Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 444. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 776  —  444. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2008.

1. Inngangur.
    Það sem bar hæst á árinu var einkum þrennt. Í fyrsta lagi má nefna þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um leitar- og björgunarsamstarf á Norður-Atlantshafi. Ráðstefnan var byggð á ályktun um aukið samstarf um björgunarmál á Norður-Atlantshafssvæðinu sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins árið 2007 og tekin á dagskrá Norðurlandaráðsþings 2007 á grundvelli samstarfssamnings ráðanna frá árinu 2006. Á ráðstefnunni komu saman helstu aðilar á sviði leitar- og björgunarmála á Vestur-Norðurlöndum til að ræða stöðu mála og möguleika á að styrkja fjölþjóðlegt samstarf um leitar- og björgunarmál á Norður- Atlantshafi. Einnig fór fram björgunaræfing í tengslum við ráðstefnuna sem Slysavarnafélagið Landsbjörg og systrasamtök þess í Færeyjum og Landhelgisgæsla Íslands og landhelgisgæsla Færeyja auk færeyskrar stjórnstöðvar danska sjóhersins héldu sameiginlega. Til að fylgja málum frekar eftir lagði Íslandsdeildin fram tillögu á ársfundi um eftirfylgni á vettvangi Norðurlandaráðs. Sú tillaga var samþykkt og lögð fram á fundi forsætisnefnda Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs á fundi þeirra á Norðurlandaráðsþinginu sem haldið var í lok október í Helsinki. Í ljósi þeirrar áherslu sem lögð hefur verið á leitar- og björgunarmál í Norður-Atlantshafi innan Vestnorræna ráðsins undanfarin tvö ár var fagnaðarefni þegar tilkynnt var á Norðurlandaráðsþinginu að eitt helsta forgangsverkefni formennsku Íslands í Norðurlandaráði árið 2009 yrði gerð vákorts fyrir Norður-Atlantshafið.
    Í öðru lagi var að beiðni landsdeildar Grænlands haldinn sérstakur fundur í tengslum við ársfund Vestnorræna ráðsins um reynslu Íslands og Færeyja af Hoyvíkursamningnum. Á þeim fundi setti þáverandi utanríkisráðherra Færeyja, Høgni Hoydal, fram þá hugmynd að stofna þingmannavettvang í kringum fríverslunarsamning Íslands og Færeyja. Núverandi utanríkisráðherra Færeyja, Jørgen Niclasen, fylgdi þeirri hugmynd síðan eftir þegar hann var staddur hérlendis í opinberri heimsókn í boði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra Íslands, og átti fund m.a. með utanríkismálanefnd Alþingis. Á forsætisnefndarfundi Vestnorræna ráðsins í lok árs fengu formaðurinn og framkvæmdastjórinn umboð til að fylgja þessu frumkvæði utanríkisráðherranna frá Færeyjum eftir við forseta vestnorrænu þjóðþinganna. Ákveðið var að þeir mundu leggja til við þingforsetana að Vestnorræna ráðið tæki til umræðu og ályktunar stöðu samningsins og einstakra mála sem undir hann falla eftir því sem tilefni gæfist til á ársfundum þess.
    Í þriðja lagi var fyrsti formlegi fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og sendinefndar Evrópuþingsins (SIN/EEA-nefndin) haldinn hérlendis um vorið í kjölfar samþykktar forseta Evrópuþingsins á beiðni Vestnorræna ráðsins um að koma á fót formlegum samskiptum milli ráðsins og þingsins.

2. Almennt um Vestnorræna ráðið.
    Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi 24. september 1985. Með því var formfest samstarf landanna þriggja sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.
    Markmið ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, gæta auðlinda og menningar Norður-Atlantshafssvæðisins, fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna landanna og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo að fátt eitt sé nefnt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur saman til ársfundar sem fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð formanni landsdeildar hvers aðildarríkis, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Ráðið heldur árlega þemaráðstefnu þar sem sérstakt málefni er tekið fyrir og getur auk þess skipað vinnunefndir um tiltekin mál. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna, virkri þátttöku í norrænu og evrópsku samstarfi, samvinnu við norðurheimskautsstofnanir og skipulagningu á ráðstefnum og fundum.

3. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í upphafi árs 2008 skipuðu Íslandsdeildina eftirtaldir þingmenn sem aðalmenn: Karl V. Matthíasson formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Árni Johnsen varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðni Ágústsson, þingflokki Framsóknarflokks, Guðjón A. Kristjánsson, þingflokki Frjálslynda flokksins, Guðbjartur Hannesson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Herdís Þórðardóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bjarni Harðarson, þingflokki Framsóknarflokks, Jón Magnússon, þingflokki Frjálslynda flokksins, Katrín Júlíusdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Kristján Þór Júlíusson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Þær mannabreytingar urðu í Íslandsdeild að Birkir J. Jónsson tók við af Guðna Ágústssyni eftir að Guðni tilkynnti 17. nóvember í bréfi til forseta Alþingis að hann hefði sagt af sér þingmennsku. Varamaður Birkis varð Höskuldur Þórhallsson. Magnea Marinósdóttir gegndi starfi ritara Íslandsdeildar.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt þrjá fundi á árinu. Bar hæst undirbúning fyrir þemaráðstefnu um björgunarmál í Norður-Atlantshafi og ársfundinn sem haldinn var í Grundarfirði í lok sumars þar sem Íslandsdeildin lagði fram þrjár ályktunartillögur. Jafnframt lagði Íslandsdeildin fram tillögu um eftirfylgni á vettvangi Norðurlandsráðs við ályktun Vestnorræna ráðsins og þemaráðstefnu um björgunar- og öryggismál á Norður-Atlantshafi og tillögu um þema fyrir næstu þemaráðstefnu sem báðar voru samþykktar á fundinum. Að lokum tóku Færeyjar við formennsku Vestnorræna ráðsins af Íslandi á fundinum.

4. Fundir Vestnorræna ráðsins 2008.
    Vestnorræna ráðið hélt að venju þemaráðstefnu í júní og ársfund í ágúst. Þá voru haldnir sex forsætisnefndarfundir á árinu auk þess sem forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins átti fund með sendinefnd Evrópuþingsins og forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Að lokum var haldinn einn fundur á vegum endurskoðunarnefndar Vestnorræna ráðsins sem Árni Johnsen varaformaður átti sæti í.
    
Forsætisnefndarfundur 9. janúar í Kaupmannahöfn.
    Fyrsti fundur forsætisnefndar undir forsæti Karls V. Matthíassonar var haldinn í húsakynnum sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn. Formenn landsdeilda Færeyja og Grænlands, þeir Hendrik Old og Jonathan Motzfeldt, voru einnig á fundinum auk ritara landsdeildanna og framkvæmdastjóra ráðsins, Þórðar Þórarinssonar.
    Svavar Gestsson sendiherra bauð nefndarmenn velkomna í upphafi fundar. Hann gerði síðan stutta grein fyrir starfsemi sendiráðsins og greindi frá fyrirhuguðum fundi utanríkisráðherra Íslands og Grænlands í maí. Eftir að sendiherrann lauk máli sínu var fundur forsætisnefndar settur. Fyrsta mál á dagskrá voru tillögur að reglum fyrir afmælissjóð Vestnorræna ráðsins. Sjóðurinn var stofnaður í tilefni 10 ára afmælis ráðsins árið 2007. Markmið sjóðsins er að stuðla að gagnkvæmum heimsóknum vestnorrænna skólabarna milli Vestur-Norðurlandanna. Framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins kynnti drög að reglum um sjóðinn að fyrirmynd Vestnorræna barna- og unglingabókaverðlaunasjóðsins sem hann hafði unnið í samráði við formann og ritara landsdeildar Grænlands. Fundurinn samþykkti reglurnar að teknu tilliti til tveggja athugasemda sem komu fram á fundinum frá formanni landsdeildar Grænlands.
    Næst voru teknar til umræðu ályktanir Vestnorræna ráðsins sem nokkurs misskilnings hefur gætt um. Má þar nefna ályktun ráðsins nr. 3/2007 um samvinnu á sviði öryggis- og björgunarmála. Sú ályktun var felld í grænlenska landsþinginu á grundvelli þess að björgunarmál væru ekki á forræði Grænlands heldur Danmerkur. Formenn landsdeilda Vestnorræna ráðsins voru á einu máli um að ályktunin hefði verið felld á röngum forsendum, þ.e. að þrátt fyrir að björgunarmál væru fyrst og fremst á forræði Danmerkur gætu Grænlendingar samt sem áður óskað eftir nánara samstarfi milli landa við Norður-Atlantshaf um björgunar- og öryggismál hafsins. Í því sambandi benti Jonathan Motzfeldt á að þrátt fyrir að Danmörk bæri formlega ábyrgð á björgunarmálum væri hvert sveitarfélag í landinu hluti af almannavarnakerfi Grænlands á sviði leitar og björgunar. Í framhaldinu var rætt um að leggja ályktunartillögur fram með góðum fyrirvara þannig að allar landsdeildir hefðu tök á því að kynna sér efni þeirra vel fyrir ársfund og skapa þar með forsendur fyrir góða málefnaumræðu og koma í veg fyrir misskilning. Framkvæmdastjórinn benti jafnframt á mikilvægi þess að landsdeildirnar kæmu tímanlega fram með tillögur að þeim málum sem ársfundurinn vildi leggja fram til umræðu á Norðurlandaráðsþingi á grundvelli samstarfssamnings ráðanna. Að lokum var rætt hvernig best væri hægt að tryggja framgang ályktana Vestnorræna ráðsins. Fundarmenn voru sammála um að eiga sérstaka fundi með ráðherrum þegar búið væri að leggja ályktanirnar formlega fram til þeirra. Einnig var samþykkt að formaður Vestnorræna ráðsins heimsækti öll löndin annað hvert ár til að kynna efni ályktana ráðsins og fá viðbrögð ráðherra við þeim.
    Karl V. Matthíasson greindi því næst frá forsætisnefndarfundi Norðurlandaráðs um öryggis- og björgunarmál sem haldinn var í Reykjavík 14. desember og hann tók þátt í sem formaður Vestnorræna ráðsins. Að hans sögn var frumkvæði Vestnorræna ráðsins um öryggis- og björgunarmál með vísan í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 3/2007 lofað af Dagfinn Høybråten, forseta Norðurlandaráðs. Karl kynnti því næst drög að dagskrá þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Færeyjum um leitar- og björgunarmál í Norður-Atlantshafi. Dagskráin gerði ráð fyrir þátttöku ráðherra og þeirra sem sjá um landhelgisgæslu, björgun og leit á öllum Vestnorrænu löndunum, auk þátttakenda frá Danmörku, Noregi, Bandaríkjunum, Kanada og Rússlandi, Norðurlandaráði, norrænu ráðherranefndinni og norræna Atlantssamstarfinu (NORA). Fundurinn samþykkti að formaðurinn mundi vinna endanlega dagskrá þemaráðstefnunnar í samstarfi við framkvæmdastjóra ráðsins.
    Þemadagur um sögu og menningu Vestur-Norðurlanda, sem búið var að ákveða að halda samhliða ársfundi ráðsins á Grundarfirði, kom næst til umræðu. Formaðurinn greindi frá því að allar líkur væru á því að aukafjárveiting upp á 500 þús. kr. yrði veitt frá Alþingi til að halda ráðstefnuna. Formenn annarra landsdeilda töldu einnig allar líkur á því að mótframlag upp á 250 þús. kr. yrði samþykkt í þeirra landsþingum. Framkvæmdastjóri ráðsins lagði áherslu á að afgreiðsla á fjárframlagi til þemadagsins yrði afgreitt sem fyrst til að hægt væri að hefja undirbúning. Hann greindi einnig frá því að vinna við bók um sögu Vestur-Norðurlandanna gengi vel en til stendur að bókin komi út haustið 2009.
    Framkvæmdastjórinn upplýsti að val á verðlaunahafa Vestnorræna barna- og unglingabókaverðlaunanna hefði fengið mikla og jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum og bókmenntatímaritum.
    Formaðurinn greindi því næst frá efni bréfs dags 5. desember 2007 sem Bilyana Raeva, formaður SIN/EEA-sendinefndar Evrópuþingsins, hefði sent til Hans-Gert Pöttering, forseta Evrópuþingsins, eftir fundi hennar og Jens-Peter Bonde, varaformanns sendinefndarinnar, með formanni Vestnorræna ráðsins á Norðurlandaráðsþinginu í Osló í lok október 2007. Tilefni fundanna var tilmæli Vestnorræna ráðsins til Evrópuþingsins um að bæta upplýsingaflæði til Evrópuþingsins um málefni norðurslóða með því að koma á fót sérstakri upplýsingaskrifstofu eða formlegum samskiptum við Vestnorræna ráðið. Í bréfinu er lagt til að sendinefnd Evrópuþingsins, sem sér m.a. um formleg samskipti við Norðurlandaráð og þingmannaráðstefnuna um norðurskautsmál, taki einnig að sér formleg samskipti við Vestnorræna ráðið. Forsætisnefndarfundurinn samþykkti að fela formanninum að beita sér fyrir því að eiga fund með sendinefnd Evrópuþingsins til að ræða málið frekar þegar sendinefndin kæmi til fundar við þingmannanefnd EES á Íslandi í lok apríl. Jonathan Motzfeldt, sem átti frumkvæðið að tilmælum Vestnorræna ráðsins til Evrópuþingsins og Evrópusambandsins, lýsti yfir ánægju sinni með árangurinn en lagði samtímis áherslu á að reynt yrði að fá upprunalega tillögu sína um stofnun sérstakrar upplýsingaskrifstofu á vegum ESB um málefni norðurslóða samþykkta.
    Áður en fundi var slitið voru Henrik Old, formanni færeysku landsdeildarinnar, þökkuð vel unnin störf en hann lét af þingmennsku eftir kosningarnar 19. janúar og hafði þá starfað með Vestnorræna ráðinu frá stofnun. Sem kveðjugjöf fékk hann ljósmyndabók um Ísland og kort frá árinu 1775 af Vestur-Norðurlöndunum. Jafnframt voru Ole Stavad færðar þakkir fyrir vel unnin störf í þágu Vestur-Norðurlandanna sem fulltrúa Norðurlandaráðs á fundum Vestnorræna ráðsins en hann hafði þá nýverið látið af þingmennsku í danska þinginu.

Forsætisnefndarfundur 28. apríl í Reykjavík.
    Annar fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins var haldinn í húsakynnum Alþingis. Formaður Vestnorræna ráðsins, Karl V. Matthíasson, stjórnaði fundi en auk hans voru á fundinum Kári P. Højgaard, nýr formaður landsdeildar Færeyja, og Ruth Heilmann, forseti Landsþings Grænlands og nýr formaður landsdeildar Grænlands. Auk formannanna voru á fundinum ritarar landsdeildanna og Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins.
    Fyrir fund sinn átti forsætisnefnd fyrst fundi með Lasse Reimann, sendiherra Danmerkur á Íslandi, og Gunnvør Balle, sendiherra Færeyja á Íslandi. Fundirnir fóru fram í danska sendiráðinu og færeysku sendiskrifstofunni þar sem m.a. var rætt um fyrirhugaða þemaráðstefnu ráðsins um öryggis- og björgunarmál.
    Fyrsta mál forstætisnefndarfundar var hins vegar umfjöllun um eftirfylgni og framkvæmd ályktana Vestnorræna ráðsins. Kom fram í máli formanns og framkvæmdastjóra að framkvæmdarvaldið héldi að sér höndum þangað til ályktanir Vestnorræna ráðsins hefðu hlotið formlega afgreiðslu í þingunum. Þannig hefði sein afgreiðsla í þingunum hamlandi áhrif á eftirfylgni og framkvæmd ályktana Vestnorræna ráðsins. Sem dæmi hefðu ályktanir Vestnorræna ráðsins frá ársfundinum 2007 fyrst verið endanlega afgreiddar frá Alþingi allt að ári síðar. Af því leiddi að ályktun kæmi ekki til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi ári eftir að hún væri upprunalega samþykkt. Fundurinn ákvað að forsætisnefnd mundi gera það að tillögu sinni á ársfundi að samþykkt yrðu tilmæli um að ályktanir Vestnorræna ráðsins yrðu afgreiddar fyrir áramót í þingunum til að flýta fyrir framkvæmd þeirra.
    Formennirnir ræddu einnig mikilvægi þess að láta einstaka þingmenn landsdeildanna gera grein fyrir ályktunum Vestnorræna ráðsins í þingunum, m.a. til að koma í veg fyrir allan misskilning um efni þeirra. Einnig voru áréttuð þau tilmæli til landsdeildanna að koma ályktunartillögum sínum á framfæri hver við aðra með góðum fyrirvara þannig að hægt væri að koma á framfæri athugasemdum eða breytingartillögum a.m.k. mánuði fyrir ársfund.
    Formanni ráðsins og framkvæmdastjóra var því næst falið að vinna greinargerð um ályktun ráðsins um stofnun norræns lýðháskóla á Vestur-Norðurlöndunum í samvinnu við þá sem áttu frumkvæði að málinu með það að markmiði að leiðrétta misskilning um efni hennar.
    Framkvæmdastjórinn vék því næst að endurskoðunarnefnd ráðsins sem sett var á laggirnar til að endurskoða bæði gildar og ógildar ályktanir ráðsins með það fyrir augum að sameina efni þeirra í eina eða tvær nýjar ályktanir ef efni stæðu til. Upplýsti hann að nefndin mundi hittast fyrir þemaráðstefnuna í júní í Færeyjum. Á þeim fundi mundi nefndin skipta með sér verkum og hittast síðan aftur þremur vikum síðar á vinnufundi til að ljúka störfum sínum fyrir næsta ársfund. Í nefndinni átti Árni Johnsen sæti fyrir hönd Íslands, Andrias Petersen fyrir hönd Færeyja og Thomas Kristensen fyrir hönd Grænlands.
    Stofnun afmælissjóðs Vestnorræna ráðsins var næst tekin á dagskrá. Kom fram að forsætisnefnd Alþingis hefði samþykkt stofnun sjóðsins fyrir sitt leyti og sent áleiðis tillögu til fjárlaganefndar fyrir fjárlagaárið 2009. Sömu sögu væri að segja frá Grænlandi en óvíst var um stöðuna í Færeyjum að sögn Kára Højgaard sem sagði jafnframt að hann mundi kanna málið fljótlega. Því næst vék framkvæmdastjórinn að því að ekkert þinganna hefði samþykkt aukafjárveitingu til að halda þemadag um sameiginlega sögu og menningu Vestur-Norðurlandanna í tengslum við næsta ársfund. Fundurinn ákvað að ganga í málið þar sem ekki væri hægt að hefja undirbúning og skipulagningu dagsins án þess að fyrir lægi fjárveiting. Í tengslum við umræðuna um þemadaginn stakk Ruth Heilmann upp á því að Vestnorræna ráðið stofnaði til vestnorræns dags sem haldinn yrði hátíðlegur árlega í öllum löndunum. Vísaði hún til vestnorræna dagsins sem haldinn var í annað sinn á Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn helgina 26. og 27. apríl þar sem hvert Vestur-Norðurlandanna var með sinn landkynningarbás, auk þess sem matur og munir frá löndunum þremur voru seldir á staðnum, tónlistaratriði flutt og fleira. Rætt var um að halda fyrsta vestnorræna daginn hátíðlegan þegar bókin um sameiginlega sögu og menningu Vestur-Norðurlandanna verður gefin út haustið 2009. Síðar yrði tekin ákvörðun um hvaða dagur yrði fyrir valinu og hvernig hann yrði skipulagður. Ein hugmyndin var að halda árlega upp á daginn á öllum Vestur-Norðurlöndunum, en halda hann sérstaklega hátíðlegan í einu þeirra hvert ár. Einnig kom sú spurning fram hvort betra væri að ráða verkefnisstjóra til að skipuleggja daginn eða stofna undirbúningsnefnd. Fundurinn ákvað að forsætisnefnd mundi gera það að tillögu sinni á ársfundi að stofnað yrði til árlegs vestnorræns dags en láta frekari umræðu um skipulag bíða betri tíma.
    Í umræðu um barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins kom fram í máli framkvæmdastjóra að verið væri að þýða bækurnar sem útnefndar voru frá hverju landi fyrir sig á tungumál hinna tveggja auk þess sem verið væri að þýða allar bækurnar á dönsku.
    Framkvæmdastjórinn kynnti þarnæst endurskoðaða ársreikninga ráðsins. Í máli hans kom fram að tekjuafgangur væri um 60 þúsund danskar krónur frá árinu 2008. Hann væri tilkominn vegna styttri og þar af leiðandi ódýrari ferða á vegum ráðsins. Ferðir formanns og framkvæmdastjóra yrðu hins vegar dýrari árið 2008 þar sem áfangastaðir væru lengra í burtu en árinu áður og voru Alaska og Rússland nefnd sem dæmi. Formaður Vestnorræna ráðsins gerði það því að tillögu sinni við forsætisnefndarfund að tekjuafgangur ráðsins frá árinu 2007 yrði fluttur yfir til ársins 2008 til að standa straum af auknum kostnaði ef nauðsyn krefði. Fundurinn samþykkti tillögu formanns. Í sambandi við þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í júní kom fram í máli framkvæmdastjóra að allur undirbúningur gengi vel og að verið væri að skipuleggja sameiginlega björgunaræfingu á lokadegi ráðstefnunnar þar sem leitar- og björgunarsveitir frá öllum Vestur-Norðurlöndunum mundu taka þátt.
    Fundurinn ákvað að lokum að allir þingmenn Vestnorræna ráðsins ættu að hafa aðgang að fundargerðum frá forsætisnefndarfundum og að formleg tillaga þess efnis yrði borin upp á næsta forsætisnefndarfundi.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og sendinefndar Evrópuþingsins 28. apríl í Reykjavík.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins átti sinn fyrsta formlega fund með sendinefnd Evrópuþingsins (SIN/EEA-nefndinni) hérlendis 28. apríl. Fundurinn er hluti af reglulegum samskiptum sem ákveðið var að efna til að tillögu formanns Vestnorræna ráðsins við formann sendinefndarinnar, þingkonuna Bilyana Raeva frá Búlgaríu. Hún setti fundinn með þeim orðum að það væri þingmönnum Evrópuþingsins gleðiefni að vera mætt til fundar við Vestnorræna ráðið. Eftir formlega kynningu á sendinefnd Evrópuþingsins og forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins hófst umræða um þau mál sem voru á dagskrá þessa fyrsta fundar. Þingmenn sendinefndarinnar héldu framsögu um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á norðurslóðum, um stefnumótun á sviði siglinga og öryggismála í norðurhöfum og að lokum um viðgang og verndun þjóðmenningar innan ramma hinnar norðlægu víddar ESB.
    Karl V. Matthíasson, formaður Vestnorræna ráðsins, tók næstur til máls. Hann tók undir orð formanns sendinefndarinnar og sagði að honum væri það sérstök ánægja að taka á móti sendinefndinni á Íslandi. Því næst vék hann að mikilvægi þess að Evrópusambandið kæmi í auknum mæli að tveimur málaflokkum. Í fyrsta lagi að björgunar- og öryggismálum í Norður-Atlantshafi og í öðru lagi að greiningu og úrlausn félagslegra vandamála frumbyggja á norðurslóðum, sem og mótun og framkvæmd fyrirbyggjandi aðgerða.
    Þingmennirnir voru sammála um að margir snertifletir samstarfs væru til staðar milli Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins. Formaður sendinefndarinnar lagði áherslu á að ráðstefnur Evrópuþingsins væru kjörinn vettvangur fyrir vestnorræna þingmenn til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Varaformaður sendinefndarinnar, Jens-Peter Bonde, bætti því við að gagnkvæm boð á fundi og ráðstefnur væru liður í því að tryggja sem best samstarf Evrópuþingsins og Vestnorræna ráðsins til frambúðar. Hann benti jafnframt á að Færeyjar og Grænland, jafnvel undir hatti Vestnorræna ráðsins, gætu stofnað sínar eigin sendiskrifstofur í Evrópuþinginu óháð danska utanríkisráðuneytinu. Það mundi veita þjóðunum möguleika á því að fylgjast milliliðalaust með umræðunni í Evrópuþinginu um mál sem snertu hagsmuni landanna beint. Föst viðvera innan þingsins gæfi jafnframt sendifulltrúum færi á að mynda sambönd við aðra sendifulltrúa og ekki síst þingmenn sem eiga sæti í fastanefndum þingsins þar sem unnið er að löggjöf ESB. Þar með væri opnað á þann möguleika að hafa áhrif á stefnumótun og löggjöf innan sambandsins þar sem Evrópuþingið gegnir sífellt mikilvægara hlutverki eftir því sem lýðræðishallinn svonefndi innan ESB er réttur af. Nefndi hann Lissabon-sáttmálann til sögunnar í því sambandi en hann tekur til breytinga á skipulagi og starfsháttum stofnana ESB og þar með valdahlutföllum innan bandalagsins. Sem dæmi um aðkomu að mikilvægum málaflokki fyrir Vestur-Norðurlöndin nefndi hann nefnd um loftslagsbreytingar sem nýverið hafið verið sett á stofn og einn þingmaður sendinefndarinnar ætti sæti í. Myndun slíkra tengsla væri mikið hagsmunamál þegar kæmi að upplýsingagjöf og áhrifum ekki síst í ljósi þess að um 300 nefndir og vinnuhópar starfa í þinginu og alls 3.094 á vegum framkvæmdastjórnar ESB.
    Alyn Smith, skoskur þingmaður og framsögumaður um stefnumótun um málefni hafsins, tók undir orð Bonde. Hann lýsti því yfir að Vestnorræna ráðið hefði mikið fram að færa á ýmsum sviðum, ekki síst hvað málefni hafsins snerti. Hann bætti því við að skoska þingið hefði jafnvel áhuga á að fá aðild að Vestnorræna ráðinu og vísaði sérstaklega til Orkneyja og Hjaltlands í því sambandi. Samkvæmt því sem kom fram í máli framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins hefur aðild Skotlands í formi áheyrnaraðildar áður komið til tals en engar ákvarðanir verið teknar.
    Formaður sendinefndarinnar bauð því næst þingmönnum Vestnorræna ráðsins á þingmannaráðstefnu um norðlægu víddina sem verður haldin vorið 2009. Að lokum kynnti formaður Vestnorræna ráðsins dagskrá þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í júní og bauð sendinefnd Evrópuþingsins að senda fulltrúa sinn á ráðstefnuna sem formaðurinn þáði fyrir hönd sendinefndarinnar.

Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um leitar- og björgunarsamstarf á Norður-Atlantshafi 5.–8. júní í Þórshöfn í Færeyjum.
    Vestnorræna ráðið hélt árlega þemaráðstefnu sína í Þórshöfn í Færeyjum dagana 5.–8. júní. Ráðstefnuna sóttu vestnorrænir þingmenn, ráðherrar utanríkismála í Færeyjum og Grænlandi, Høgni Hoydal og Aleqa Hammond, sjávarútvegsráðherra Færeyja, Tórbjørn Jacobsen, þingmenn annarra Norðurlanda og fulltrúar Norðurlandaráðs og yfirmenn leitar- og björgunarmála Vestur-Norðurlanda auk sérfræðinga. Fyrir hönd Íslandsdeildar sóttu fundinn Karl V. Matthíasson formaður, Árni Johnsen varaformaður, Guðni Ágústsson, Jón Gunnarsson, Guðjón A. Kristjánsson og Ásta R. Jóhannesdóttir sem varamaður Guðbjarts Hannessonar, auk Magneu Marinósdóttur, ritara Íslandsdeildar.
    Þema ráðstefnunnar var björgunarviðbúnaður á Norður-Atlantshafi og möguleikar á að styrkja fjölþjóðlegt samstarf um leitar- og björgunarmál. Í tengslum við ráðstefnuna fór einnig fram björgunaræfing 8. júní með þátttöku Slysavarnafélagsins Landsbjargar og færeyskra systrasamtaka þess, Landhelgisgæslu Íslands og færeysku landhelgisgæslunnar, auk færeyskrar stjórnstöðvar danska sjóhersins.
    Formaður Vestnorræna ráðsins, Karl V. Matthíasson, setti ráðstefnuna. Í ræðu sinni vék hann að tíðari komum skemmtiferða- og flutningaskipa til Norður-Atlantshafssvæðisins sem skapaði aukna mengunar- og slysahættu. Lagði hann áherslu á mikilvægi þess að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða og eiga fjölþjóðlegt samstarf um gerð leitar- og björgunaráætlana sem tækju mið af þessum veruleika.
    Trausti Valsson, skipulagsfræðingur og dósent við verkfræðideild við Háskóla Íslands, gerði því næst grein fyrir þeirri þróun sem er að verða á norðurslóðum vegna hlýnunar loftslags, einkum auknum aðgangi að náttúruauðlindum og tilkomu nýrra siglingaleiða yfir norðurpólinn. Máli sínu til stuðnings setti hann fram tölulegar upplýsingar um fjölda skemmtiferðaskipa sem komu til Reykjavíkur á tímabilinu 1986–2005. Árið 1986 komu 19 skip með 7.740 farþega um borð en árið 2005 komu 77 skip með 54.795 farþega.
    Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, gerði síðan grein fyrir valinu á þema ráðstefnunnar með vísan til mögulegra afleiðinga þeirra breytinga sem Trausti fjallaði um í erindi sínu, fyrir öryggi á hafi úti á norðurslóðum.
    Að loknu erindi framkvæmdastjórans tóku yfirmenn landhelgisgæslu á Vestur-Norðurlöndunum til máls, þeir Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, Ásgrímur L. Ásgrímsson, yfirmaður Vaktstöðvar siglinga hjá Landhelgisgæslu Íslands, Robert Jørgen Olsen, forstjóri landhelgisgæslu Færeyja, Henrik Bunde Kudsk, yfirmaður grænlenskrar stjórnstöðvar danska sjóhersins, og Per Starklint, yfirmaður færeyskrar stjórnstöðvar danska sjóhersins, auk Bente Michaelsen frá norska dómsmálaráðuneytinu. Í erindum sínum veittu þau upplýsingar um þann björgunarviðbúnað sem fyrir hendi er hjá hverri stofnun fyrir sig og þar með yfirlit yfir stöðu öryggis- og björgunarmála á Norður-Atlantshafssvæðinu.
    Í framsögu þeirra allra kom fram að nú þegar væri samkomulag til staðar milli stofnana um samvinnu um leit og björgun á hafi. Vestur-Norðurlöndin eiga samstarf á grundvelli tveggja samkomulaga frá árunum 1996 og 2007 sem gilda á milli Landhelgisgæslu Íslands og danska sjóhersins sem sér um landshelgisgæslu, leit og björgun, utan þriggja sjómílna lögsögu Grænlands og tólf mílna lögsögu eða landhelgi Færeyja. Færeyingar eiga síðan samstarf við danska sjóherinn og Skotland samkvæmt sérstöku samkomulagi sem var gert eftir að færeyska heimastjórnin tók við björgunarmálum af danska sjóhernum innan landhelgi Færeyja 2. apríl 2002 og almannavörnum 1. janúar 2007. Íslenska landhelgisgæslan á samvinnu við bandarísku landhelgisgæsluna samkvæmt sérstakri bókun og landhelgisgæslu Svíþjóðar og Noregs samkvæmt óformlegu samkomulagi en í máli Bente Michaelsen kom fram að Norðmenn væru í auknum mæli að færa viðbúnað sinn norðar vegna þeirra breytinga sem nú verða vegna hlýnunar. Þá á Landhelgisgæsla Íslands aðild að Samtökum um landhelgisgæslu við Norður-Atlantshaf (e. North-Atlantic Coast Guard Forum) sem er vettvangur fyrir samráð og stefnumótun mismunandi vinnuhópa innan samtakanna. Landhelgisgæsla Íslands verður í formennsku í samtökunum árið 2009.
    Bogi Elíason frá Færeyjum veitti yfirlit yfir samninga á sviði leitar og björgunar. Í erindi sínu gerði hann greinarmun á alþjóðlegum, svæðisbundnum og tvíhliða samningum milli ríkja og samningum sem stofnanir eða deildir gera sín á milli. Alþjóðlegir samningar sem hann tilgreindi voru hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna frá 1958, samningar Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um flugslys og samningar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar frá 1974 um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS) og frá 1979 um leit og björgun á sjó (SAR). Sá síðastnefndi er rammasamningur þar sem kveðið er á um að nágrannaríki geri með sér nánari tvíhliða og svæðisbundna samninga. Í máli Boga kom fram að erfitt væri að fá yfirsýn yfir þá samninga sem ríki gera með sér á grundvelli rammasamninga. Eingöngu 29 slíkir sérsamningar væru skráðir hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni. Bogi nefndi að lokum sérstaklega samning sem Bretland, Bandaríkin og Kanada gerðu með sér á sínum tíma og Ísland, Spánn og Portúgal hefðu óskað eftir að fá aðild að. Að hans mati væri æskilegt að fá Færeyjar og Grænland einnig um borð ef til kæmi. Á sama tíma varaði hann við því að ganga inn í kerfi sem hugsanlega hentaði ekki öllum Vestur-Norðurlöndunum jafnt eða gerði það að verkum að þau misstu áhrif um sín eigin mál.
    Niðurstaða ráðstefnunnar var að mikið og gott samstarf væri til staðar um björgunar- og öryggismál hafsins. Hins vegar væri þörf á að búa til heildstætt yfirlit yfir þau lög og reglur sem ná til siglinga, efla alþjóðlegt samstarf um björgunarmál og æfingar og gera aðgerðaáætlun um hvernig viðbrögðum og samstarfi skuli vera háttað milli landa í tilviki meiri háttar sjóslysa. Ferðir skemmtiferðaskipa við strendur Grænlands var tekið sem dæmi um nauðsyn aukins samstarfs og gerð neyðaráætlana. Þau sigla mörg hver mjög nálægt ísjökum og í sumum tilvikum sé ferðamönnum jafnvel leyft að klifra upp á ísjaka. Það skapaði augljóslega mikla slysahættu. Í máli yfirmanns stjórnstöðvar danska sjóhersins á Grænlandi kom fram að stöðin gæfi út viðvaranir til skipstjóra. Vandamálið væri hins vegar að engin bindandi lög eða reglur giltu um siglingar á hafsvæðinu við Grænland innan þriggja sjómílna og að sama skapi engin viðurlög. Það væri hlutverk heimastjórnarinnar að setja lög og reglur sem gilda innan þriggja sjómílna til að fyrirbyggja hugsanleg stórslys, til að mynda lög um mörkun viðkvæmra svæða, öruggar sjóleiðir og leiðsögumenn um borð. Það sama gilti um búnað skipa eins og það hvort skip eru með einfaldan eða tvöfaldan byrðing. Alþjóðlegar reglur vantaði um slíkan búnað sem skipti miklu máli þegar kemur að öryggi siglinga á hafíssvæðum. Aleqa Hammond, utanríkisráðherra Grænlands, lýsti því yfir í kjölfarið að hún ætlaði að ræða stöðu björgunarmála við dönsk yfirvöld, enda væri von á um 55 skemmtiferðaskipum til Grænlands sumarið 2009. Í framhaldinu lagði Høgni Hoydal, utanríkisráðherra Færeyja, til nánari samvinnu á sviði leitar- og björgunarmála meðal Vestur-Norðurlandanna og Noregs sem yrði útvíkkuð til allra þeirra sem aðild eiga að Norðurlandaráði þegar fram liðu stundir, með það að markmiði að leggja fram sameiginlegar tillögur til Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um siglingaöryggi.
    Á lokadegi ráðstefnunnar gerði Jón Gunnarsson alþingismaður grein fyrir starfsemi og skipulagi Landsbjargar og leitar- og björgunarsveita á Íslandi. Voru menn sammála um að kanna skyldi möguleika á gerð samninga milli Vestur-Norðurlandanna um gagnkvæma björgunaraðstoð, sameiginlegar æfingar og samvinnu um kaup á björgunarbúnaði að fyrirmynd samkomulags sem er fyrir hendi á milli Íslands og Noregs.

Ársfundur Vestnorræna ráðsins 25.–28. ágúst í Grundarfirði.
    Ársfundur Vestnorræna ráðsins fór fram dagana 25.–28. ágúst í Grundarfirði. Fundinn sóttu fyrir hönd Íslandsdeildar Karl V. Matthíasson, formaður, Árni Johnsen, varaformaður, Guðbjartur Hannesson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Gunnarsson og Siv Friðleifsdóttir, auk Magneu Marinósdóttur, ritara Íslandsdeildar. Gestir fundarins voru Björgvin G. Sigurðsson, samstarfsráðherra Norðurlandanna, Kent Olsson, varaforseti Norðurlandaráðs og áheyrnarfulltrúi þess hjá Vestnorræna ráðinu, Gunnar Olav Ballo, varaforseti norska þingsins, Lars Thostrup, forstöðumaður norræna Atlantssamstarfsins (NORA) og Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Sérstakur dagskrárliður var reynsla Íslands og Færeyja af Hoyvíkursamningnum þar sem Høgni Hoydal, þáverandi ráðherra utanríkismála í Færeyjum, og Martin Eyjólfsson, sviðsstjóri viðskiptasviðs utanríkisráðuneytis Íslands, voru með framsögu.
    Ársfundurinn hófst á því að þingmenn skipuðu sér í vinnuhópa til að taka afstöðu til vinnu endurskoðunarnefndar Vestnorræna ráðsins um eldri ályktanir þess. Eftir að niðurstöður vinnuhópanna höfðu verið kynntar gerðu formenn landsdeilda ráðsins grein fyrir starfseminni undanfarið ár. Formaður Íslandsdeildar fjallaði um undirbúning deildarinnar fyrir þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um öryggis- og björgunarmál og þakkaði sérstaklega þeim Jóni Gunnarssyni þingmanni og Kristni Ólafssyni, framkvæmdastjóra Landsbjargar, fyrir þeirra framlag. Því næst gerði hann grein fyrir þeim þremur tillögum sem Íslandsdeildin lagði fyrir ársfundinn. Það var í fyrsta lagi eftirfylgni við ályktun ráðsins um öryggis- og björgunarmál og þemaráðstefnuna í formi tilmæla til Norðurlandaráðs um stofnun vinnuhópa á vegum norrænu ráðherranefndarinnar sem hefðu það hlutverk að vinna að mati á stöðu öryggismála á Norður-Atlantshafi annars vegar og að sameiginlegri viðbragðsáætlun í tilviki alvarlegra sjóslysa hins vegar. Í öðru lagi gerði hann grein fyrir tillögu Árna Johnsen, varaformanns, um að námsleiðir fyrir ófaglærða yrði þema næstu þemaráðstefnu ráðsins. Að lokum greindi hann frá tillögu um stuðningsyfirlýsingu við sjálfbærar veiðar, þ.m.t. hval- og selveiðar, sem var sett fram í ljósi þess að Íslendingar hófu atvinnuhvalveiðar vorið 2008. Jafnframt lá fyrir fundinum ályktunartillaga frá landsdeild Grænlands um stofnun vestnorræns dags.
    Kosning nýs formanns og varaformanna fór fram eftir að ársreikningar höfðu verið samþykktir. Í ræðu sinni gerði fráfarandi formaður, Karl V. Matthíasson, m.a. grein fyrir samkomulagi Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins um formleg samskipti sem gengið var frá í upphafi árs. Fyrsti formlegi fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og sendinefndarinnar var haldinn á Íslandi 28. apríl og lagði formaðurinn áherslu á að forsætisnefnd hæfi undirbúning fyrir næsta fund með sendinefndinni, sem yrði í Brussel í lok febrúar árið 2009. Jafnframt hvatti Karl til þess að hafinn yrði undirbúningur að 15 ára afmælishátíð ráðsins árið 2012. Gerði hann að tillögu sinni að framleitt yrði upplýsingaefni í máli og myndum um Vestur-Norðurlöndin, jafnvel stutt heimildarmynd, í tilefni afmælisins. Í umfjöllun um samstarfið við Norðurlandaráð sagði Karl að hann vonaði að tilmæli Vestnorræna ráðsins til Norðurlandaráðs um eftirfylgni við ályktun ráðsins um öryggis- og björgunarmál mundi fá jafngóðar undirtektir og ályktunin sjálf fékk árinu áður á Norðurlandaráðsþingi. Hann fagnaði aðkomu og áhuga Norðmanna á vestnorrænum málum og upplýsti að Vestnorræna ráðið hefði ákveðið að leita eftir stuðningi NORA til að vinna að undirbúningi þess að auka samstarf björgunarsveita sjálfboðaliða á Vestur-Norðurlöndum annars vegar og að koma á fót björgunarsveitum á Grænlandi hins vegar. Sagði hann það vera von sína að bæði markmiðin gætu orðið að veruleika. Í umfjöllun um þátttöku sína á fundum þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál sagði Karl að hann hefði í máli sínu lagt áherslu á áhrif loftslagsbreytinga, öryggis- og björgunarmál á hafi úti og félagsleg vandamál íbúa á norðurskautssvæðum. Það hefði verið honum gleðiefni þegar hann heyrði af því að öryggis- og björgunarmál væru eitt málanna á dagskrá þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin var í Fairbanks í Alaska dagana 12.–14. ágúst. Hann gerði að tillögu sinni að Vestnorræna ráðið legði í nánustu framtíð aukna áherslu á jafnréttismál, stöðu veiðimannasamfélaga Vestur-Norðurlandanna og lausnir á félagslegum vandamálum. Að lokum bauð hann nýkjörinn formann Vestnorræna ráðsins, Kára P. Højgaard, velkominn til starfa.
    Nýr formaður hóf innsetningarræðu sína á því að óska Íslendingum til hamingju með silfurverðlaunin í handbolta á Ólympíuleikunum. Hann sagði að Færeyingar upplifðu sigurinn nánast sem sinn eigin og silfurverðlaunin væru mikil hvatning fyrir Færeyinga vegna þeirra nánu banda sem væru á milli þjóðanna. Því næst þakkaði hann fráfarandi formanni og framkvæmdastjóranum starf þeirra á liðnu starfsári og vék að áherslum fyrir næsta starfsár. Hann gerði fyrst að umtalsefni eftirfylgni við ályktanir ráðsins. Svör ráðherra Vestur-Norðurlandanna við spurningum um framgang ályktana Vestnorræna ráðsins sýndu að vissar brotalamir væru í meðförum sumra ráðuneyta. Í þeim tilvikum vildi formaðurinn beita sér fyrir upplýsingaherferð í samvinnu við forsætisnefnd og framkvæmdastjóra ráðsins þar sem m.a. samstarfssamningur ráðsins og ráðuneytanna í löndunum þremur yrði betur kynntur fyrir viðkomandi ráðuneytum. Því næst sagði formaðurinn að hann mundi vinna áfram að því að koma hagsmunamálum Vestur-Norðurlandanna á dagskrá annarra fjölþjóðastofnana í samræmi við áherslur ráðsins og vitnaði í orð fráfarandi formanns um að svæðisbundið samstarf væri ein forsenda þess að styrkja stöðu smáþjóða í stærra alþjóðlegu samhengi. Fyrsta verkefnið í því sambandi yrði að leggja fyrir forsætisnefnd Norðurlandaráðs tilmæli Vestnorræna ráðsins um stofnun vinnuhópa um siglingaöryggi og viðbragðsáætlun við stórslysum á sjó á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Í því sambandi sæi hann einnig fyrir sér nánara samstarf Vestur-Norðurlandanna við Vestur-Noreg. Að lokum mælti hann fyrir því að gerður yrði samningur við Evrópuþingið þar sem kveðið yrði nánar á um hvernig hátta skyldi samskiptum á milli þingsins og Vestnorræna ráðsins. Í því samhengi benti hann á að þemaráðstefnan væri t.d. mikilvægt tæki til að koma vestnorrænum málum og sjónarmiðum á framfæri við Evrópuþingið.
    Í máli áheyrnarfulltrúa Norðurlandaráðs, Kent Olsson, kom fram ánægja með aukið pólitískt inntak í samstarfi Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs og nefndi frumkvæði Vestnorræna ráðsins um öryggis- og björgunarmál í því samhengi. Varaforseti norska stórþingsins, Gunnar Olav Ballo, lagði mikla áherslu á mikilvægi norrænnar samvinnu almennt og vilja Noregs til að vinna með Vestur-Norðurlöndunum að sameiginlegum hagsmunamálum. Nefndi hann Barnahúsið á Íslandi sem dæmi um hvort tveggja en í Noregi hafa þrjú barnahús risið að íslenskri fyrirmynd.
    Í ræðu Björgvins G. Sigurðssonar, samstarfsráðherra Norðurlandanna, kom fram ánægja með það góða og nána samstarf sem Íslendingar eiga við nágranna sína til vesturs innan Vestnorræna ráðsins sem auk funda norrænu samstarfsráðherranna væri mikilvægur vettvangur til að eiga samráð og samvinnu um mikilvæg hagsmunamál. Forstöðumaður NORA sagði frá hlutverki og helstu verkefnum NORA og fyrirhugaðri samvinnu NORA við Vestnorræna ráðið um aukna samvinnu vestnorrænna björgunarsveita. Fundinum lauk með erindi Kristins Ólafssonar, framkvæmdastjóra Landsbjargar, um skipulag björgunarsveita Landsbjargar og heimsókn á æfingasvæði Landsbjargar á Gufuskálum.
    Að beiðni landsdeildar Grænlands var reynslan af Hoyvíkursamningnum sérstakur liður á dagskrá ársfundar Vestnorræna ráðsins 27. ágúst. Anthon Frederiksen, þingmaður frá Grænlandi, sagði að beiðnin væri m.a. tilkomin vegna takmarkana landsstjórnarinnar og embættismannakerfisins á Grænlandi til að meta samninginn út frá hagsmunum Grænlands. Það væri því mikilvægt fyrir þingmennina að heyra um reynslu Íslendinga og Færeyinga af fríverslunarsamningnum milli landanna sem tók gildi í nóvember 2006.
    Høgni Hoydal, þáverandi ráðherra utanríkismála í Færeyjum, og Martin Eyjólfsson, sviðsstjóri viðskiptasviðs utanríkisráðuneytis Íslands, voru frummælendur á fundinum. Þeir voru sammála um að samningurinn, sem nær til allra sviða að landbúnaði og sjávarútvegi undanskildum, virkaði almennt vel. Martin upplýsti að inn- og útflutningur hefði ekki aukist til muna eftir að samningurinn tók gildi. Ástæðan væri sú að viðskipti milli landanna hefðu þegar verið orðin nokkuð mikil áður en samningurinn tók gildi og að landbúnaður og sjávarútvegur væru ennþá undanskilin samningnum. Á sama tíma fengju úrlausnarefni á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs mesta opinbera umfjöllun, t.d. bann við innflutningi eggja frá Færeyjum til Íslands og útflutningi hvalkjöts frá Íslandi til Færeyja. Þetta skyggði nokkuð á ávinning samningsins sem að mati Martins væri mestur á tveimur sviðum enn sem komið væri.
    Í fyrsta lagi væri ávinningur á sviði þjónustusamninga. Sem dæmi hefði samningurinn gert ríkisspítölum Íslands og Færeyja kleift að gera með sér þjónustusamning sem veitir m.a. krabbameinssjúklingum frá Færeyjum möguleika á meðferð hérlendis og felur í sér gagnkvæma kostnaðarhagkvæmni. Martin benti einnig á að samningurinn hefði ýtt undir samkeppni á öðrum sviðum, til að mynda á sviði fjarskiptamála sem væri mikilvægt neytendamál. Markmið til framtíðar væri að láta samninginn í auknum mæli ná til samvinnu á fleiri sviðum, ekki síst á sviði menntunar- og menningarmála.
    Í öðru lagi hefði rammasamningurinn um fríverslun skapað forsendur fyrir reglubundnu samstarfi á milli embættismanna og ráðherra landanna sem var ekki fyrir hendi áður. Það ætti bæði við um svið sem heyrðu undir samningnum og svið sem lægju utan hans eins landbúnaður og sjávarútvegur. Þannig hafi samningurinn búið til betri stofnanaramma en áður til að finna lausnir á málum sem upp kæmu.
    Høgni Hoydal vék að því í framsögu sinni að samningurinn fæli í raun og veru í sér aukið sjálfstæði fyrir Færeyjar og það sama mundi gilda um Grænland þar sem meiri samvinna milli Vestur-Norðurlandanna gerði löndin síður háð Danmörku. Høgni sagði jafnframt að það væri engin ástæða að óttast að Íslendingar eða Færeyingar „keyptu upp“ Grænland. Að öllum líkindum mundu fjárfestar beina sjónum sínum í einhverjum mæli að Grænlandi en samningurinn gæfi líka Grænlendingum kost á að fjárfesta á öðrum vestnorrænum löndum.
    Ruth Heilmann, formaður landsnefndar Grænlands, þakkaði frummælendunum fyrir erindin. Hún benti á að bæði stjórnmálamenn og almenningur væri lítið meðvitaður um hugsanlegan ávinning samningsins fyrir Grænland sem með hliðsjón af reynslu Færeyja og Íslands gæti verið verulegur, t.d. á sviði heilsugæslu, vegna hinna stuttu vegalengda í samanburði við ferðir til Danmerkur. Guðbjartur Hannesson benti í því sambandi á hugmyndir um aukið samstarf á sviði heilbrigðisþjónustu á milli Vestfjarða og austurstrandar Grænlands. Anthon Frederiksen tók undir það sjónarmið að opnun hagkerfisins og aukin samkeppni gæti verið jákvæð. Tók hann sem dæmi hvernig aukin samkeppni frá Íslandi á sviði flugsamgangna á Grænlandi hefði verið af hinu góða fyrir neytendur hvað varðar bæði tíðni flugferða og verð. Karl V. Mattíasson taldi að nýta mætti samninginn betur til að auka samvinnu á sviði menntamála, t.d. með því að koma á kvóta fyrir vestnorræna nemendur í skólum á Vestur-Norðurlöndunum. Í sambandi við landbúnað benti Ruth á að engar hindranir væru á útflutningi hreindýrakjöts frá Grænlandi á markaði Evrópska efnahagssvæðisins vegna aðildar Danmerkur að ESB. Martin sagði að vandamál varðandi inn- og útflutning milli Íslands og Færeyja á sviði landbúnaðarafurða væru einkum tilkomin vegna mismunandi reglna um smitvarnir. Besta leiðin til þess að færa landbúnað undir Hoyvíkursamninginn, sem væri æskilegt að mati Martins til að stuðla að auknum inn- og útflutningi landbúnaðarvara á milli landanna, væri að taka upp reglur ESB um smitvarnir en þær reglur ættu að taka gildi á Íslandi árið 2009.
    Að lokum sagði Høgni Hoydal að samningurinn væri í raun og veru meira en samningur þar sem hann væri nokkurs konar innviður sameiginlegs vestnorræns markaðs- og menningarsvæðis sem hann óskaði að næði í framtíðinni til vesturstrandar Noregs og til fleiri málaflokka, eins og auðlinda- og orkumála. Martin tók undir orð ráðherrans og bætti því við að lokum að EES-samningurinn hefði verið bylting af hinu góða fyrir Ísland og ekkert mælti á móti því að Hoyvíkursamningurinn gæti haft sömu þýðingu fyrir Vestur-Norðurlöndin.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs 26. október.
    Í tengslum við þing Norðurlandaráðs sem haldið var 26.–29. október í Helsinki átti forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fund með forsætisnefnd Norðurlandsráðs. Fundarstjóri var Árni Páll Árnason, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Á fundinum varð mest umræða um tilmæli Vestnorræna ráðsins til norrænu ráðherranefndarinnar um stofnun vinnuhóps til að kortleggja öryggismál í Norður-Atlantshafi og gera sameiginlega viðbragsáætlun við alvarlegum sjóslysum sem mundi síðan liggja til grundvallar norrænum tillögum til Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Formaður Vestnorræna ráðsins, Kári P. Højgaard, óskaði eftir stuðningi forsætisnefndar Norðurlandaráðs við tilmælin. Beiðni hans fékk góðar undirtektir enda féllu tilmælin vel að áherslum Norðurlandaráðs. Þau væru einnig í samræmi við formennskuáætlun Íslands í norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2009 en hún kveður m.a. á um gerð vákorts fyrir Norður-Atlantshafið sem liggi til grundvallar samræmdum og skipulögðum viðbrögðum skapist hættuástand fyrir lífríki hafsins. Karl V. Matthíasson benti í því sambandi á ályktun Vestnorræna ráðsins þar sem hvatt er til aukinnar samvinnu um rannsóknir á lífríki sjávar og Ruth Heilman, formaður landsdeildar Grænlands, bætti því við að Grænlendingar væru í auknum mæli að átta sig á mikilvægi öryggismála á Norður- Atlantshafi og mikilvægi þess að vera virkur þátttakandi í samvinnu um öryggismál. Að lokum kom fram að tilmælin yrðu tekin til afgreiðslu á forsætisnefndarfundi Norðurlandaráðs í desember.

Forsætisnefndarfundur Vestnorræna ráðsins 27. október.
    Fyrsta mál á dagskrá fundarins var afmælissjóður Vestnorræna ráðsins. Formaður ráðsins og framkvæmdastjóri fengu umboð fundarins til að leita leiða við að koma sjóðnum upp. Formennirnir ræddu því næst hvaða mál ætti að setja í forgang á fyrirhuguðum fundum með fagráðherrum Vestur-Norðurlandanna næstu daga. Ákveðið var að árétta við ráðherrana mikilvægi samstarfssamnings Vestnorræna ráðsins og stjórnvalda. Jafnframt var ákveðið að formaðurinn mundi hvetja til norrænnar samstöðu með Íslandi á erfiðum tímum og fordæma að bresk stjórnvöld skyldu beita hryðjuverkalöggjöf sinni til að tryggja hagsmuni þeirra sem áttu innstæður í útibúi Landsbankans í Bretlandi í stað þess að fara samningaleiðina eða í versta falli dómstólaleiðina.
    Framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins kynnti drög að verklagsreglum fyrir landsdeildir ráðsins sem eiga að flýta fyrir afgreiðslu ályktana þess á viðkomandi þjóðþingum. Einnig var rætt um þann möguleika að halda ársfund ráðsins í september í stað ágúst með það að markmiði að lengja tímabilið á milli þemaráðstefnu og ársfundar. Því næst ákvað fundurinn að halda vestnorræna daginn, sem kveðið er á um í ályktun ráðsins frá síðasta ársfundi, síðustu helgina í ágústmánuði. Að lokum voru kynntar hugmyndir um vestnorræna stjórnmálakvennaráðstefnu sumarið 2009 á Íslandi en ráðstefnan var fyrst haldin í Færeyjum árið 2004 og svo á Grænlandi árið 2006 í boði landsþinganna. Stefnt hefði verið að því að ráðstefnan yrði haldin á Íslandi um miðjan júní 2009 og rætt um að tvö þemu yrðu tekin til umræðu, þ.e. staða kvenna í stjórnmálum á Vestur-Norðurlöndum og samspil stjórnmálakvenna eða hreyfinga þeirra annars vegar og hins vegar félagasamtaka og rannsóknarráða sem vinna á sviði jafnréttismála. Að lokum var upplýst að formlegt boð á ráðstefnuna mundi berast frá forsætisnefnd Alþingis til hinna þinganna þegar fram liðu stundir.

Fundir forsætisnefndar með vestnorrænum fagráðherrum á Norðurlandaráðsþingi 26.–29. október í Helsinki.
    Fundur með menntamálaráðherrum. Á fundi með menntamálaráðherrum Vestur-Norðurlandanna lýstu ráðherrarnir sig reiðubúna að mæla með tilmælum Vestnorræna ráðsins við norrænu ráðherranefndina um stofnun vinnuhóps til að kanna forsendur þess að stofna norrænan lýðháskóla á Vestur-Norðurlöndunum eða vestnorræna námsbraut. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, bætti því við að verið væri að kanna með prófessorstöðu um vestnorræna sögu og menningu við háskóla á Íslandi í tengslum við útgáfu bókar um sama efni. Hún greindi einnig frá því að samkomulag hefði verið gert milli Vestur-Norðurlandanna um að koma vestnorrænni menningararfleifð á framfæri í öllum löndunum með sérstöku átaki árið 2008 á Íslandi, 2009 í Færeyjum og 2010 á Grænlandi. Að því loknu var þema næstu þemaráðstefnu ráðsins kynnt fyrir ráðherrunum, þ.e. námsmöguleikar fyrir ófaglærða. Karl V. Matthíasson og Ruth Heilmann töluðu um mikilvægi menntunar sem tækis til aðlögunar fyrir marga íbúa norðurslóða þar sem lífshættir tækju stakkaskiptum vegna loftslagsbreytinga og nýrra atvinnuhátta. Góðir námsmöguleikar og þar með ný atvinnutækifæri væru nauðsynleg mótvægisaðgerð til að vega upp á móti félagslegum vandamálum sem gætu komið til sögunnar ef ekkert væri að gert. Ráðstefnuþemað hlaut góðar undirteknir ráðherranna. Þorgerður Katrín sagði að ráðuneytið hefði verið í mikilli samvinnu við atvinnulífið undanfarin ár í þessum efnum og væri til í að miðla þeirri reynslu til annarra. Að lokum var rætt um hugmynd sem komið hefur fram í nefnd á vegum Norðurlandaráðs að sjálfstjórnarsvæðin, þ.e. Álandseyjar, Færeyjar og Grænland, verði svipt atkvæðisrétti innan norrænu tungumálanefndarinnar. Ráðherrarnir voru sammála forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins um að tillagan fæli í sér afturför og hefði slæmt fordæmisgildi. Þeir mundu beita sér fyrir því að tillagan yrði felld.
     Fundur með sjávarútvegsráðherrum. Fyrsta mál á dagskrá var ályktun Vestnorræna ráðsins um aukna samvinnu á sviði rannsókna á sameiginlegum fiskistofnum. Finn Karlsen, grænlenski ráðherrann, greindi frá samkomulagi sem Ísland og Grænland hefðu gert með sér í ágúst 2008 um að koma á fót vinnuhópi. Hlutverk hans væri að gera tillögur til stjórnvalda um nýtingu úr sameiginlegum stofnum grálúðu, karfa og jafnvel þorsks. Færeyski utanríkisráðherrann og fyrrum sjávarútvegsráðherra Færeyja, Jørgen Niclasen, var sammála efni ályktunar Vestnorræna ráðsins um mikilvægi þess að koma rannsóknum á sameiginlegum stofnun í formlegri farveg en verið hefur, með það að markmiði að tryggja sjálfbærar veiðar og til að skera úr um nýtingarrétt eða eignarhaldsskiptingu milli landanna. Hið síðarnefnda væri hins vegar eflaust ástæða fyrir því að sumir vildu ekki sameiginlegar rannsóknir í eins miklum mæli og æskilegt væri. Finn Karlsen vék einnig að mikilvægi þess að samræma rannsóknaraðferðir til að hægt væri að gera raunhæfan samanburð á rannsóknarniðurstöðum. Í sambandi við tilmæli Vestnorræna ráðsins um árlegan samráðsfund sjávarútvegsráðherra Vestur- Norðurlandanna sagði fulltrúi íslenska sjávarútvegsráðherrans að þar sem hagsmunir landanna gagnvart ESB færu saman ættu löndin að móta sér sameiginlega stefnu. Framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins bætti því við að löndin gætu t.d. haft hag af því að vinna saman að upplýsingaherferðum.
     Fundur með utanríkisráðherrum. Á fundinum kom Hoyvíkursamningurinn nokkuð til tals. Jørgen Niclasen, færeyski ráðherrann, hvatti Grænlendinga eindregið til að kanna kosti samningsins sem að hans mati væru ótvíræðir. Sagði hann að þjóðartekjur hækkuðu samhliða auknum erlendum viðskiptum og samhliða því væri skynsamlegt að koma á formlegu stjórnmálasambandi til að treysta m.a. viðskiptabönd. Sem dæmi tók hann að Færeyjar hefðu opnað sendiskrifstofu í Moskvu en árið 2007 hefði útflutningur frá Færeyjum til Rússlands sexfaldast. Ráðherrann var hlynntur tilmælum Vestnorræna ráðsins um að koma á fót formlegum og gagnkvæmu stjórnmálasambandi milli Grænlands og hinna Vestur-Norðurlandanna með svipuðu sniði og gert var í tilviki Íslands og Færeyja. Utanríkisráðherra Grænlands, Per Berthelsen, sagði að hugmyndin um stofnun sendiskrifstofa hefði fengið jákvæðar undirtektir en verið væri að kanna málið með hliðsjón af kostnaði og fleiri þáttum. Að lokum var rætt um hugsanlega stofnun björgunarsveita á Grænlandi og samstarf milli Vestur-Norðurlandanna í þeim efnum. Kom fram að tíu slökkviliðsmenn frá mismunandi stöðum á Grænlandi hefðu komið til Íslands og fengið þjálfun hjá Landsbjörg í Gufuskálum. Allir voru sammála um jákvætt gildi þessa samstarfs sem ætti að auka og styrkja til framtíðar eins og gert væri ráð fyrir í styrkumsókn Vestnorræna ráðsins til NORA. Utanríkisráðherra Íslands var ekki á fundinum vegna veikinda.

Símafundur forsætisnefndar 15. desember.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins hélt símafund 15. desember. Á fundinum voru Kári P. Højgaard, formaður Vestnorræna ráðsins og færeysku landsdeildarinnar, Karl V. Matthíasson, formaður Íslandsdeildar, og Ruth Heilmann, formaður grænlensku landsdeildarinnar, auk ritara landsdeildanna og Þórðar Þórarinssonar, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins.
    Fyrsta mál fundarins var tillaga um að formanni og framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins yrði veitt umboð til að ræða við menntamálaráðherra Vestur-Norðurlandanna og framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar, Halldór Ásgrímsson, um stofnsetningu vinnuhóps í samræmi við ályktanir ráðsins nr. 7/2007 og 8/2007. Hlutverk vinnuhópsins yrði að kanna forsendur þess að stofna norrænan lýðháskóla á Vestur-Norðurlöndunum. Framkvæmdastjórinn kynnti drög að bréfi til ráðherranna og framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar þar sem m.a. er gerð tillaga að skipan í vinnuhóp og kostnaðarskiptingu. Gert er ráð fyrir því að Vestnorræna ráðið eigi áheyrnaraðild að vinnuhópnum. Fundurinn samþykkti að veita formanni og framkvæmdastjóra umboð til að senda bréfið og beita sér fyrir stofnun vinnuhópsins.
    Næsta mál á dagskrá var hugmynd að stofnun þingmannavettvangs fyrir fríverslunarsamning Íslands og Færeyja, Hoyvíkursamninginn. Hugmyndin var fyrst sett fram af Høgna Hoydal, þáverandi utanríkisráðherra Færeyja, á sérstökum fundi um samninginn á ársfundi Vestnorræna ráðsins 2008 í Grundarfirði. Núverandi utanríkisráðherra Færeyja, Jørgen Niclasen, fylgdi hugmyndinni síðan eftir á fundi með utanríkisráðherra Íslands, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og utanríkismálanefnd Alþingis dagana18. og 19. nóvember þegar hann var staddur hérlendis í opinberri heimsókn í boði utanríkisráðherra.
    Á forsætisnefndarfundinum fengu formaðurinn og framkvæmdastjórinn umboð til að fylgja frumkvæði færeyska utanríkisráðherrans eftir við forseta vestnorrænu þjóðþinganna. Hugmyndin er að landsdeildir Íslands og Færeyja í Vestnorræna ráðinu taki að sér að fylgjast með þróun og framkvæmd fríverslunarsamningsins og einstökum málum sem undir hann heyra. Vestnorræna ráðið fari árlega yfir stöðuskýrslu um samninginn sem utanríkisráðuneyti Íslands og Færeyja leggi fram. Skýrslur ráðuneytanna yrðu teknar til umræðu og ályktunar á tvíhliða fundi landsdeilda Íslands og Færeyja sem haldinn yrði í tengslum við ársfund Vestnorræna ráðsins þar sem þingmenn grænlensku landsdeildarinnar hefðu hugsanlega áheyrnaraðild. Ruth Heilman, forseti grænlenska þingsins og formaður grænlensku landsdeildarinnar, tók vel í hugmyndina. Hún minnti á að Grænland hefði óskað eftir því sérstaklega að fá að fylgjast náið með þróun samningsins og fá upplýsingar um reynslu Íslendinga og Færeyinga af honum, sem væri liður í því að kanna forsendur fyrir aðild Grænlands. Reglubundin upplýsingagjöf stjórnvalda til íslenskra og færeyskra þingmanna á ársfundum Vestnorræna ráðsins þýddi aukið upplýsingaflæði til grænlenskra þingmanna og þar með væru skapaðar forsendur til að taka upplýsta ákvörðun um hugsanlega aðild Grænlands að fríverslunarsamningnum þegar fram liðu stundir. Karl V. Matthíasson, formaður Íslandsdeildar, tók undir orð formanns grænlensku landsdeildarinnar og bætti því við að með eftirliti þingmanna Vestnorræna ráðsins mætti einnig hafa áhrif á framvindu samningsins og jafnvel koma að lausn ágreiningsmála. Fundurinn veitti formanni og framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins umboð til að kanna hug forseta þinganna og stjórnvalda til hugmyndarinnar um að Vestnorræna ráðið yrðu jafnframt þingmannavettvangur Hoyvíkursamningsins.
    Í umræðu um stöðu ályktana Vestnorræna ráðsins frá því á síðasta ársfundi kom fram að þær mundu líklega hljóta endanlega afgreiðslu í lok janúar 2009 í Færeyjum en að vori á Grænlandi og Íslandi.
    Framkvæmdastjórinn gerði því næst grein fyrir næsta fundi forsætisnefndar í Brussel og fundi hennar með SIN/EEP-nefnd Evrópuþingsins, auk ráðstefnu um norðlægu víddina 24.–26 febrúar 2009.
    Fundurinn ákvað að lokum að þemaráðstefna ráðsins yrði 9.–12. júní 2009 á Grænlandi. Einnig var ákveðið að seinka ársfundi ráðsins um einn dag og halda hann 25.–28. ágúst 2009 en þessa daga er beint flug frá Íslandi til Færeyja.

5. Eftirfarandi ályktanir Vestnorræna ráðsins beint til ríkisstjórna landanna voru samþykktar á ársfundi í Grundarfirði 25.–28. ágúst 2008.
          Ályktun um árlegan vestnorrænan dag.
          Ályktun um samkomulag milli Íslands og Grænlands um skipti á útsendum sendifulltrúum og milli Færeyja og Grænlands um skipti á opinberum sendifulltrúum.
          Ályktun um árlegan samráðsfund sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda.
          Ályktun um aukið samráð Vestur-Norðurlandanna um sjálfbæra nýtingu lifandi náttúruauðlinda.


Alþingi, 11. mars 2009.



Karl V. Matthíasson,


form.


Árni Johnsen,


varaform.


Birkir J. Jónsson.



Guðjón A. Kristjánsson.


Guðbjartur Hannesson.


Jón Gunnarsson.