Tilraun með erfðabreyttar lífverur

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 10:49:51 (605)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

tilraun með erfðabreyttar lífverur.

[10:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Vissulega vakti það athygli mína að hæstv. umhverfisráðherra gerði það að umtalsefni þegar hún flutti mál sitt hér fyrr í vikunni að Umhverfisstofnun væri að íhuga að lengja leyfisveitinguna. En ókei, ég tek orð hæstv. ráðherra góð og gild um það að hún hafi ekki beitt sér í málinu.

Hins vegar svaraði hún ekki spurningunni hver skoðun ráðherrans væri á því að nýta þessa aðferð til þess að framleiða þessi prótein á Íslandi og þá að nýta erfðabreyttar lífverur í þeim tilgangi.

Jafnframt fékk ég ekki svör við þeirri spurningu minni hvort atvinnustefna ríkisstjórnarinnar byggist á því að bregða fæti fyrir öll stór og góð verkefni sem hér eru í pípunum. Er það atvinnustefna ríkisstjórnarinnar að hindra það að við getum skapað hér fleiri störf á þessum vettvangi og hindra að verkefni af þessu tagi geti orðið að veruleika til þess að við getum skapað meiri gjaldeyristekjur í framtíðinni?