Frumvarp um þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 10:32:37 (595)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

frumvarp um þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki.

[10:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Á þriðja fundi hv. efnahags- og skattanefndar 22. maí 2009 kom Mats Josefsson fyrir fundinn og fór í gegnum fyrsta mál þingsins, endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægara atvinnufyrirtækja. Hann kom inn á það að hann teldi að það væri æskilegt að gera mjög miklar breytingar á því frumvarpi og í rauninni líta allt öðruvísi á tilgang þess þannig að í stað þess að taka yfir þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki ætti að ráðleggja bönkunum — eftir því sem ég skildi það — að ráðleggja bönkunum varðandi meðhöndlun þessara fyrirtækja en ekki að eiga þau.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort Mats Josefsson hafi þá komið að gerð þessa frumvarps á síðustu stigum því að það kom fram á fundinum að hann hefði í raun ekki séð það fyrr en stuttu áður en fundurinn var og þá í enskri þýðingu og að hann hefði reyndar unnið að gerð þess á fyrri stigum en þá hefði ekki verið tekið tillit til athugasemda hans að fullu. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé sáttur við þessar breytingar sem Mats Josefsson leggur til og hvort það gæti þá verið umræðugrundvöllur fyrir nefndina til að vinna frekar að.