Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 20. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 765  —  20. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um rannsóknarstofnun um utanríkis- og öryggismál.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsögn barst frá Varnarmálastofnun.
    Í þingsályktunartillögu þessari er lagt til að fela ríkisstjórn Íslands að setja á stofn rannsóknarstofnun um utanríkis- og öryggismál. Á undanförnum tveimur áratugum hafa orðið miklar breytingar á alþjóðlegu umhverfi Íslands. Áhrif þeirra hér á landi eru óumdeilanleg, allt frá hruni Sovétríkjanna fram að brotthvarfi varnarliðsins. Fyrrverandi kommúnistaríki hafa mörg hver gerst aðilar að Evrópusambandinu og NATO. Þá hefur aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og Schengen-svæðinu haft miklar breytingar í för með sér.
    Víða erlendis, þ.m.t. annars staðar á Norðurlöndum, starfa rannsóknarstofnanir sem sérhæfa sig í alþjóðamálum og þróun þeirra. Hérlendis starfaði öryggismálanefnd á árunum 1978–1991. Við Háskóla Íslands starfar Alþjóðamálastofnun sem sett var á laggirnar árið 1990 og hefur hún unnið ágætt starf. Hún er hins vegar ekki rannsóknarstofnun eins og hér er gerð tillaga um. Þá hefur þverfaglegur starfshópur um áhættumat fyrir Ísland nýlokið störfum. Sjálfstæð rannsóknarstofnun í utanríkis- og öryggismálum getur m.a. haft hliðsjón af störfum öryggismálanefndar og áhættumatshópsins.
    Íslendingar búa yfir mikilli þekkingu á sviði utanríkis- og öryggismála og henni ber að koma á framfæri og nýta á skipulegan hátt. Þá geta ýmis verkefni sem nú eru vistuð ýmist hjá utanríkisráðuneyti eða stofnunum þess eða stofnunum annarra ráðuneyta eftir atvikum átt heima í rannsóknarstofnun af þessu tagi. Í því sambandi má m.a. nefna styrki Varnarmálastofnunar til rannsókna á sviði öryggis- og varnarmála.
    Meiri hlutinn telur að tengsl Íslands við alþjóðasamfélagið hafi sjaldan verið jafnmikilvæg. Einn af lykilþáttum uppbyggingar eftir efnahagshrunið hérlendis er að endurvinna traust á alþjóðavettvangi og eiga náið samstarf við vinaþjóðir. Meiri hlutinn tekur því undir efni tillögunnar.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórn Íslands að kanna grundvöll þess að setja á stofn sjálfstætt rannsóknarsetur á sviði utanríkis- og öryggismála.

Alþingi, 18. mars 2009.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Siv Friðleifsdóttir.



Valgerður Sverrisdóttir.


Kristinn H. Gunnarsson.


Lúðvík Bergvinsson.