Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 51. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 833  —  51. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá Tryggingastofnun ríkisins, Landssambandi eldri borgara, Krabbameinsfélagi Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Þroskahjálp, Læknafélagi Íslands, Hjartaheillum, Öldrunarfræðafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagi eldri borgara, landlæknisembætti og Félagi stjórnenda í öldrunarþjónustu. Þá barst tilkynning frá Lögmannafélagi Íslands.
    Frumvarpið leggur til breytingar á ákvæði um makabætur og umönnunarbætur þannig að bæturnar verði jafnháar umönnunargreiðslum og heimilt verði að greiða þær til umönnunaraðila þó svo hann eigi ekki sameiginlegt lögheimili með lífeyrisþeganum. Að auki er felld niður kvöð um sérstakar aðstæður til að heimilt sé að greiða bæturnar. Er frumvarpinu ætlað að gera öldruðum og örorkulífeyrisþegum kleift að búa heima í stað þess að dveljast á stofnun óski þeir þess.
    Flestir aldraðir og öryrkjar vilja búa heima eins lengi og þeir geta og aðstæður leyfa í stað þess að fara á stofnun og verði frumvarpið að lögum er þeim gert auðveldara að fá þá aðstoð sem þeir þurfa. Mikilvægt er að fjárhagslegir hagsmunir komi ekki í veg fyrir að nánir aðstandendur eða vinir taki að sér persónulega aðstoð og bætur komi fyrir vinnutap umönnunaraðila. Nefndin telur brýnt að hagur hins aldraða eða örorkulífeyrisþegans sé hafður í fyrirrúmi og því sé á hans valdi að velja hver sinni umönnuninni. Þó þykir eðlilegt að gera á þessu nokkra takmörkun og áréttar nefndin að til að heimilt sé að greiða bæturnar verði sá sem sinnir umönnun að vera nákominn lífeyrisþeganum, þ.e. vera ættingi eða náinn vinur.
    Þar sem erfitt er að segja til um hvaða samlegðaráhrif frumvarp þetta hefði á greiðslu bóta frá Tryggingastofnun telur nefndin að gæta þurfi þess að ganga ekki of langt í lagasetningu af þessu tagi og telur því rétt að breyta ekki fjárhæð bótanna samkvæmt núgildandi grein. Leggur nefndin því til breytingar á frumvarpinu þannig að miðað verði við að hámark bóta af þessu tagi geti orðið 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga, líkt og gert er í núgildandi ákvæði. Þá telur nefndin óeðlilegt að vísa til 4. gr. við ákvörðun bóta þar sem ákvæði greinarinnar er sniðið að umönnun barna.
    Nefndin áréttar að ákvæðið felur ekki í sér skyldu til greiðslu bóta heldur er einungis um heimildarákvæði að ræða. Því felur það ekki í sér beina ráðstöfun úr ríkissjóði. Þá telur nefndin brýnt að við setningu og gildistöku reglna um framkvæmd ákvæðisins verði litið til fjárheimilda sem og að eftirlit verði haft með framkvæmd ákvæðisins. Þá telur nefndin eðlilegt að miðað verði við þær reglur sem fyrir eru um greiðslur til maka.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Efnismálsgrein 1. gr. orðist svo:
    Heimilt er að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega, sem dvelst í heimahúsi, eða öðrum nákomnum lífeyrisþeganum sem annast hann, bætur sem eru allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

    Ármann Kr. Ólafsson, Árni Johnsen, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Helga Sigrún Harðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. mars 2009.



Þórunn Sveinbjarnardóttir,


form., frsm.


Þuríður Backman.


Kristinn H. Gunnarsson.



Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Jón Bjarnason.