Olíugjald og kílómetragjald og gjald af áfengi og tóbaki o.fl.

Fimmtudaginn 28. maí 2009, kl. 23:25:31 (591)


137. löggjafarþing — 11. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[23:25]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er dapurlegt kvöld hér á haustþingi að þurfa að greiða atkvæði um það að … [Hlátrasköll í þingsal.] Ja, það haustaði snemma þetta sumar hjá þessari ríkisstjórn.

Hér er verið að grípa til aðgerða sem hækka verðbólguna, munu hækka skuldir íslenskra heimila um 8 þús. millj. kr. Aðgerð sem mun líka leiða til þess að við munum seinna en ella geta lækkað himinháa stýrivexti Seðlabankans. Það er dapurlegt að horfa upp á þetta. Á meðan stjórnarandstaðan ákallar ríkisstjórnarflokkana um að koma til móts við skuldug heimili og fyrirtæki stendur stjórnarmeirihlutinn á Alþingi að því að hækka enn frekar skuldir íslenskra heimila, heimila sem eru mörg hver að lenda í greiðsluþroti. Ríkisstjórnin er gjörsamlega úr sambandi við raunveruleikann í samfélaginu og því segi ég nei, frú forseti.