinargerð umsjónarmannsins, skrá um samningskröfur og samþykkt frumvarp að greiðsluaðlögun, auk fundargerða af fundum skv. 63. gr. f og 63. gr. g.
    Greiðsluaðlögun hefur sömu áhrif og réttarsátt milli skuldara og lánardrottna hans um þær samningskröfur sem þeir hafa lýst og koma fram í skrá skv. 3. mgr. 63. gr. e, að því leyti sem skuldari mótmælti þeim ekki.

    i. (63. gr. i.)
    Ljúka má gjaldþrotaskiptum með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum XXI. kafla. Í stað þess að þrotamaður leggi frumvarp að nauðasamningi fyrir skiptastjóra og hann láti greiða atkvæði um það skal þrotamaðurinn þá leggja fyrir skiptastjóra greiðsluáætlun og hann síðan leita greiðsluaðlögunar á sama hátt og umsjónarmaður hefði ella gert, en um þetta skal beitt fyrirmælum XXI. kafla með þeim frávikum sem leiðir af ákvæðum þessa kafla.

3. gr.

    Í stað orðanna „41. eða 42. gr.“ í 3. tölul. 2. mgr. 65. gr. laganna kemur: 41., 42. eða 2. mgr. 63. gr. g.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.