Fjármálafyrirtæki

Fimmtudaginn 28. maí 2009, kl. 23:28:44 (593)


137. löggjafarþing — 11. fundur,  28. maí 2009.

fjármálafyrirtæki.

33. mál
[23:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta hv. viðskiptanefndar, sem er að finna á þingskjali 55, um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

Þetta mál, sem er 33. mál þingsins, var tekið á dagskrá með afbrigðum á þriðjudaginn var. Hv. viðskiptanefnd hefur þegar fjallað um það á þremur fundum sínum en það verður að segjast eins og er að sá mikli hraði sem var á þessu máli var gagnrýndur af nefndarmönnum í hv. viðskiptanefnd sem og þeim umsagnaraðilum sem beðnir voru um umsagnir um frumvarpið.

Sú breyting sem kveðið er á um í frumvarpinu lýtur að því að skilanefndum fjármálafyrirtækjanna, gömlu bankanna og þeirra annarra fjármálastofnana sem eru í greiðslustöðvun, verði heimilað, þrátt fyrir að slitaferlið sé hafið með nýjum lögum nr. 44/2009, að greiða skuldir fjármálafyrirtækis eða efna aðrar skuldbindingar þess telji skilanefndin víst að nægilegt fé sé til að greiða að fullu kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð. En hin nýsamþykktu lög gera ekki ráð fyrir að unnt sé að hefja slíkar greiðslur þótt um forgangskröfur sé að ræða fyrr en í fyrsta lagi að loknum fyrsta fundi með kröfuhöfum þegar kröfulýsingarfrestur er liðinn.

Málið snýr annars vegar að launagreiðslum, en bagalegt þykir að ekki sé fyrir hendi lagaheimild fyrir því að greiða laun starfsmanna í uppsagnarfresti. Á það einkum við um fyrirtækin Straum-Burðarás annars vegar og Sparisjóðabankann hins vegar. Hins vegar er um að ræða greiðslur til innlánseigenda Kaupþings í Þýskalandi (Kaupthing Edge) upp á 300 millj. evra sem samið hefur verið um. Ljóst er að ef þær innstæður verða ekki greiddar út fyrr en að loknum fyrsta kröfuhafafundi eftir lok kröfulýsingarfrests, sem mundi vera í nóvember næstkomandi, gætu þessar skuldir fallið á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta.

Hv. nefndarmenn í viðskiptanefnd voru sammála um að það væri eðlilegt að skoða þessar sérstöku aðstæður með jákvæðum hætti en telja nauðsynlegt að takmarka gildissviðið við þetta tvennt, annars vegar við skuldir vegna launa í uppsagnarfresti og hins vegar vegna innlána sem veittur var forgangsréttur með 6. gr. neyðarlaganna nr. 125/2008.

Við teljum brýnt að það verði sem minnst hreyft við þessu ferli og meginreglan eigi eftir sem áður að vera sú að greiðslur fari ekki fram fyrr en fyrir liggur hverjir eru kröfuhafar og hvaða stöðu þeir hafa í kröfuröðinni.

Það verður að viðurkennast að það er ekki auðvelt eða gott að breyta aftur lögum sem eru rétt rúmlega mánaðargömul en þetta er þriðja breytingin sem gerð er á neyðarlögunum sem sett voru við mjög svo óvenjulegar aðstæður í byrjun októbermánaðar síðastliðins. Síðan var þeim breytt aftur í nóvember, aftur í apríl og svo er hér gerð tillaga í fjórða sinnið.

Meiri hlutinn leggur til, í samræmi við það sem ég sagði áðan, þrengingu á frumvarpinu og leggur til að efnisgrein frumvarpsins orðist svo sem rakið er í nefndarálitinu og að við bætist ný grein sem snertir það að lögin öðlist þegar gildi.

Sex umsagnir bárust og við fengum nokkuð marga gesti á fundi nefndarinnar en eftir að nefndin lauk störfum í dag bárust tvær umsagnir til viðbótar og reyndar sú þriðja í kvöld. Með því að allir hv. nefndarmenn í viðskiptanefnd eru sammála um að það sé nauðsynlegt að þetta mál gangi aftur til nefndar leyfi ég mér að leggja til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem nefndin leggur til en að málið gangi aftur til nefndar. Ef það er samþykkt mun nefndarfundur verða boðaður í fyrramálið klukkan níu með gestum.