Fyrirtæki í opinberri eigu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 11:03:02 (614)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

fyrirtæki í opinberri eigu.

[11:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég kýs að skilja það svo að hv. þingmaður hafi verið sérstaklega ánægður með svar mitt og var hann hér með miklum gleðibrag þegar hann þakkaði fyrir svarið. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta öðru en leggja á það áherslu að sambúð eigandans í þessu tilviki og síðan þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga er að sjálfsögðu ekki þannig að þó að ríkið tímabundið eigi banka eða að bankar í eigu ríkisins hafi neyðst til að yfirtaka fyrirtæki þá er ekki ætlunin að eigandinn sé að skipta sér af dagsdaglegum ákvörðunum fyrirtækjanna. Eigendastefna á fyrst og fremst að vera hin almenna leiðsögn af hálfu eigandans á almennum forsendum en síðan bera að sjálfsögðu stjórnendur viðkomandi fyrirtækja ábyrgð á framkvæmd, mannaráðningum og öðru slíku og ég geri ekki ráð fyrir því að hv. fyrirspyrjandi (Forseti hringir.) vilji það fyrirkomulag að fjármálaráðherra sé með puttana ofan í því hvernig stjórnendur einstakra fyrirtækja (Forseti hringir.) standa að dagsdaglegum ákvörðunum.