Áform ríkisstjórnarinnar um fyrningu aflaheimilda

Miðvikudaginn 20. maí 2009, kl. 14:05:17 (127)


137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um fyrningu aflaheimilda.

[14:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til hamingju með nýtt og veigamikið starf.

Hæstv. ráðherra hefur verið óþreytandi við að segja okkur þá sjálfgefnu hluti að sjávarútvegur og landbúnaður muni á næstunni standa undir stærri hluta þjóðarframleiðslu en áður og gegna lykilhlutverki í atvinnulífi næstu ára. Þetta er allt gott og blessað. En hvernig munu þá stjórnvöld bregðast við? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að tryggja að möguleikar atvinnulífsins verði sem mestir til að standa undir hagvexti og góðum lífskjörum? Það mætti ætla að sjálfgefið svar við þessum spurningum væri að það yrði gert best með því að létta byrðum af atvinnulífinu, draga úr óvissu, gera stjórnendum betur kleift að skipuleggja sig á næstunni.

En er það svo? Öðru nær.

Ríkisstjórnin hefur helst lagt það til í sjávarútvegsmálum sem hefur sett sjávarútveginn í hreint uppnám og þegar valdið ómældu tjóni í greininni og þeim atvinnurekstri sem er beintengdur sjávarútveginum. Hver sveitarstjórnin á fætur annarri hefur sent frá sér ákall til ríkisstjórnarinnar um að falla frá áformum sínum, draga úr óvissunni og tryggja stöðugleika í grundvallaratvinnuvegi okkar á þeim tímum þegar þörfin kallar mest á slíkt.

Tilgangur þessarar umræðu hér og nú er einmitt að kalla eftir viðbrögðum hæstv. ríkisstjórnar við þessum óskum og kröfum fólks úti um allt land. Ríkisstjórnin hefur boðað að innkalla eigi allar aflaheimildir á næstu 20 árum og hefjast skuli handa strax á næsta ári. Hér er talað býsna skýrt. Það virðist liggja fyrir að fara svokallaða fyrningarleið þvert ofan í ráð þeirra sem gleggst þekkja til í sjávarútvegi, þvert ofan í vilja sjávarbyggðanna og þó að fyrir liggi að slíkt muni setja sjávarútveginn í algjört uppnám. Það er því hraustlega mælt þegar ríkisstjórnin býður síðan hagsmunaaðilum til samráðs um leið sem þeir hafa sjálfir dæmt algjörlega óhæfa og fært rök fyrir að muni kalla gjaldþrot og hrun yfir greinina.

Það er eins og að aldrei sé vikið að því að sjávarútvegurinn er atvinnugrein sem lýtur lögmálum atvinnulífsins en verður ella undir. Ætla menn ekki að gæta þess að sjávarútvegurinn njóti stöðugs og áreiðanlegs rekstrarumhverfis? Á öll langtímahugsun að hverfa út úr greininni? Gleyma menn því kannski að kaup á nýjum skipum er langtímafjárfesting sem ekki þýðir að ráðast í nema menn viti hvað framtíðin ber í skauti sér og menn ná ekki góðu markaðsverði nema með stöðugleika í vinnslu og afhendingaröryggi á afurðunum? Þess vegna má spyrja: Er líklegt að fyrningarleiðin geri stöðu okkar á erlendum mörkuðum sterkari í ljósi þess að fyrning veiðiréttar mun augljóslega auka óvissuna og gera mönnum þar með erfiðara fyrir að skipuleggja markaðsstarf sitt?

Þegar menn boða fyrningarleið er eins og að þessi einföldu sannindi séu alltaf látin lönd og leið. Og nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra sem hlýtur að vera grundvallarspurningin: Telur hann líklegt að 5% árleg fyrning aflaheimilda muni styrkja stöðu sjávarútvegsins? Hvað í þessari aðferðafræði gerir það að verkum að sjávarútvegurinn eflist frá núverandi ástandi? Ætli fyrningarleiðin sé líkleg til þess að sjávarútvegurinn verði hagkvæmari atvinnugrein en ella?

Það er að vísu þekkt röksemd frá fyrri árum þegar menn töluðu máli veiðigjalds og fyrningar, þá var vísað til þess að flotinn væri of stór miðað við afrakstur fiskstofna, skipunum þyrfti þess vegna að fækka og útgerðir að stækka og sameinast. Með fyrningu eða hálfu veiðigjaldi mætti knýja sjávarútveginn til þess að draga meira úr tilkostnaði, fækka skipum hraðar og meira, hagræða, sameinast og stækka. Er það þetta sem vakir fyrir stjórnvöldum, að spila á frekari samþjöppun aflaheimilda til að draga úr tilkostnaði?

Fyrningarleiðin mun í rauninni í sinni einföldustu mynd leiða til þess að geta útgerðarinnar til að standa undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum mun stórskaðast. Framleiðnin mun hverfa af því að tekjumöguleikarnir eru settir í uppnám. En fastur kostnaður, svo sem fjárhagslegar skuldbindingar, verður áfram til staðar — eða hvað? Fyrirtæki munu gefast upp. Lánardrottnar verða fyrir skaða. Það er augljóst að þetta mun stuðla að tilfærslu veiðiréttar á milli byggðarlaga, langlíklegast frá minni byggðarlögum til hinna stærri nema inn í kerfið verði byggt fyrirkomulag aukinna tilfærslna. Er það ætlunin?

Sá sem fyrstur verður fyrir atlögu fyrningarinnar er auðvitað nýliðinn, einyrkinn sem menn hafa svo gjarnan talað um, ekki síst á hátíðarstundum, að þurfi að efla í sjávarútveginum. Hann er fjárhagslega veikastur fyrir í flestum tilvikum og fyrningin verður honum því strax dýrkeypt. Með öðrum orðum verða fyrstu fórnarlömb fyrningarleiðarinnar þeir sem eru nýjastir í atvinnugreininni, fulltrúar nýliðunarinnar sem er mjög rómuð, þeir sem fyrir eru fjárhagslega veikastir og minni byggðarlögin í landinu.

Þess vegna er ekki að undra að harðorð mótmæli hafi komið frá slíkum stöðum. Hreppsnefnd Grímseyjar segir t.d. um fyrningarleið ríkisstjórnarinnar, með leyfi virðulegs forseta:

„Þetta er sú alversta hugmynd sem komið hefur fram í sjávarútvegsstefnu okkar Íslendinga.“ Og viljum við bæta við: Og hafa þær þó margar vitlausar komið fram.

Í afar athyglisverðri grein í Morgunblaðinu á sunnudaginn skrifa eigendur vel rekins og öflugs fjölskyldufyrirtækis á Rifi á Snæfellsnesi afskaplega athyglisverða grein sem ég ætla að biðja hæstv. ráðherra að lesa vel og kynna sér. Hér er um að ræða samhenta fjölskyldu sem vinnur af alefli að rekstri sínum og hefur gert um áratugaskeið. Þau lýsa vel áhrifunum af fyrningarleiðinni með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Núverandi stjórnvöld hafa boðað þá leið að innkalla veiðiheimildir frá og með kvótaárinu 2010/2011. Verði það gert án þess að fyrir komi bætur mun þessi aðgerð bitna harðast á þeim sem keypt hafa veiðiheimildir sl. 5–6 ár, nýliðunum í greininni sem hafa ekkert annað gert en fylgja leikreglunum til að byggja upp sinn rekstur. Samt eru þessar breytingar m.a. sagðar gerðar til auðvelda nýliðun í greininni. Fyrir okkur eru það algjör öfugmæli. Við teljum að hægt sé að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og ná meiri sátt um það án þess að fara í slíkar harkalegar breytingar.“

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að þessi mál skýrist. Hið alvarlega er að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar og að því er virðist staðfastur ásetningur um að fara fyrningarleiðina er þegar búinn að valda skaða. Stjórnendur halda að sér höndum. Áhugi manna á að fjárfesta í sjávarútvegi hefur þornað upp. Þjónustuaðilar verða varir við minni vörukaup og það er reynt að slá fjárfestingum á frest svo sem kostur er. Það er ástæða til að óttast áhrif á lánamöguleika sjávarútvegsins vegna þeirrar óvissu sem umlykur greinina um þessar mundir.

Þetta ástand dýpkar því enn frekar þá efnahagskreppu sem við búum við og var þó ekki á hana bætandi. Sú óvissa sem ríkisstjórnin hefur kallað yfir sjávarútveginn er í hróplegu ósamræmi við tal hæstv. sjávarútvegsráðherra um þýðingu sjávarútvegsins á komandi árum.

Þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra skýri málin og greini okkur frá þeim útreikningum sem hljóta núna að liggja fyrir um áhrif fyrningarleiðarinnar á einstakar byggðir, á stöðu sjávarútvegsins í heild sinni, á einyrkjana og þá sem nýlega hafa haslað sér völl í sjávarútvegi. Því verður ekki trúað að ríkisstjórn skrifi það inn í stefnuyfirlýsingu sína að fara fyrningarleið nákvæmlega eins og þar er tilgreint öðruvísi en að fyrir liggi mat sem byggi á vönduðum útreikningum óvilhallra aðila sem hafa kynnt sér þessi mál. Það er algjörlega óhugsandi að yfirlýsing af þessu taginu sé bara pólitísk yfirlýsing án þess að á bak við liggi vandaður fræðilegur útbúnaður.

Það er líka eðlilegt að spyrja: Liggur fyrir hvernig staðið verður að fyrningu aflaheimildanna? Hvaða prósentur á að nota og hvernig verður þetta unnið? Hvenær er ætlunin að fyrningin hefjist? Um það hafa komið fram mjög misvísandi svör frá hæstv. ríkisstjórn. Er ætlunin að sama fyrningarprósenta gildi um allar útgerðir í landinu eða verður þetta notað til einhvers konar mismununar í pólitískum (Forseti hringir.) tilgangi?