Áform ríkisstjórnarinnar um fyrningu aflaheimilda

Miðvikudaginn 20. maí 2009, kl. 14:53:53 (136)


137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um fyrningu aflaheimilda.

[14:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er ljóst að þingmenn vilja fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum sem best á framfæri. Ég legg áherslu á mikilvægi þess að menn átti sig á því að það verður að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið. Það er engin sátt um það kerfi eins og það er í dag. Þeir þingmenn sem vilja halda gjörsamlega öllu óbreyttu (Gripið fram í.) eru veruleikafirrtir. (Gripið fram í.) Þess vegna tel ég að við eigum frekar að sameinast um að fara út í þá vinnu sem ríkisstjórnin hefur boðað að verði unnin og unnið í nánu samráði við alla hagsmunaaðila. Það verður ekkert gert fyrr en gögnum hefur verið safnað, ekki fyrr en upplýsingar hafa komið inn.

Það væri fróðlegt að vita hvað fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Einar K. Guðfinnsson gerði við þá áætlun að kanna áhrif kvótans og kvótatilfærslnanna á byggðir í landinu. Hann gæti kannað hvað Flateyringar segðu. Hann gæti líka kannað hvað þeir segja í Breiðdalsvík. Ég er með ályktun frá Páli Baldurssyni, sveitarstjóra í Breiðdalshreppi, þar sem hann segir að kerfið sé löngu hrunið og hvetur stjórnvöld til að hvika hvergi frá áformum sínum um að endurskoða kvótakerfið. Þetta er alvörumál um allt land. Menn skulu ekki vera að tala eins og svo sé ekki.

Það sem ég vil segja hér er að ég mun ótrauður standa áfram fyrir því að fiskveiðistjórnarkerfið verði endurskoðað í því skyni að skapa sátt meðal þjóðarinnar. Ég mun kalla til samráðs flesta eða alla hagsmunaaðila í samfélaginu, þar með talið sjómenn, útgerð, fiskvinnslu, verkafólk og sveitarfélög, til að fara yfir þetta mál og að gögnum verði safnað til að hægt verði að taka síðan vel rökstudda ákvörðun. Það verður að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið. Við skulum hafa kjark til að takast á við umræðuna, virða önnur sjónarmið og standa saman að því að leita sameiginlegrar lausnar. Hreint út sagt finnst mér enginn geta vikist undan því að koma inn í þessa umræðu og leita þar góðrar lausnar.

Ég segi fyrir mig, og ég tala þar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að vitaskuld verður ekki farið í neinar einstakar aðgerðir sem menn munu reikna út að muni rústa sjávarútveginn, detti einhverjum það í hug. Nei, markmiðin eru skýr. Við ætlum að treysta stöðu sjávarútvegsins. Við ætlum að treysta uppbyggingu fiskstofnanna í hafinu. Við ætlum líka að treysta byggðir landsins, efla atvinnu um allt land og standa vörð um hana. Þessi sjónarmið öll höfum við að leiðarljósi og ég kalla eftir því að við komum hér öll saman af einlægni og leitum farsællar lausnar sem þjóðin getur orðið líka sátt við. (TÞH: Þetta er lýðskrum, ekkert annað.)