Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 397. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 779  —  397. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Axel Guðjónsson og Helgu Barðadóttur frá iðnaðarráðuneyti.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Orkustofnun, Rarik, Samorku, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Norðurorku hf., Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Landsvirkjun og Friðfinni K. Daníelssyni.
    Frumvarpinu er ætlað að draga úr húshitunarkostnaði íbúa á köldum svæðum og draga úr kostnaði ríkissjóðs til lengri tíma litið við að niðurgreiða húshitunarkostnað og hvetja til atvinnuskapandi verkefna. Þá eru lagðar til breytingar sem gera ráð fyrir að afnema takmörkun á hámarki niðurgreiðslna vegna raforkunotkunar á varmadælur til húshitunar, gera mögulegt að styrkja breytta orkuöflun til húshitunar og styrkja endurbætur á íbúðarhúsnæði á köldum svæðum. Til að mæta kostnaði vegna þessa er lagt til að 3% af því fé sem ákveðið er í fjárlögum til niðurgreiðslna á kostnaði við húshitun og til styrkja til nýrra hitaveitna verði veitt til orkusparnaðaraðgerða í stað 1% eins og er í gildandi lögum. Gert er ráð fyrir að verði hlutfall þetta hækkað muni framlögum til verkefna innan fjárlagaliðar 11–373, Niðurgreiðslur á húshitun, verða forgangsraðað á þann veg að minna fé fari í stofnstyrki til nýrra hitaveitna og jarðhitaleitar auk þess sem verkefni um hagkvæmniúttekt á varmadælum og smávirkjunum er lokið.
    Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir við 4. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að niðurgreiðslur falli niður vegna orkusparnaðar. Vísað er til þess að við undirbúning frumvarpsins hafi ekki verið gert ráð fyrir að niðurgreiðslur skyldu falla alveg niður heldur hafi verið gert ráð fyrir að lækka niðurgreiðslur í samræmi við þann árangur sem aðilar ná með öðrum orkugjöfum. Nefndin tekur undir þessa athugasemd og leggur því til breytingar á orðalagi 4. gr. frumvarpsins.
    Einnig komu fram athugasemdir um að hugtakið „umhverfisvæn orkuöflun“ í 1. gr. frumvarpsins sé óljóst og ekki nægilega vel skilgreint og geti svo almennt orðalag kallað á umsóknir um styrki sem ekki er gert ráð fyrir að lögin nái yfir. Fellst nefndin á þetta viðhorf og leggur til að við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein þar sem „vistvæn orkuöflun“ verði skilgreind.
    Í umsögn Orkustofnunar kom fram ábending um að rétt sé að setja í núgildandi lög ákvæði um að niðurgreiðslur geti verið mismunandi eftir svæðum og jafnframt því verði tryggt í lögunum að olíukynding geti ekki orðið ódýrari en rafhitun. Fellst nefndin á þau sjónarmið og leggur til breytingu á 6. gr. laganna til að tryggja að niðurgreiðslur geti verið mismunandi eftir svæðum svo að fyrir olíukyndingu húsnæðis verði ekki borgað minna en fyrir rafhitun húsnæðis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Kristján Þór Júlíusson, Herdís Þórðardóttir og Björk Guðjónsdóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Einar Már Sigurðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. mars 2009.



Katrín Júlíusdóttir,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Eygló Harðardóttir.



Grétar Mar Jónsson.


Kristján Þór Júlíusson,


með fyrirvara.


Herdís Þórðardóttir,


með fyrirvara.



Björk Guðjónsdóttir,


með fyrirvara.


Helgi Hjörvar.