Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 33. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 915  —  33. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (upptaka, hryðjuverk, skipulögð brotastarfsemi, mansal og peningaþvætti).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Róbert Ragnar Spanó prófessor og Gunnar Narfa Gunnarsson frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Umsagnir um málið bárust frá Persónuvernd, Fangelsismálastofnun ríkisins, Alþýðusambandi Íslands, tollstjóranum í Reykjavík, Tollvarðafélagi Íslands, ríkislögreglustjóranum, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, ríkissaksóknara, Viðskiptaráði Íslands, Barnaheillum, Ákærendafélagi Íslands og laganefnd Lögmannafélags Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga sem snúa að upptöku eigna, hryðjuverkum, mansali og peningaþvætti. Tilgangurinn er að laga þessi ákvæði að alþjóðlegum skuldbindingum, annars vegar vegna fullgildingar samninga um alþjóðlega brotastarfsemi og hins vegar vegna tilmæla frá alþjóðlegum nefndum. Samningarnir sem hér um ræðir eru samningur Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi (Palermó-samningur) frá 15. nóvember 2000 og bókun við hann, Evrópuráðssamningur um varnir gegn hryðjuverkum og Evrópuráðssamningur um aðgerðir gegn mansali sem báðir eru frá 3. maí 2005. Þá er meðal annars gert ráð fyrir að lögfest verði rýmri heimild til upptöku eigna en er í gildandi lögum, hafi einstaklingur gerst sekur um alvarleg brot sem fela í sér verulegan ávinning.
    Frumvarpið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi, því 135. Nefndin fékk þá málið til meðferðar og fékk til sín nokkurn fjölda gesta og umsagnir sem voru jákvæðar. Nefndin fjallaði ítarlega um málið og skilaði áliti sínu en ekki náðist að afgreiða málið sem hér er óbreytt til meðferðar hjá nefndinni.
    Nefndin ræddi nokkuð um þann kafla frumvarpsins sem fjallar um upptöku eigna og lagt er til að komi í stað 69. gr. almennra hegningarlaga. Markmiðið með frumvarpinu er að gera ákvæðin skýrari og færa þau í nútímalegt horf til að um upptöku gildi skýrar og ótvíræðar reglur og að unnt sé að bregðast við skipulagðri brotastarfsemi með skilvirkari hætti. Í c-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að unnt verði að gera upptæk verðmæti án þess að sýnt sé fram á að þau megi rekja til tiltekins refsiverðs brots hafi viðkomandi gerst sekur um brot sem er til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og geti brotið varðað a.m.k. sex ára fangelsi . Að þessum skilyrðum uppfylltum er heimilt að gera upptæk verðmæti sem tilheyra viðkomandi nema hann sýni fram á að verðmætanna hafi verið aflað með lögmætum hætti. Einnig er heimilt, að þrengri skilyrðum uppfylltum, að gera upptæk verðmæti sem tilheyra maka, fyrrverandi maka eða sambúðarmaka viðkomandi og verðmæti sem runnið hafa til lögaðila, sé ekki sýnt fram á að þeirra hafi verið aflað með lögmætum hætti. Nefndin leggur áherslu á að hér er í reynd ekki um að ræða frávik frá sönnunarbyrði ákæruvaldsins heldur sérstaka sönnunarreglu þar sem hlutaðeigandi gefst kostur á að setja fram einstök gögn til að sanna að eignir sem hann hafi eignast séu lögmætar. Þá telur nefndin rétt að taka fram að í greinargerð með frumvarpinu er ítarlega fjallað um samræmingu þessa ákvæðis við ákvæði mannréttindasamninga og með vísan til þeirrar umfjöllunar telur nefndin að útfærsla ákvæðanna samræmist þeim. Þá telur nefndin einnig rétt að taka fram að við samningu ákvæðanna var litið til sambærilegra ákvæða í dönskum lögum en auk þess að gengið er lengra í sambærilegum lagaákvæðum í öðrum ríkjum og því í reynd farið nokkuð varlegar hér.
     Í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar frá síðasta þingi kemur fram að í umsögn skattrannsóknarstjóra ríkisins um frumvarpið sé fjallað um það grundvallaratriði skattaréttar að aðila hafi hlotnast skattlögð verðmæti, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þess efnis að aðilar telji sér til tekna þau verðmæti sem þeim hafi hlotnast. Í skattalöggjöf er ekki tekið á því álitaefni hvaða réttaráhrif það hafi á ákvarðaðan skattstofn að skattlögð verðmæti séu gerð upptæk. Taldi skattrannsóknarstjóri að með hliðsjón af framangreindu ákvæði laga um tekjuskatt væri a.m.k. vafa undirorpið að eignaupptöku og skattlagningu verði beitt samhliða. Beindi meiri hlutinn því þá til fjármálaráðherra að kannað yrði hvort gera þyrfti breytingar á skattalöggjöf hvað þetta atriði varðar og ítrekar nefndin það.
    Nefndin ræddi einnig um mansalsmál á fundum sínum en þar kom fram að eftir standi að gera breytingar á ákvæðum útlendingalaga um dvalarleyfi í samræmi við ákvæði Palermó- samningsins. Nefndin telur nauðsynlegt að ganga frá þeim breytingum samhliða afgreiðslu þessa máls og hafði því samráð við ráðuneytið um útfærslu þeirra. Breytingarnar sem nefndin leggur til eru í fullu samræmi við Evrópuráðssamninginn um aðgerðir gegn mansali og Palermó-bókunina. Nefndin leggur m.a. til lengri umþóttunartíma en fram kemur í samningnum og bókuninni, fyrir útlending sem lögregla hefur tilkynnt Útlendingastofnun um að rökstuddur grunur leiki á um að sé fórnarlamb mansals, þ.e. allt að sex mánuðir eins og tíðkast í Noregi. Þá leggur nefndin einnig til að þegar sérstaklega stendur á verði Útlendingastofnun heimilt að veita fórnarlambi mansals endurnýjanlegt dvalarleyfi til eins árs þótt grunnskilyrðum dvalarleyfis skv. 11. gr. laganna sé ekki fullnægt. Þ.e. þegar það annaðhvort er nauðsynlegt vegna persónulegra aðstæðna viðkomandi eða telst nauðsynlegt að mati lögreglu vegna samvinnu viðkomandi við yfirvöld við rannsókn og meðferð sakamáls. Leyfi samkvæmt þessu ákvæði getur þó ekki verið grundvöllur búsetuleyfis. Nefndin leggur því til að við frumvarpið bætist tvær nýjar greinar er breyti útlendingalögum.
    Nefndin telur rétt að taka fram að ábyrgð á mansalsmálum fluttist að öðru leyti í heild yfir til félagsmálaráðuneytis í janúar 2008 við flutning verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.
    Nefndin leggur til smávægilega lagfæringu á 82. gr. almennra hegningarlaga um fyrningu þar sem nauðsynlegt er að fella út tilvísun í þeirri grein verði frumvarpið að lögum.
    Að því er varðar þær breytingar sem stafa af fullgildingu Evrópuráðssamnings um varnir gegn hryðjuverkum er það álit nefndarinnar, að höfðu samráði við dómsmálaráðuneytið, að rétt sé að fresta þeim þætti málsins til næsta þings og gefa ráðuneytinu þannig betra ráðrúm til að fara yfir framkomnar athugasemdir. Nefndin leggur því til að b-liður 3. gr., 4. og 5. gr. falli brott.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Sigurður Kári Kristjánsson skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Birgir Ármannsson, Ólöf Nordal og Jón Magnússon voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. apríl 2009.

Árni Páll Árnason,
form., frsm.
Álfheiður Ingadóttir.
Björgvin G. Sigurðsson.

Sigurður Kári Kristjánsson,
með fyrirvara.
Siv Friðleifsdóttir.