Olíugjald og kílómetragjald og gjald af áfengi og tóbaki o.fl.

Fimmtudaginn 28. maí 2009, kl. 18:36:28 (556)

137. löggjafarþing — 9. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[18:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, og lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til hækkanir á tilgreindum gjöldum á ökutæki, eldsneyti, áfengi og tóbak. Um er að ræða 15% hækkun á áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi, 10% hækkun á bifreiðagjaldi, 10 króna hækkun á almennu bensíngjaldi og 5 króna hækkun á olíugjaldi. Á móti þessu vegur 20% lækkun á kílómetragjaldi auk þess sem endurgreiðsluhlutfall olíugjalds vegna rekstrar almenningsvagna í áætlunarferðum er hækkað úr 80% í 85%.

Nýleg endurskoðun á fyrri spám um þróun ríkisfjármála fyrir árin 2009 til 2013 hefur leitt í ljós að sé ekki gripið til viðeigandi ráðstafana þegar á þessu ári verður halli ríkissjóðs á árinu 2009 umtalsvert meiri en áætlað var og meiri en viðunandi getur talist. Því er talið nauðsynlegt að grípa fyrr en ella til tekjuöflunaraðgerða og sparnaðaraðgerða samhliða því að dregið verði frekar úr útgjöldum ríkissjóðs í framhaldinu. Í ljósi þess er frumvarp þetta lagt fram sem liður í nauðsynlegum aðhaldsaðgerðum stjórnvalda í ríkisfjármálum og í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Með frumvarpinu er lögð til minni hækkun á olíugjaldi en bensíngjaldi til að gera rekstrarumhverfi dísilbifreiða hagstæðara í samanburði við bensínbifreiðar, en dísilbifreiðar eru almennt álitnar umhverfisvænni valkostur en bensínbifreiðar. Þar sem útsöluverð á dísilolíu hefur verið nokkru hærra en útsöluverð á bensíni undanfarin ár hefur ekki orðið sú fjölgun dísilfólksbifreiða sem vonast var til og ætlunin var að stuðla að með upptöku olíugjalds í stað þungaskatts árið 2005. Þá var lagt upp með að það yrði verðmunur á bensíni og olíu því síðartalda í hag, enda bæði um að ræða umhverfisvænni orkugjafa og sparneytnari bílvélar sem nýta orkuna betur þannig að almennt hefur verið talið að það væri hagstætt að stuðla að slíkri þróun. En alþjóðleg verðþróun á þessum vörum hefur hins vegar leitt til þess að innkaupsverð á olíum hefur hækkað meira og eftirspurn í heiminum eftir dísilolíu hefur orðið meiri en reiknað var með og það verð því hækkað umfram verðhækkanir á bensíni.

Eins og segir í frumvarpinu er lögð til lækkun á kílómetragjaldi á móti hækkun á olíugjaldi. Með því er reynt að koma til móts við og tryggja að þessar breytingar hafi ekki áhrif á flutningskostnað með sama hætti og ella yrði og þeim árangri náð með lækkun kílómetragjalds sem þýðir auðvitað nokkurt tekjutap á móti eða upp á um 490 millj. kr. á ársgrundvelli, sú 20% lækkun kílómetragjalds af stórum bifreiðum sem þar er ákveðin.

Enn fremur er lögð til þessi hækkun á endurgreiðsluhlutfalli olíugjalds vegna rekstrar almenningsvagna í áætlunarferðum en ástæða þess er að viðkomandi rekstraraðilar njóta ekki þeirrar lækkunar á kílómetragjaldi sem kveðið er á um í frumvarpinu þar sem kílómetragjald leggst ekki á ökutæki sem er í fólksflutningum. Til að tryggja að almenningssamgöngur verði ekki fyrir íþyngingu af þessum breytingum er því þessi leið farin. Ég held að óhætt sé að fullyrða að í báðum tilvikum er komið vel til móts við viðkomandi aðila þannig að ef eitthvað er muni menn njóta heldur góðs af en hitt þrátt fyrir hækkun olíugjaldsins.

Með því að hækka olíugjaldið minna en bensínið er sem sagt verið að ná fram ýmsum umhverfismarkmiðum og stilla þessa hluti aftur af eins og upphaflega var lagt til þegar lagt var af stað með olíugjald í stað þungaskatts á árinu 2005. Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessum gjaldskrárhækkunum eða því sem þetta frumvarp felur í sér eru áætlaðar um 4,4 milljarða á ársgrundvelli en áhrif þeirra á tekjur ríkissjóðs á þessu ári nema um 2,7 milljörðum kr. Áhrif þessara hækkana á vísitölu neysluverðs eru metin á 0,5%.

Að lokum er rétt að geta þess að samhliða þessu eru til skoðunar breytingar á vörugjöldum af ökutækjum og er það gert á grundvelli skýrslu sem fyrir liggur frá starfshópi um heildarstefnumótun um skattlagningu ökutækja og eldsneytis með það fyrir augum að auka hlut vistvænna og sparneytinna fólksbifreiða. Það sem til skoðunar er sérstaklega er að lækka tolla og aðflutningsgjöld af sparneytnum bílum þannig að endurnýjun bílaflotans verði hagstæðari og beinist frekar í þann farveg að gera innkaup á sparneytnum bílum hagstæðari.

Ég legg áherslu á það, virðulegur forseti, að hér er eingöngu um fyrsta hluta áformaðra aðgerða á þessu sviði að ræða. Næsti skammtur er væntanlegur innan skamms en náttúra þessara breytinga er slík að nauðsynlegt er að gera þær hratt eins og ég veit að allir hv. þingmenn hafa skilning á og þess vegna eru þær settar saman í eitt frumvarp. Innan ekki langs tíma er væntanlegur viðameiri bandormur um ráðstafanir í ríkisfjármálum þar sem meira verður horft til samdráttar- og sparnaðaraðgerða og tekjuöflun, að því marki sem hún verður þar á ferðinni, verður þá vonandi þess eðlis að hún hefur óveruleg eða engin verðlagsáhrif. Það er engin dulur dregin á að það er neikvæður þáttur samhliða þessu máli, þ.e. þau verðlagsáhrif sem þarna eru á ferðinni. En það verður ekki bæði sleppt og haldið og veruleikinn er því miður sá að valið stendur ekki milli einhverra góðra leiða sem hafa engin óþægindi í för með sér heldur eingöngu um ráðstafanir og aðgerðir sem allar eru erfiðar og allar fela í sér í einhverjum mæli íþyngjandi eða erfiða hluti hvort heldur sem er á sviði tekjuöflunar eða sparnaðar og niðurskurðar.

Í þriðja og síðasta lagi mun svo væntanlega koma fram í síðari hluta júlímánaðar skýrsla um áætlun í efnahagsmálum og ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013 með útfærðum leiðum um það hvernig í þær aðgerðir verður ráðist, hver aðlögunarþörf í ríkisfjármálum er, hvernig því er stillt upp á einstök ár og hvernig ætlunin er að ná þeim hlutum fram þannig að markmiðunum um jöfnuð í rekstri ríkissjóðs á árinu 2013 náist. Það verður erfitt og það þarf mikið til og einkum og sér í lagi þarf að stíga gríðarlega stór skref í þeim efnum á næsta og jafnvel þar næsta ári.

Virðulegi forseti. Ég vona að samkvæmt hefðum sem hér ríkja fáist skjót og vönduð afgreiðsla á þessu máli eins og eðli málsins samkvæmt þarf að verða. Ef ég man rétt tók það 80 mínútur í desember sl. að gera nánast algerlega sambærilegt frumvarp að lögum, frá því að fyrir því var mælt 12. desember og þangað til það var orðið að lögum innan við einni og hálfri klukkustund síðar. Ég vil ekki endilega segja að svo hratt þurfi að vinna hlutina í kvöld en ég held að allir skilji að það er mikilvægt að þetta nái fram að ganga og verði að lögum á þessu kvöldi. Undirbúningur er allur á fullri ferð við að framkvæma breytingarnar þannig að allt geti gengið snurðulaust fyrir sig í fyrramálið.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.