Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 385. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 882  —  385. mál.




Breytingartillögur



við frv. til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál (VS, LB, EBS, GAK, AtlG).



     1.      Við 1. gr.
              a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.
              b.      2. og 3. mgr. falla brott.
     2.      Við 2. gr.
              a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem verði 2. málsl., svohljóðandi: Slíkt frumvarp má ekki samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við fjórar umræður og skal ein vika hið minnsta líða á milli umræðna.
              b.      Orðin „í landinu“ í 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. falli brott.
              c.      Í stað orðsins „þremur“ í 3. málsl. 1. mgr. komi: fjórum.
              d.      Í stað orðsins „stjórnarskipunarlög“ í 4. málsl. 1. mgr. komi: stjórnskipunarlög.
     3.      Við 3. gr.
              a.      Á eftir orðunum „tiltekin lög eða“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: mikilvægt.
              b.      Í stað 3. mgr. komi tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                     Alþingi skal staðfesta hvernig spurning um mikilvægt málefni skal borin fram í þjóðaratkvæðagreiðslu og að uppfyllt séu skilyrði þess að atkvæðagreiðslan fari fram.
                     Nánari reglur um aðferð við öflun undirskrifta til að krefjast atkvæðagreiðslu, form spurningar sem borin er upp, málsmeðferð varðandi kröfu kjósenda og um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar skulu settar með lögum.
     4.      Við 4. gr. Greinin orðist svo:
                 Við stjórnarskrána bætist nýtt ákvæði um stundarsakir, svohljóðandi:
                  Forseti Íslands boðar til stjórnlagaþings til að semja frumvarp að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands þar sem byggt verði áfram á lýðræðisskipan, réttarríki og vernd mannréttinda. Þingið skal koma saman 17. júní 2010 og ljúka störfum eigi síðar en 17. júní 2011 en getur ákveðið að ljúka störfum fyrr.
                  Stjórnlagaþing skal skipað 41 þjóðkjörnum fulltrúa og jafnmörgum til vara. Um kjörgengi og kosningu á þingið og skipulag þess skal mælt fyrir í sérstökum lögum þar sem m.a. verði settar reglur til að jafna sem mest hlutföll á milli kynjanna í hópi þingfulltrúa.
                  Áður en stjórnlagaþing samþykkir frumvarp að nýrri stjórnarskrá skal það sent Alþingi til umsagnar. Alþingi veitir stjórnlagaþingi umsögn sína innan þriggja mánaða. Skal stjórnlagaþing þá taka frumvarpið aftur til meðferðar. Hljóti frumvarp til stjórnskipunarlaga samþykki að minnsta kosti 2/3 hluta fulltrúa stjórnlagaþings skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í leynilegri atkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar. Sé meiri hluti gildra atkvæða fylgjandi frumvarpinu, þó að minnsta kosti 25 af hundraði allra kjósenda á kjörskrá, skal það staðfest af forseta Íslands og er það þá gild stjórnskipunarlög.
                 Alþingi setur nánari reglur um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar.