Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 26. maí 2009, kl. 14:16:03 (244)


137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

fjármálafyrirtæki.

33. mál
[14:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sömuleiðis að þetta mál er hér fram komið. Ég tel að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra, ef ég skildi framsöguræðu hans rétt, að afskaplega mikilvægt sé að hv. viðskiptanefnd fari mjög nákvæmlega yfir þetta mál og þá sérstaklega með það í huga hvort hér sé um of víðfeðma heimild að ræða.

Í rauninni er þetta mál kannski afskaplega skýrt dæmi um það hve mikilvægt það er að hv. viðskiptanefnd fari yfir endurreisn bankakerfisins. Ef ég skil málið rétt, hæstv. ráðherra eða einhver annar leiðréttir það þá, var talið að þessi heimild — og það sem hv. þm. Eygló Harðardóttir vísaði hér sérstaklega til varðandi launagreiðslur til þeirra banka sem skilanefndir hafa tekið yfir var talið að það væri inni í þeim lögum sem nú þegar hafa verið samþykkt. Svo virðist ekki vera samkvæmt túlkun skilanefndanna. Þetta er bara eitt af þeim málum sem upp hafa komið.

Það er augljóst, eins og við þekkjum öll, að endurreisnin hefur gengið mun hægar en til var ætlast. Það er ljóst að þeir sérfræðingar sem komið hafa að málum hafa verið óánægðir með stefnuleysi og hægagang ríkisstjórnarinnar. Við horfum því miður upp á það, eins og við ræddum hér áðan, að það er orðið daglegt brauð að við fáum fréttir annars staðar frá um hvað er að gerast í þessum málum. En við á þinginu erum engu nær um stöðu málsins og við höfum nú farið fram á það með formlegum hætti, þ.e. með því að skrifa formanni viðskiptanefndar bréf, nefndarmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í viðskiptanefnd, að fundur verði haldinn tafarlaust út af þessum málum. Ekki er með neinu móti hægt að halda því fram að við höfum fyrst farið harða leið, ef við getum sagt sem svo, því þetta var það fyrsta sem við báðum um í viðskiptanefnd. Af augljósum ástæðum báðum við fyrst um að þetta mál yrði sérstaklega tekið fyrir.

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að þetta sé eitt af þessum stóru málum sem við þurfum að fara yfir á þessu þingi. Ég lít svo á að í forgangsröðinni sé þetta fremst. Eins og við vitum er bankakerfið lífæð þjóðarlíkamans ef þannig má að orði komast. Ef bankakerfið virkar ekki mun það koma niður á öllum, hvort sem það eru atvinnufyrirtækin eða heimilin. Það mun svo sannarlega koma fram í mjög alvarlegum hlutum hvað varðar allan almenning.

Þetta mál er lítið, í það minnsta í orðum, en ekki er þar með sagt að það geti ekki haft alvarlegar afleiðingar ef við vöndum okkur ekki og förum ekki vel yfir það. Ég veit það og treysti því að í viðskiptanefnd munum við fara yfir þetta mál eins vel og kostur er. Við komumst hins vegar ekki hjá því, virðulegi forseti, að skoða þetta mál í stærra samhengi og þess vegna ítreka ég það hér enn og aftur að við fáum kynningu á stöðu mála hvað varðar endurreisn bankakerfisins.

Það væri kannski ágætt, úr því að hæstv. viðskiptaráðherra er hér, að hann noti tækifærið og upplýsi okkur um hver staða mála er. Kannski hefur hæstv. ráðherra einhverjar þær upplýsingar sem geta varpað ljósi á það hvað sérfræðingurinn Mats Josefsson var að fara í sænsku pressunni. Það er augljóst að formaður viðskiptanefndar er ekki með þær upplýsingar, það kom fram í máli formannsins hér áðan. Það væri kannski ekki úr vegi að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um það sem farið hefur á milli sérfræðingsins sem komið hefur að bankakreppum víðs vegar um heiminn — og fór nú þannig, eins og komið hefur fram, að hann fékk nóg. Hann taldi að stefnuleysið og hægagangurinn í ríkisstjórninni væri þess eðlis að honum væri ekki lengur fært að starfa hér.

Ef ég skil þetta rétt, hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef svo er ekki, náðust sættir í málinu. Það væri fróðlegt að vita hvað sérfræðingurinn fór fram á, hvaða skilyrði hann vildi fá uppfyllt, þannig að hann gæti áfram aðstoðað íslensk stjórnvöld við þessa endurreisn. Það er mjög gott að hafa hæstv. viðskiptaráðherra hér, hann er inni í öllum þessum málum. Hann þekkir þetta út í gegn. Það veit örugglega enginn betur en hann af hverju umræddur sérfræðingur vildi ekki starfa lengur með stjórnvöldum, þó að því hafi að vísu verið kippt í liðinn.

Forsætisráðherra upplýsti í umræðunni í gær að það hafi verið út af stefnuleysi og hægagangi ríkisstjórnarinnar. Einnig hafa komið fram mjög athyglisverðar upplýsingar úr blöðunum í dag, ef þær reynast réttar. Hann segir að Íslendingar geri sér ekki grein fyrir kostnaðinum. Það er kannski ágætt að hæstv. viðskiptaráðherra upplýsi þá hvað hann veit í því máli, þ.e. hvert sérfræðingurinn er að fara. Allir sem töluðu hér áðan voru sammála um að þetta væri ekki í neinu samræmi við þær upplýsingar sem þinginu hefðu verið gefnar fram til þessa. Þær upplýsingar sem komu fram í sænsku pressunni, eftir sérfræðingnum sem komið hefur að þessum málum á ýmsum stöðum, voru ekki í samræmi við þær upplýsingar sem áður hafa komið fram.

Allir eru sammála um að endurreisnin hefur ekki gengið jafnhratt og ætlað var en okkur skortir upplýsingar um það af hverju það er ef undan eru skildar þær upplýsingar sem komu fram hjá forsætisráðherra í gær um það að um væri að ræða, í það minnsta hvað varðaði þennan sérfræðing, stefnuleysi og hægagang ríkisstjórnarinnar. Það er augljóst að verkstjórnin er ekki sem skyldi hjá ríkisstjórninni og er það bagalegt.

Ýmsar upplýsingar hafa líka komið fram, t.d. hjá hæstv. ráðherra, um vandann varðandi eignir og skuldir bankanna og hefur ráðherrann komið fram með hugmyndir sem erfitt er að hrinda í framkvæmd, hugmyndir um umbreytingu á lánum í erlendri mynt yfir í íslenskar krónur. Það væri kannski ágætt að fá að vita hjá hæstv. ráðherra hvort hann telji það einu leiðina eða hvort fleiri leiðir komi til greina ef hann telur þá ástæðu til að fara yfir það hér.

Ég lít svo á, virðulegi forseti, að þetta mál sé bara einn anginn af þessu stóra máli sem er afskaplega mikilvægt, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið, að við förum vel yfir. Þannig vill til að sú nefnd þingsins sem á að fjalla um þetta er viðskiptanefnd og ég treysti því að við þurfum ekki að bíða í marga daga eftir því að funda og fá upplýsingar um þau mikilvægu mál. Með fullri virðingu fyrir þeim málum sem liggja fyrir fundi viðskiptanefndar á morgun eru þau ekki í neinu samræmi við þetta stóra mál sem er endurreisn bankakerfisins.

Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. ráðherra hefur beðið um orðið. Ég er spenntur að heyra hvað hann kemur til með að upplýsa þingið um. Ég vona að eftir ræðu hæstv. ráðherra þurfum við ekki að lesa á morgun eða hinn einhverjar nýjar upplýsingar sem koma okkur öllum spánskt fyrir sjónir. Öllum sem fylgdust með umræðunni hér áðan var ljóst að þær upplýsingar sem komu frá sérfræðingnum, og við sáum það líka í gær, sem komið hefur að þessu máli, bæði fréttirnar í gær og í morgun, komu þingheimi, í það minnsta þingmönnum stjórnarandstöðunnar og, að því er mér sýndist, þingmönnum stjórnarliðsins líka, mjög á óvart.