Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 393. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 760  —  393. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 135 11. desember 2008, um embætti sérstaks saksóknara.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Gunnar Narfa Gunnarsson frá dómsmálaráðuneyti og Ólaf Þ. Hauksson sérstakan saksóknara.
    Með frumvarpinu er m.a. lagt til að afmarkaðar verði með skýrari hætti og rýmkaðar þær heimildir sem sérstakur saksóknari hefur til öflunar upplýsinga og gagna vegna rannsóknar einstakra mála. Þá er einnig lagt til að skylt sé að verða við kröfu embættisins um að láta í té upplýsingar og gögn þótt þau séu háð þagnarskyldu samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem felur í sér að vikið verði frá skyldu 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til að auglýsa störf hjá embætti sérstaks saksóknara til að ekki þurfi að fara í þungt ferli til að ráða starfsmenn sem nú eru einkum hjá embætti efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og auðgunarbrotadeild lögreglustjóraembættisins á höfuðborgarsvæðinu. Sérstakur saksóknari er tímabundið embætti og því eru menn ekki ráðnir þangað til langframa og unnt þarf að vera að kalla menn til verkefna án mikillar fyrirhafnar og tíma við að fara í gegnum umsóknarferli. Ákvæðið tekur mið af heimild sem rannsóknarnefnd þingsins hefur til ráðningar fólks. Ekki er ætlunin með þessum breytingum að víkja frá málefnalegum sjónarmiðum og gagnsæi sem eftir sem áður þarf að gæta við ráðningu starfsmanna.
    Þá leggur nefndin einnig til smávægilegar breytingar á frumvarpinu sem tengjast frumvarpi viðskiptaráðherra um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki á þskj. 693 í 409. máli, en þar eru lagðar til breytingar á hugtökum og er nauðsynlegt að taka breytingarnar upp í frumvarp þetta til þess að gæta samræmis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ólöf Nordal og Ágúst Ólafur Ágústsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    

Alþingi, 17. mars 2009.



Árni Páll Árnason,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Birgir Ármannsson.



Árni Þór Sigurðsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.


Siv Friðleifsdóttir.



Jón Magnússon.