Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 342. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 885  —  342. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið sem hefur verið endurflutt nokkrum sinnum. Málið var síðast sent til umsagnar á 135. löggjafarþingi og voru umsagnir um málið jákvæðar.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 206. gr. almennra hegningarlaga með það að markmiði að gera refsivert að kaupa vændi eða heita öðrum ávinningi fyrir vændi. Jafnframt er lagt til að það verði gert refsivert að greiða fyrir vændi barns yngra en 18 ára eða heita öðrum greiðslu eða öðrum ávinningi fyrir vændi barns.
    Markmiðið með frumvarpinu er að gera kaup á vændi almennt refsiverð og sporna með því við sölu á kynlífi. Með þessu er ábyrgðin á viðskiptunum færð til kaupandans þar sem mikill aðstöðumunur er á kaupanda og seljanda sem er iðulega knúinn áfram af einhvers konar neyð.     
    Á fundum nefndarinnar kom fram að í 202. gr. almennra hegningarlaga og í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er fjallað efnislega um það sama, þ.e. um refsinæmi þess að greiða barni undir 18 ára endurgjald fyrir samræði eða önnur kynferðismök. Ákvæði frumvarpsins gengur þó lengra þar sem það nær einnig til þess þegar þriðja aðila er greitt fyrir slíkt. Meiri hlutinn telur að þegar litið er til efnis greinanna að öðru leyti, þ.e. í 202. gr. eru ákvæði um kynferðisbrot gegn börnum en 206. gr. er almennt ákvæði um vændi, þá séu ákvæði frumvarpsins eðlileg viðbót við þá síðarnefndu og leggur því til að 4. mgr. 202. gr. falli brott þar sem hún verður óþörf.
    Meiri hlutinn leggur einnig til breytingar á orðalagi í greinum frumvarpsins til samræmis við orðalag almennra hegningarlaga.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 1. apríl 2009.



Árni Páll Árnason,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Ágúst Ólafur Ágústsson.



Árni Þór Sigurðsson.


Siv Friðleifsdóttir.