Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 412. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 769  —  412. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra verði hækkað um 431 kr. eða um 6,1% og nemi 7.534 kr. á hvern gjaldanda í stað 7.103 kr. samkvæmt gildandi lögum. Í athugasemdum sem fylgja frumvarpinu kemur fram að hækkunin sé í samræmi við verðlagsbreytingar á tímabilinu desember 2006 til desember 2007 og hækkun byggingarvísitölu á þessu tímabili.
    Á fundum nefndarinnar kom meðal annars fram ábending um að leiðrétta þyrfti fjárhæð í 2. mgr. 10. gr. þar sem vísað er til tekjuviðmiðs sem notað er til að ákvarða þá sem undanþegnir eru gjaldinu. Álagningargjaldaviðmið þetta hefur hækkað samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytis og er því mikilvægt að leiðrétta viðmiðið. Auk þess telur nefndin að óeðlilegt sé að vísað sé í lagatexta til tekjuársins 2007.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Við 1. gr. bætist nýr stafliður er verði b-liður, svohljóðandi:
    Í stað orðanna „1.080.067 kr. á tekjuárinu 2007“ í 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. laganna kemur: 1.143.362 kr. á því ári sem næst er á undan álagningarárinu.

    Þórunn Sveinbjarnardóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Ármann Kr. Ólafsson og Árni Johnsen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. mars 2009.



Þuríður Backman,


varaform., frsm.


Helga Sigrún Harðardóttir.


Steinunn Valdís Óskarsdóttir.



Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Atli Gíslason.