Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 26. maí 2009, kl. 14:43:03 (254)


137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

fjármálafyrirtæki.

33. mál
[14:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá höfum við það. Að biðja um nefndarfund um jafnmikilvægt málefni og um er að ræða er áráttutengd hegðun. Ég tek undir með þeim hv. þingmanni sem hér talaði að hv. þingmenn Vinstri grænna hafa horfið, í það minnsta úr þingsal, þeir sem fóru mikinn fyrir nokkrum vikum og mánuðum síðan og hafa svo sannarlega ekki vílað fyrir sér að biðja um nefndarfundi eins fljótt og kostur er. Ég þekki það bæði sem formaður þingnefnda hér áður og sem ráðherra. Ég veit ekki hvert málið er allt í einu. Nú er það orðin áráttutengd hegðun að biðja um fundi í þingnefnd um endurreisn bankanna í kjölfar þess að þingheimur (ÁI: ... frá því að sú sem hér situr biðji um orðið ...) í kjölfar þess að þingheimur þarf að lesa í blöðunum dag hvern einhverjar fréttir um þau mál.

Virðulegi forseti. Ég vona að ég haldi þessari áráttutengdu hegðun áfram sem þingmaður minntist á, ég lofa því að það mun ég gera (Gripið fram í: Heyr, heyr.) ef svo ber undir að við teljum að mál séu mikilvæg bið ég um að þingið fjalli um þau. Og ég treysti því að formaður viðskiptanefndar boði fund eins fljótt og mögulegt er. Við höfum beðið um það á þeim fundum sem haldnir hafa verið í viðskiptanefnd og töldum óskynsamlegt að fella niður fund þegar hægt hefði verið að fjalla um málið. Við því er ekkert að gera en ég er þess sannfærður að við fáum fund sem allra fyrst því að mikið liggur á og er þetta mál þess eðlis að mikilvægt er að halda fund í nefndinni um það.