Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 406. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 795  —  406. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um listamannalaun.

Frá 1. minni hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðnýju Helgadóttur frá menntamálaráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Fjármálaeftirlitinu, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Rithöfundasambandi Íslands, stjórn listamannalauna.
    Með frumvarpinu er lagt til að þeim mánaðarlaunum sem úthlutað er sem starfslaunum til listamanna fjölgi á þriggja ára tímabili um alls 400 þannig að á árinu 2012 verði samtals 1.600 mánaðarlaun til ráðstöfunar til starfslauna og styrkja í stað 1.200 mánaðarlauna nú. Þá er lögð til sú breyting að mánaðarlaun starfslauna verði ákveðin upphæð, 266.737 kr., sem komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga hvert ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Gert er ráð fyrir tveimur nýjum launasjóðum, þ.e. fyrir hönnuði og sviðslistafólk, og að heiti á Tónskáldasjóði verði breytt í Launasjóð tónlistarflytjenda. Þá er enn fremur lagt til að stjórn listamannalauna fái heimild til að flytja umsóknir á milli launasjóða og að breyting verði á störfum stjórnarinnar, m.a. varðandi áherslur við úthlutun og mótun stefnu.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni kom í ljós að í 13. gr. þarf að laga tilvísun þar sem ekki er vísað til 11. gr. um launasjóð tónskálda. 1. minni hluti gerir því breytingartillögu til lagfæringar á þessum lagatæknilegu mistökum.
    1. minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Í stað „6.–10. gr.“ í 13. gr. komi: 6.–11. gr.

    Jón Magnússon, Höskuldur Þórhallsson og Björk Guðjónsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. mars 2009.



Einar Már Sigurðarson,


form., frsm.


Þuríður Backman.


Katrín Júlíusdóttir.



Björgvin G. Sigurðsson.