Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 394. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 910  —  394. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um heimild til samninga um álver í Helguvík.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Með frumvarpinu er kveðið á um heimild iðnaðarráðherra til að gera fjárfestingarsamning við Norðurál Helguvík ehf. og eiganda þess, Century Aluminum Company, vegna byggingar álvers í Helguvík. Yfirlýst markmið frumvarpsins er að með samningi um álver í Helguvík sé ætlunin að tryggja álfyrirtækinu lánsfé til framkvæmda við álverið sjálft. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir samningi um álver sem anni framleiðslu á allt að 360 þúsund tonnum á ári en einungis hefur verið úthlutað losunarheimildum fyrir allt að 150 þúsund tonnum á ári. Þá er starfsleyfi Umhverfisstofnunar vegna reksturs álvers í Helguvík gefið út með allt að 250 þúsund tonna ársframleiðslugetu á áli og er gildistími þess til ársloka 2024. Bæði losunarheimildir og starfsleyfi gera því ráð fyrir minni ársframleiðslu en áætlaðri framleiðslugetu álversins samkvæmt þeim samningi sem í frumvarpinu er lagt til að heimilað verði að gera. Umhverfismat Skipulagsstofnunar byggist jafnframt á álveri með sömu framleiðslugetu og getið er í starfsleyfi, þ.e. 110 þúsund tonnum minni en framleiðslugetu samkvæmt samningi. Minni hlutinn vekur athygli á þessu misræmi og gerir alvarlegar athugasemdir við það. Jafnframt vekur minni hlutinn athygli á því að umhverfisáhrif tengdra framkvæmda, svo sem línulagna og virkjana, hafa ekki verið metin eins og fram kemur í umsögn minni hluta umhverfisnefndar um málið. Þá átelur minni hlutinn þá staðreynd að orkuöflun til álvers í Helguvík verður ekki sjálfbær, en áform um raforkuöflun á Hengilssvæðinu gera ráð fyrir ágengri nýtingu og sóun sem með tímanum mun leiða til þurrðar. Álverið í Helguvík mun valda verulegri losun gróðurhúsalofttegunda og minni hlutinn lýsir verulegum efasemdum um að Ísland geti uppfyllt alþjóðlegar samningsskuldbindingar sínar verði af byggingu og rekstri álvers í Helguvík. Það er ámælisvert að slíkt skuli vera í farvatninu, nú þegar íslenskt samfélag þarf á því að halda sem aldrei fyrr að marka leið til framtíðar með almannahag, sjálfbæra þróun og ábyrgð í umhverfismálum að leiðarljósi.

Erfið fjármögnun og andstaða í Ölfusi.
    Minni hlutinn bendir á að frá áramótum hefur heimsmarkaðsverð á áli lækkað um sextán prósent og hefur ekki verið lægra í sjö ár, enda hefur þegar orðið samdráttur í framleiðslu áls á heimsvísu. Century Aluminum sem er móðurfélag Norðuráls á Grundartanga, hefur lokað einu af álverum sínum í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum. Samkvæmt tilkynningu frá höfuðstöðvum var ástæða lokunar lágt heimsmarkaðsverð á áli. Við lokun álversins er talið að um tæplega 680 manns muni missa vinnuna. Þá sýna ársreikningar fyrirtækisins gríðarlegt tap og lækkuðu hlutabréf í því um 20% þann 30. mars sl. og svo aftur næsta dag um 21%. Aðstæður á fjármálamarkaði hér og í nálægum löndum hafa síst batnað frá því fyrir bankahrunið sl. haust, þegar fresta varð fjármögnun álvers í Helguvík vegna erfiðleika við lausafjáröflun. Með hliðsjón af aðstæðum nú, bæði almennt á álmörkuðum og stöðu Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls, verður að teljast ólíklegt að takist að fjármagna verkefnið innan þess tímaramma sem gefinn er samkvæmt greinargerð í frumvarpinu. Í ljósi erfiðrar stöðu móðurfélags álversins bendir minni hlutinn á að ívilnandi samningur við íslensk stjórnvöld er væntanlega metinn sem verðmæt eign hins erlenda félags og getur eftir atvikum runnið til kröfuhafa eða gengið kaupum og sölum eins og aðrar eignir.
    Minni hlutinn vekur athygli á vanköntum og óvissu sem ríkir um ýmsa aðra þætti sem lúta að framkvæmdinni, svo sem varðandi möguleika á raforkuöflun, flutning og línulagnir. Þannig er t.d. ekki útlit fyrir að auðvelt verði fyrir ofurskuldsett orkufyrirtæki hér á landi að afla lánsfjár til virkjunarframkvæmda við núverandi aðstæður, en bæði Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun töpuðu gríðarlegum fjármunum á síðasta ári. Með sanni má staðhæfa að orkuöflun fyrir álver í Helguvík er í fullkomnu uppnámi af þeim sökum einum.
    Sömu sögu er að segja um lánsfjáröflun til línulagna Landsnets en heildarkostnaður við hana er talinn vera 24 milljarðar króna. Það fyrirtæki er mjög skuldsett og því getur reynst erfitt að afla lánsfjár til framkvæmdanna. Þar er einnig um afar dýrt fjármagn að ræða þannig að fullyrða má að orkuflutningur til álversins sé ótryggur. Það á þó ekki aðeins við um fjármögnunina, heldur hefur bæjarstjórn Ölfuss nú samþykkt að leggjast eindregið gegn fyrirhuguðum línulögnum frá Hellisheiðarvirkjun til Suðurnesja, en þeirri línulögn er meðal annars ætlað að flytja raforku til fyrirhugaðs álvers í Helguvík.
    Fram hefur komið í blaðaviðtölum við sveitarstjóra Ölfuss að sveitarstjórnin telur að línulögn til Helguvíkur verði „banabiti“ áforma um atvinnuuppbyggingu á Suðurlandi enda opnist með henni möguleikar til að flytja alla raforku Þjórsárvirkjana til Suðurnesja. Þá bendir hann einnig á að kostnaður Landsnets við Suðurnesjalínu verði það mikill að það komi í veg fyrir línulögn frá Hellisheiði til Þorlákshafnar. Þessi framkvæmd leiði til þess að atvinnuuppbygging verði blómleg á Suðurnesjum á sama tíma sem Suðurland verði afskipt, en þar séu nú 900 manns þegar atvinnulausir. Sveitarstjórnin vill að orkan verði nýtt til uppbyggingar í nærsamfélagi við orkuöflunina, t.d. í Þorlákshöfn eins og kemur fram í umsögn sveitarfélagsins til Skipulagsstofnunar um fyrirhuguð áform Landsnets um lagningu suðurvesturlínu út á Reykjanesskaga. Sveitarfélagið hefur gert sérstakan samning þar um við Orkuveitu Reykjavíkur og er hann birtur sem fylgiskjal II með áliti þessu.

Umhverfismál og ágeng nýting jarðhita.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samið verði um álver í Helguvík með ársframleiðslugetu á allt að 360 þúsund tonnum af áli. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar vegna álversins sem gildir til loka ársins 2024 kveður á um allt að 250 þúsund tonna álframleiðslu á ári og miðast umhverfismat Skipulagsstofnunar við sömu framleiðslugetu. Í umhverfismati er því miðað við 250.000 tonna álver en ekki þau 360.000 tonn sem allir arðsemisútreikningar byggjast á og samningurinn tekur til. Þá hefur verið úthlutað losunarheimildum fyrir allt að 150 þúsund tonnum á ári. Útgefnar losunarheimildir, starfsleyfi og umhverfismat gera því ráð fyrir mun minni ársframleiðslu en áætluð framleiðslugetu álversins verður samkvæmt samningnum. Minni hluti umhverfisnefndar vekur athygli á þessu í umsögn sinni og gagnrýnir minni hluti iðnaðarnefndar að ekki hafi verið gefið færi á að leita skýringa á þessu misræmi.
    Minni hluti umhverfisnefndar krefst þess einnig í umsögn sinni að iðnaðarnefnd fái upplýsingar um raforkuverð til álversins, nýja og raunhæfa arðsemisútreikninga og upplýsingar um þjóðhagsleg áhrif, þar á meðal áhrif á raforkuverð til annarra orkukaupenda. Minni hluti iðnaðarnefndar tekur undir þessa sanngjörnu kröfu, enda forræði málsins hjá iðnaðarnefnd og nefndarinnar að taka upplýsta ákvörðun um framgang frumvarpsins. Skemmst er frá því að segja að ekkert hefur verið upplýst um raforkuverð til fyrirhugaðs álvers og gerir minni hlutinn alvarlegar athugasemdir við það. Lágt orkuverð til mengandi stóriðju hefur leitt til verulegrar hækkunar á orkuverði til annarra orkunotenda. Með því er augljóslega brotið gegn jafnræðissjónarmiðum. Minni hlutinn telur þetta sérstaklega ámælisvert gagnvart öðrum orkunotendum sem nýta orkuna í vistvænni framleiðslu, svo sem garðyrkjubændum sem eru stórnotendur orku og stunda vistvæna starfsemi, en bændur hafa nýlega orðið fyrir skerðingu á umsömdum niðurgreiðslum ríkisins á raforkuverði. Þá blasir jafnframt við að hér er verið að ráðstafa mikilli orku til álvers sem mun verða gríðarlegur mengunarvaldur í íslenskri náttúru. Þá raforku sem hér er verið að selja á leyndardómsfullu útsöluverði til alþjóðlegra álhringja væri ella unnt að nýta t.a.m. til orkusparnaðar í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði og til framleiðslu umhverfisvænna orkugjafa.
    Minni hlutinn vekur athygli á því að orkuöflun til álvers í Helguvík verður ekki sjálfbær, en áform um raforkuöflun á Hengilssvæðinu gera ráð fyrir ágengri nýtingu sem fyrr en síðar mun leiða til þurrðar í jarðhitageyminum. Þess utan er einungis 10–12% orkunnar nýtt þegar gufa frá jarðhitavirkjunum er notuð til þess eins að framleiða raforku. Ljóst er að komi samningurinn til framkvæmda eins og hann nú liggur fyrir með 360 þúsund tonna framleiðslugetu mun verða gengið afar nærri orkulindum á Suðvesturhorninu og að líklega yrði þá ekkert eftir af orkukostum á því svæði nema virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Nái samningurinn fram að ganga gæti það af þeim sökum eyðilagt möguleika á verndun Þjórsár og gengið gegn vilja heimamanna í einu blómlegasta landbúnaðarhéraði landsins. Þjóðin á heimtingu á að fá að vita hvaðan nákvæmlega álverksmiðjan hyggst fá orkuna sem enn hefur ekki verið samið um en samningur Flóahrepps og Landsvirkjunar um skipulag og undirbúning virkjunar við Urriðafoss í Þjórsá er birtur sem fylgiskjal I með áliti þessu.
    Minni hlutinn telur einboðið að ekki eigi að veita starfsemi sem hefur í för með sér útblástur gróðurhúsalofttegunda eða aðra losun mengandi úrgangsefna 20 ára skilyrðislausa undanþágu frá umhverfisgjöldum eða umhverfissköttum eins og lagt er til í frumvarpinu. Þá sé rétt að leggja á starfsemi sem hefur í för með sér losun mengandi efna þá kvöð að útblásturinn verði hreinsaður til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á lífríki og heilsu manna. Engin tilraun er gerð til þess í frumvarpinu og átelur minni hlutinn það harðlega. Minni hlutinn bendir á að gróðurskemmdir sem vart hefur orðið við í kringum jarðhitavirkjanir á Hellisheiði og á Reykjanesi hafa nú verið raktar til slíkrar losunar, einkum til brennisteinsvetnis H 2S sem er skaðlegt heilsu manna í miklum mæli.
    Minni hlutinn áréttar að samkvæmt alþjóðasamningum ber Íslandi að stuðla að þróun í átt til orkusparnaðar og nýtingar vistvænna orkugjafa á Íslandi. Samningurinn um nýtt álver í Helguvík kemur í veg fyrir að unnt sé að vinna að þeim markmiðum. Álverið í Helguvík mun valda verulegri losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur 13% af heildarlosun Íslendinga á viðmiðunarári Kyoto-bókunarinnar frá árinu 1990. Minni hlutinn lýsir verulegum efasemdum um að Ísland geti uppfyllt alþjóðlegar samningsskuldbindingar sínar verði af byggingu og rekstri álvers í Helguvík.
    Áframhaldandi stóriðjuuppbygging í landinu samræmist ekki markmiðum sjálfbærrar þróunar og felur í sér einsleita, dýra og mengandi starfsemi sem eins og dæmin sanna veldur óafturkræfum spjöllum í íslenskri náttúru og umhverfi. Slíkt er ekki og verður ekki forsvaranlegt, allra síst þegar fyrir liggur að fyrirhugaður fjárfestingasamningur til næstu 20 ára er jafnframt óverjandi út frá viðskiptalegum forsendum og þjóðhagslegum kröfum um arðbærni almenningi til handa. Ísland á að stefna að því að vera leiðandi afl í ábyrgri umhverfisvernd á alþjóðavísu í stað þess að brjóta gegn grundvallarmarkmiðum sjálfbærrar þróunar og alþjóðlegum skuldbindingum.

Skattaívilnun og afsláttur frá umhverfisgjöldum.
    Helsti efnahagslegi ávinningur landsins af starfsemi stóriðju í eigu erlendra aðila er greiðsla skatta í ríkissjóð. Arðurinn af rekstrinum, ef einhver er, flyst beint úr landi til erlendra eigenda. Minni hlutinn telur óforsvaranlegt að með fyrirhuguðum samningi um álver í Helguvík séu takmarkaðar mögulegar heimildir ríkisins til að afla tekna til ríkissjóðs með veigamiklum frávikum frá reglum um skatta og gjöld á 20 ára samningstímanum. Með samningi sem þessum afsalar ríkisvaldið sér valdi til að skipa skattamálum og framselur skattlagningarvaldið til erlendra aðila. Þetta hefur þær afleiðingar í för með sér að tekjur landsins af álverum verða minni en þær hefðu orðið án fjölgunar álvera og án skattabreytinga. Í grein Indriða H. Þorlákssonar ,,Efnahagsleg áhrif erlendrar stóriðju á Íslandi“ segir: ,,Í heild má segja að efnahagslegur ávinningur Íslands af starfsemi stóriðjuvera sé lítill og hafi farið minnkandi á síðustu árum. Hann er nú vart meira en 0,1–0,2% af þjóðarframleiðslu fyrir hvert álver. Arður af íslenskum auðlindum kemur aðallega fram í hagnaði iðjuveranna og rennur vegna lágra skatta að mestu ósnertur í vasa hinna erlendu eigenda.“ (http://web.mac. com/inhauth/Indriði_H._Þorláksson/Greinasafn.html.)
    Minni hlutinn vekur athygli á að með frumvarpinu sé í veigamiklum atriðum vikið frá almennum lögum og reglum á sviði skattamála. Minni hlutinn ítrekar að frumvarpið gengur því þvert á þau sjónarmið sem gilda í þróuðum löndum að skattamálum skuli skipað með almennum hætti. Þannig gerir samningurinn ráð fyrir að félagið greiði aldrei hærri tekjuskatt en 15% og skiptir þá engu þótt tekjuskattshlutfall annarra lögaðila muni hækka á gildistíma ákvæðisins. Með þessu er í reynd verið að binda almennt skatthlutfall félagsins til frambúðar og tryggja því tiltekin skattfríðindi umfram önnur álver og umfram annan iðnað í landinu. Minni hlutinn bendir á að töluverðar líkur eru á að mismunun af þessu tagi kunni að fara í bága við EES-samninginn og teljast ólögmætur ríkisstyrkur. Í þessu sambandi er vert að benda á að samningar um álver í Reyðarfirði og samningurinn um álver á Grundartanga veita svigrúm fyrir 18% tekjuskatt og er því með samningnum um Helguvík gengið lengra í sérstökum skattalegum undanþágum álfyrirtækja. Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuneyti er núvirtur ríkisstyrkur til álversins í Helguvík miðað við 20 ára samningstímabil áætlaður um 16,2 milljónir bandaríkjadala. Minni hlutinn leggur áherslu á að gætt sé jafnræðis milli aðila og mun því leggja til þá breytingu, nái frumvarpið fram að ganga, að hámark tekjuskattshlutfalls fyrirhugaðs álvers í Helguvík verði 18 % í stað 15%.
    Samkvæmt frumvarpinu verður Norðurál einnig undanþegið breytingum sem kunna að verða gerðar á skattalögum hvað varðar frádrátt vaxtakostnaðar. Minni hlutinn bendir á að hér á landi er ekki lagður skattur á vexti sem greiddir eru úr landi, en þessu er öðruvísi farið erlendis. Fram hefur komið að fjármögnun verkefnisins fer fram í gegnum erlenda fjárfesta. Með ákvæðinu hefur ríkisvaldið því afsalað sér möguleikanum á að fá hlutdeild í þessum tekjum erlendra aðila sem eiga uppruna hér á landi. Minni hlutinn ítrekar að skattfrelsi á vexti sem greiddir eru úr landi er ekki einungis afsal tekjumöguleika, heldur fylgir því aukin hætta á skattasniðgöngu. Þar sem vextir eru frádráttarbær kostnaður í rekstri lækka þeir tekjuskattsstofn viðkomandi félags. Því er eftir nokkru að slægjast að dulbúa arð sem vexti með því að erlendur eigandi eða félög honum tengd láni innlenda félaginu fé og fái af því vexti. Skattatap landsins af þeim arði sem fer þessa leið nemur 23% fjárhæðarinnar. Vaxtagreiðslur stóriðjufyrirtækja eru farvegur fyrir verulegan hluta af virðisauka af starfseminni. Álverin á Grundartanga og Reyðarfirði greiddu 2,2 milljarða kr. í vexti árið 2007, sem var um 9% af virðisauka starfseminnar það ár. Hlutur íslenskra aðila í þessum hluta teknanna var enginn og því töluverð hætta á að löggjöf hér á landi ýti undir skattahagræðingu sem leiða kann til lægri skatttekna af stóriðju. Minni hlutinn varar við þeirri aðferð sem hér er beitt og einkum því að hin álfyrirtækin sem hér starfa muni kalla eftir sömu afsláttum af skattgreiðslum eins og hér er gerð tillaga um.

Efnahagsleg áhrif og ríkisstyrkur.
    Öll ríki heims keppast nú við að móta framtíðina í átt að endurnýjanlegum orkugjöfum og nýrri hugsun sem byggist á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Sístækkandi markaður er fyrir grænar lausnir og græna atvinnuuppbyggingu í sátt við umhverfi og samfélag. Það ætti fyrir löngu að heyra sögunni til að alþjóðleg álsamsteypa geti samið um skattaívilnanir langt fram í tímann, tekið með sér úr landi allan arð og skilið eftir sig eyðileggingu í náttúru landsins.
    Minni hlutinn bendir á að OECD hefur um árabil hvatt til þess að gerð yrði víðtæk úttekt á þjóðhagslegum áhrifum stóriðju á Íslandi. Þær upplýsingar liggja ekki fyrir og ítrekar minni hlutinn í því sambandi að svokölluð skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem vísað er til í áliti meiri hlutar iðnaðarnefndar, er í raun minnisblað frá iðnaðarráðuneyti þar sem teknir eru saman punktar úr ófullgerðri skýrslu stofnunarinnar. Fram kom að skýrslan mun liggja fyrir innan fárra vikna. Í minnispunktum ráðuneytisins kemur fram að breytingar á álverði valdi minni sveifluáhrifum en áður hefur verið talið. Minni hlutinn vill í því ljósi taka fram að upplýst var á fundi nefndarinnar að engin athugun hefur farið fram á áhrifum framvirkra samninga á fjárhag orkufyrirtækjanna en benda má á að ársreikningar Landsvirkjunar benda til þess að þeir hafi ekki orðið til þess að minnka sveiflur heldur þvert á móti. Er því óvarlegt að fullyrða um áhrifin eins og gert er í minnisblaðinu.
     Loks bendir minni hlutinn á að álit Eftirlitsstofnunar EFTA á því hvort um ólögmætan ríkisstyrk uppá 16,2 milljónir bandaríkjadollara er að ræða liggur enn ekki fyrir. Minni hlutinn telur eðlilegt, að beðið verði niðurstaðna þessara tveggja athugana áður en samþykkt verður heimild til handa iðnaðarráðherra um að semja um byggingu álvers í Helguvík.

Álit umboðsmanns Alþingis.
    Minni hlutinn vekur að lokum athygli á áliti umboðsmanns Alþingis frá 24. mars 2009 um samning milli Landsvirkjunar og sveitarfélagsins Flóahrepps en samningurinn er dags. 19. júlí 2007 og gerður í tilefni fyrirhugaðra skipulagsbreytinga og virkjanaframkvæmda fyrirtækisins við Urriðafoss í Þjórsá. Er samningurinn fylgiskjal með nefndaráliti þessu ásamt samningi Orkuveitu Reykjavíkur við sveitarfélagið Ölfus en sá samningur er dags. 28. apríl 2006. Báðir þessir samningar vekja áleitnar spurningar um hvort ítök raforkufyrirtækja í stjórnsýslu á sveitarstjórnarstigi séu sæmandi en þeir bera með sér að orkufyrirtækin hafa bæði greitt fyrir gerð skipulagsáætlana og jafnvel tekið að sér stjórnsýsluhlutverk sveitarstjórna auk þess að greiða háar fjárfúlgur fyrir verkefni bæði almenns eðlis og sértæk til sveitarstjórna til að liðka fyrir breytingum á skipulagsáætlunum svo virkjanaáform nái fram að ganga.

Niðurstaða.
    Minni hlutinn ítrekar að gríðarleg óvissa ríkir um það verkefni sem ætlunin er að ráðast í samkvæmt frumvarpinu um uppbyggingu álvers í Helguvík. Í því sambandi bendir minni hlutinn m.a. á eftirfarandi atriði:
     1.      Umhverfismat framkvæmda gerir ráð fyrir heimild til að reisa álver fyrir 250.000 tonn á ári en í frumvarpinu er gert ráð fyrir samningi um álver sem anni framleiðslu á allt að 360.000 tonnum. Hér er um óásættanlegt ósamræmi að ræða.
     2.      Umhverfisáhrif tengdra framkvæmda svo sem línulagna og virkjanaframkvæmda hafa ekki verið metin.
     3.      Losunarheimildir samkvæmt frumvarpinu eru miðaðar við úthlutun sem tekur til áfanga með ársframleiðslugetu á allt að 150.000 tonnum af áli en ekki 360.000 tonnum. Aftur er um æpandi ósamræmi að ræða.
     4.      Arðsemisútreikningar og yfirlýsingar stuðningsmanna frumvarpsins um fjölda nýrra starfa við byggingu og rekstur fyrirhugaðs álvers byggjast á óraunhæfum forsendum sem að framan eru raktar og telur minni hlutinn að með því sé verið að vekja falskar vonir um að álverið muni leysa í eitt skipti fyrir öll atvinnuleysi í byggðum á Reykjanesi.
     5.      Orkuöflun til verkefnisins er mjög ótrygg og munu orkulindir á Hengilssvæðinu og Reykjanesi ekki duga fyrir fullbyggt álverið án þess að verðmæt háhitasvæði verði eyðilögð. Álverið verður þannig gríðarleg orkusuga sem mun leiða til þess að engin orka verður til ráðstöfunar til annarra og vistvænni verkefna.
     6.      Um er að ræða ágenga en ekki sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda sem að endingu mun leiða til þurrðar þeirra. Þess utan er einungis 10–12% orkunnar nýtt þegar gufa frá jarðhitavirkjunum er notuð til þess eins að framleiða raforku og um mengandi sóun að ræða.
     7.      Álverð hefur farið lækkandi á heimsvísu og álframleiðsla dregist saman. Verulegar efasemdir eru því um hvort réttlætanlegt sé á viðskiptalegum og þjóðhagslegum forsendum að ráðast í uppbyggingu fleiri álvera á Íslandi.
     8.      Allar líkur eru á að lánsfé til byggingar álvers, virkjanaframkvæmda og línulagna sé dýrt og í raun afar takmarkað. Orkuflutningur til álversins er einnig ótryggur í ljósi þess að sveitarstjórn Ölfuss hefur eindregið lagst gegn því að leggja raflínur gegnum sveitarfélagið.
     9.      Samningurinn brýtur gegn markmiðum sjálfbærrar þróunar, hamlar náttúruvernd og hefur ekki í heiðri græna og sjálfbæra atvinnustefnu. Auk þess geta sérstakar ívilnanir komið harkalega niður á uppbyggingu annarra atvinnugreina. Slíkt hefur ekki verið tekið með í reikninginn við gerð samningsins.
    Aldrei hefur verið jafn brýnt og einmitt nú að hafa sjálfbæra þróun sem leiðarljós inn í framtíðina og miða atvinnuuppbyggingu í landinu við slík markmið. Á grundvelli hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og framsækinnar, fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar er sá fjárfestingarsamningur sem hér liggur fyrir óverjandi. Um er að ræða einsleitt, orkukræft fyrirtæki sem ekki lítur út fyrir að hafi örugga fjármögnun. Orkuöflun er óljós, álverð hefur verið á hraðri niðurleið og fjölmargir hafa bent á að efnahagslegur ábati erlendrar stóriðju á Íslandi er afar takmarkaður og minni heldur en af annars konar uppbyggingu. Þá er afar óskynsamlegt að hlaða enn fleiri eggjum í sömu körfuna og óskiljanlegt að veita slíka skattaafslætti við núverandi efnahagsaðstæður. Það hlýtur og að teljast afar dapurlegt að ekkert tillit sé tekið til náttúruverndarsjónarmiða í slíkum gjörningum. Náttúra landsins hlýtur þó að teljast ein dýrmætasta auðlind þjóðarinnar til lengri tíma litið, enda þeim eiginleikum gædd að fást ekki aftur hafi henni eitt sinn verið fórnað.
    Minni hluti iðnaðarnefndar leggst alfarið gegn frumvarpinu og ítrekar að efnahagsleg áhrif sem og umhverfisáhrif þess eru illa reifuð og meðferð þess því mjög ábótavant eins og fram kemur í álitum minni hluta umhverfisnefndar og minni hluta efnahags- og skattanefndar en álitin fylgja áliti meiri hluta iðnaðarnefndar. Telur minni hlutinn brýnt að málið verði betur unnið á milli umræðna og enga þörf fyrir að afgreiða það í flaustri. Verði það engu að síður gert leggur minni hlutinn til að við 3. umræðu verði sú breyting gerð á 4. gr. frumvarpsins að í stað hlutfallstölunnar 15% þrívegis í 1. tölul. 1. mgr. hennar komi hlutfallstalan 18% og hámark tekjuskattshlutfalls fyrirhugaðs álvers í Helguvík þannig hækkað til samræmis við aðra samninga ríkisins vegna álvera á Íslandi.

Alþingi, 2. apríl 2009.



Álfheiður Ingadóttir.




Fylgiskjal I.


Samkomulag Landsvirkjunar og sveitarstjórnar Flóahrepps
um mál er varða byggingu og rekstur Urriðafossvirkjunar
vegna aðalskipulags sveitarfélagsins.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Samkomulag milli Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagsins Ölfuss
um ýmis mál sem tengjast virkjun á Hellisheiði.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.