Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 334. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 940  —  334. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar um vinnslu hvalafurða.

     1.      Hvaða reglugerðir eru í gildi um fyrirkomulag verkunar á hvalafla og nýtingu hvals til fullnustu og um meðferð hvalafurða, sbr. 5. gr. laga nr. 26/1949?
    Sú reglugerð sem er í gildi er reglugerð nr. 105/1949, um vinnslu og umbúnað á hvalkjöti. Jafnframt hafa verið sett fyrirmæli af Matvælastofnun um skurð á hvölum og meðferð hvalafurða á grundvelli þessarar reglugerðar.

     2.      Hvað var mikill hluti hvers dýrs á vertíðinni 2006–2007 nýttur í vinnslu: a) hverrar veiddrar hrefnu, b) hverrar veiddrar langreyðar?
     Ráðuneytið hefur ekki þessar upplýsingar. Bent er á að leita þeirra hjá fyrirtækinu Hval hf. eða Hrefnuveiðimönnum ehf.

     3.      Hve miklar afurðir (í tonnum) fengust að meðaltali af hverju dýri: a) hrefnu, b) langreyði – og hvernig er skipting þeirra í kjöt, spik/rengi, mjöl, lýsi?
    Sjá svar við 2. tölul.
    
     4.      Ef hvalafli frá vertíðinni 2006–2007 var ekki eða að litlu leyti unninn í mjöl og lýsi, hver er þá skýringin á því?
    Sjá svar við 2. tölul.

     5.      Hvar og samkvæmt hvaða reglum voru hvalhræ á þessum tíma urðuð eða losuð í sjó?
    Um meðferð úrgangs gilda lög nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og reglugerð nr. 783/2003, um urðun úrgangs. Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga annast eftirlit með meðferð úrgangs og því var óskað eftir upplýsingum um þetta efni hjá stofnuninni og er svar hennar eftirfarandi:
    Samkvæmt 9. gr. laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, er varp efna og hluta í hafið óheimilt. Umhverfisstofnun getur þó samkvæmt sömu grein, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, veitt leyfi til að eftirtöldum efnum og hlutum sé varpað í hafið:
     a.      dýpkunarefnum,
     b.      náttúrulegum, óvirkum efnum, þ.e. föstum jarðefnum sem ekki hafa verið unnin efnafræðilega og samsett eru úr efnum sem ólíklegt er að losni út í hafsvæðið,
     c.      fiskúrgangi frá fiskverkunarstöðvun í landi, enda standi sérstaklega á.
    Það sem flutt er í land má því ekki varpa í hafið nema í undantekningartilfellum og með leyfi Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun gaf ekki nein slík leyfi fyrir úrgang sem til féll vegna hvalveiða. Umhverfisstofnun hefur ekki upplýsingar um hvort slíkur úrgangur fór beint á viðurkennda urðunarstaði eða í einhverja meðhöndlun eða vinnslu.
    Í 24. tölul. 3. gr. laganna, segir hins vegar:
    „Varp: Þegar efnum eða hlutum er vísvitandi eða af gáleysi fleygt í hafið frá skipum, loftförum, pöllum eða öðrum mannvirkjum, þ.m.t. þegar skipum, loftförum, pöllum eða öðrum mannvirkjum er sökkt í hafið, þ.e. allt sem ekki er losun. Eftirfarandi telst ekki varp:
     a.      að koma fyrir efnum eða hlutum í hafinu í öðrum lögmætum tilgangi en að farga þeim,
     b.      þegar úrgangsefni eða önnur efni, sem beinlínis stafa frá rannsóknum eða nýtingu jarðefna í eða á hafsbotni, berast í hafið,
     c.      að kasta óunnum fiski og fiskúrgangi og öðrum sjávarlífverum vegna veiða og vinnslu í hafið.“
    Það sem til fellur sem úrgangur þegar gert er að dýrunum á sjó fellur utan skilgreiningar á hugtakinu varp samkvæmt framansögðu og því ekki skylt að tilkynna slíkt eða að fá sérstakt
leyfi.