Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 411. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 911  —  411. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

Frá 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Nefndin hefur fjallað ítarlega um stofnun eignaumsýslufélags á vegum ríkisins sem lögð er til í frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar. Fjölmargir gestir og umsagnaraðilar hafa lýst miklum efasemdum um þá leið sem lögð er til og hvatt til að leitað sé allra annarra leiða til úrlausnar áður en frumvarpið verður samþykkt. Margir óttast að ef af félaginu verður sé hætta á að erfiðleikar íslensks atvinnulífs verði framlengdir um mörg ár. 2. minni hluti tekur undir þessi varnaðarorð.
    Í sameiginlegri umsögn Landssamtaka íslenskra útvegsmanna, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu kemur fram að þau eru mótfallin frumvarpinu og mæla gegn því að það verði samþykkt. Þessir aðilar segja það mundu ganga þvert gegn stefnu sem samtökin hafi markað ásamt ASÍ og í samráði við fyrrverandi ríkisstjórn um aðgerðir í þágu fyrirtækja og fyrirhugaða aðkomu lífeyrissjóðanna að lausn vandans. Sú lausn byggðist á samráði stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, dreifðri eignaraðild, fagmennsku og öguðum vinnubrögðum. Samtökin telja að ríkisbankaleiðin sé ófær og að þetta frumvarp muni geta framlengt erfiðleika atvinnulífsins um mörg ár.
    Í umsögn Félags íslenskra stórkaupmanna kemur fram að mikilvægara sé að styrkja þá ferla sem til staðar eru í samfélaginu til lausnar á vandanum í stað þess að búa til nýja. Félagið nefnir skiptarétt og viðskiptalöggjöf og bendir á nokkra ágalla eins og kennitöluflakk, vafasama eignarréttarfyrirvara, óeðlilega skiptingu þrotabúa og undanskot eigna. Þá varar félagið við áhrifum frumvarpsins á samkeppni. Sama gera aðrir aðilar einnig og tekur 2. minni hluti undir tillögu 1. minni hluta um viðbót við 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins sem gerð er til samræmis við ábendingar Samkeppniseftirlitsins.
    Byggðastofnun telur sig ekki geta metið áhrif frumvarpsins fyrr en ljóst sé hvaða fyrirtæki lendi í eigu hins opinbera hlutafélags. Undir það taka fleiri umsagnaraðilar.
    Alþýðusamband Íslands sendi inn afar harðorða umsögn þar sem sambandið varar beinlínis við því formi sem lagt er til í frumvarpinu. Formaður sambandsins ítrekaði þessa afstöðu með skýrum hætti á fundi nefndarinnar. Enn fremur benti hann á að erfitt yrði að ákveða hvaða fyrirtæki ættu að lifa og hver að deyja. ASÍ leggur til breytingu á 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins á þá leið að stefnt skuli að því að bjóða innlendum og erlendum fjárfestum aðkomu að eignaumsýslufélaginu. Undir þetta tekur 2. minni hluti.
    Á fundum nefndarinnar kom fram veruleg andstaða aðila vinnumarkaðarins við frumvarpið og m.a. vísað til þess að ekki hefði verið leitað til þeirra við samningu þess. Frumvarpið fæli í sér þá hættu að ákvarðanir í starfsemi eignaumsýslufélagsins, og þar af leiðandi atvinnufyrirtækja sem félagið tæki yfir, yrðu teknar á öðrum grunni en faglegum og byðu jafnvel upp á hættu á spillingu. Bent var á að endurskipulagning á innviðum viðkomandi fyrirtækja gæti orðið tilefni mikilla deilna og að stjórnmálamenn mættu búa sig undir harða gagnrýni bæði frá starfsmönnum fyrirtækjanna og samkeppnisaðilum á markaði. Ekkert lægi heldur fyrir um hvernig staðið verður að sölu eignarhluta.
    Fulltrúar nýju bankanna sáu ekki nauðsyn á samþykkt frumvarpsins enn sem komið er. Ekki væri mikið um fyrirtæki sem væru komin langt í skuldameðferð. Hins vegar bentu þeir á að gera þyrfti breytingar á skiptalögum til að flýta uppgjöri eignarhaldsfyrirtækja og annarra fyrirtækja.
    Fram komu ábendingar um að stofnun opinbers eignaumsýslufélags væri úrræði til þrautavara sem aðeins kæmi til greina ef útséð væri að aðrar leiðir yrðu ekki færar. Áform aðila almenna vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna um stofnun endurreisnarsjóðs atvinnulífsins voru rædd í því sambandi en með áliti frá 20. des. sl., sem stendur í tengslum við samþykkt laga nr. 171/2008, veitti efnahags- og skattanefnd þeim áformum brautargengi. Fram kom að lífeyrissjóðir ynnu áfram að stofnun sjóðsins ef ásættanleg lausn fengist í uppgjöri við gömlu bankana vegna gjaldeyrisskiptasamninga.
    Endurreisnarsjóðnum er við val á fjárfestingarkostum ætlað að leggja áherslu á dreift eignarhald og uppbyggingu hlutabréfamarkaðar sem frumvarpið tryggir ekki. Að auki er sjóðnum ætlað að eiga gott samstarf við nýju bankana en ekkert bendir til að þeir séu ófærir um að annast þau verkefni sem eignaumsýslufélagið á samkvæmt frumvarpinu að hafa með höndum. Einnig hefur því verið haldið fram að þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki eigi jafnan greiðastan aðgang að lánafyrirgreiðslu og séu í minnstri þörf fyrir aðstoð ríkisvaldsins.
    Annar minni hluti óskaði ítrekað en árangurslaust eftir upplýsingum um hvaða fyrirtæki gætu talist „þjóðhagslega mikilvæg“ umfram vísbendingar í almennum athugasemdum við frumvarpið. Fram kom að það verður stjórn fyrirtækisins sem tekur ákvörðun um það hvaða fyrirtæki falli undir þessa skilgreiningu. Þykir 2. minni hluta stjórnin fá hættulega víðtækar heimildir til að ákveða hvaða fyrirtæki lifa og hver deyja. Stjórnin gæti sjálfsagt heimfært þessa skilgreiningu á hvaða fyrirtæki sem er en einnig gæti hún túlkað þessa skilgreiningu mjög þröngt þannig að nánast ekkert fyrirtæki félli undir hana. Þetta er mikið áhyggjuefni, ekki síst frá sjónarhóli samkeppnisréttar og í ljósi yfirburðastöðu íslenska ríkisins á bankamarkaði.
    Ekki var heldur laust við að e-liður 2. gr. frumvarpsins vekti nokkurn óhug sumra en þar er kveðið á um að tilgangur eignaumsýslufélagsins sé að byggja upp heildstæða þekkingu til endurskipulagningar á fjárhags- og rekstrargrundvelli skuldsettra atvinnufyrirtækja.
    Annar minni hluti óskaði ítrekað eftir afstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þessa frumvarps, hvort hann krefðist þessarar breytingar, hvort hann óskaði eftir henni eða einungis þyldi hana en engin svör bárust.
    Annar minni hluti tekur undir viðvaranir umsagnaraðila við þessu frumvarpi og gerir þær að sínum. Í ljósi þeirra leggst 2. minni hluti gegn samþykkt frumvarpsins en flytur til vara eina breytingartillögu í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 3. apríl 2009.



Pétur H. Blöndal,


frsm.


Ragnheiður E. Árnadóttir.