Kjarasamningar og ESB-aðild

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 10:38:59 (599)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

kjarasamningar og ESB-aðild.

[10:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég beini orðum mínum til hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra. Hér voru rædd Evrópumál í gær og þau halda áfram í dag. Þar kom hæstv. ráðherra upp og reifaði lífsýn sína á ástandinu á Íslandi í dag og hvernig það lítur út af hans hálfu og þar kom ýmislegt athyglisvert í ljós. Ráðherrann lítur svo á að við Íslendingar vinnum allt of lengi og berum of lítið úr býtum miðað við núverandi aðstæður sem kannski lýsir því frekar að það er ekki Íslendingum sjálfum að kenna heldur kannski frekar samningaaðilum verkalýðshreyfingarinnar að fólk geti ekki lifað hér á átta klukkustunda vinnuviku.

Það kom einnig fram í máli ráðherra að nú stæðu yfir samningalotur og aðilar vinnumarkaðarins eru komnir að því samningaborði eins og fram hefur komið. Því langar mig til að spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra: Er það rétt sem kom fram í máli hans hér í gær að miðað við núverandi ástand væri ekki hægt að leggja grunn að kjarasamningum þar sem ekki væri fast í hendi hver þróun Alþingis verður varðandi Evrópumálin? Er það svo að aðilar vinnumarkaðarins krefjist þess að aðild að Evrópusambandinu sé skilyrði þess að hér geti verið samið á næstu mánuðum? Eru aðilar ekkert að huga að því að hér eru heimili og fyrirtæki að brenna upp og fleiri þúsundir manna atvinnulausar? Er það Evrópusambandið sem skiptir máli akkúrat á þessum tímapunkti?