Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 125. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 786  —  125. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um ábyrgðarmenn.

Frá viðskiptanefnd.



     1.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
             Lög þessi gilda um lánveitingar stofnana og fyrirtækja þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka. Stofnanir og fyrirtæki geta m.a. verið viðskiptabankar, sparisjóðir, greiðslukortafyrirtæki, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, vátryggingafélög, lífeyrissjóðir, Íbúðalánasjóður og Lánasjóður íslenskra námsmanna.
             Með ábyrgðarmanni er átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans.
             Persónuleg ábyrgð er annaðhvort einföld ábyrgð eða sjálfskuldarábyrgð. Sé í ábyrgðarsamningi ekkert tekið fram um hvers konar ábyrgð sé að ræða skal hún álitin einföld.
             Viðskiptaráðherra er heimilt með reglugerð að undanskilja tiltekin form ábyrgða gildissviði laganna.
     2.      Við 4. gr. 1. mgr. orðist svo:
             Lánveitandi skal meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka. Greiðslumat skal byggt á viðurkenndum viðmiðum. Viðskiptaráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd greiðslumats.
     3.      Við 5. gr.
              a.      Við a-lið 1. mgr. bætist: þ.m.t. um muninn á sjálfskuldarábyrgð og einfaldri ábyrgð.
              b.      Orðin „og í hvaða tilgangi það er tekið“ í c-lið 1. mgr. falli brott.
              c.      Í stað orðsins „vanskilakostnaði“ í f-lið 1. mgr. komi: innheimtukostnaði.
              d.      H- og k-liður 1. mgr. falli brott.
     4.      Við 7. gr.
              a.      Í stað orðsins „lát“ í c-lið 1. mgr. komi: andlát.
              b.      D-liður 1. mgr. falli brott.
              c.      Við e-lið 1. mgr. bætist: og yfirliti yfir ábyrgðir.
              d.      Við bætist ný málsgrein er verði 2. mgr., svohljóðandi:
                     Ábyrgðarmaður skal vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. og ef vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður.
              e.      Í stað orðsins „vanskilakostnaði“ í 2. mgr. komi: innheimtukostnaði.
     5.      Við 9. gr. 3. mgr. orðist svo:
             Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 60. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. skal nauðasamningur eða önnur eftirgjöf, þ.m.t. nauðasamningur til greiðsluaðlögunar, sem kveður á um lækkun kröfu á hendur lántaka hafa sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni.
     6.      Við 10. gr. 3. mgr. falli brott.
     7.      Við 12. gr. Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lögin taka til ábyrgða sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku þeirra að frátöldum 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr. og 8. gr.
     8.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
             Heimilt er að víkja ábyrgð til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, og að teknu tilliti til þeirra atvika er leiddu til setningar laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008.