Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 11:06:10 (615)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum áfram aðild að Evrópusambandinu og þær tvær tillögur — ég leyfi mér að tala um þær tvær tillögur sem hafa verið til umræðu frá stjórn og stjórnarandstöðu, þ.e. hluta af stjórn. Það þarf ekkert að undirstrika það. (Gripið fram í: Og hluta af stjórnarandstöðu?) Já, kannski líka ef maður undanskilur Borgarahreyfinguna þá er það líka hluti af stjórnarandstöðu.

Í tillögu ríkisstjórnarinnar kemur hvergi fram af hverju á að sækja um en maður hefur heyrt í gegnum ræðurnar til hvers og mér finnst sá málflutningur minna mig á áróður eða trúboð. Það er í fyrsta lagi fagurgali og loforð. Menn segja: Við þurfum evru, krónan er ónýt. Við þurfum evru, göngum í Evrópusambandið og þá fáum við evru. En samt vita þessir menn að þetta er rangt. Þeir vita þegar þeir segja það að þetta er rangt. Vegna þess að menn fá ekkert evru fyrr en þeir eru búnir að uppfylla Maastricht-skilyrðin. Það vita þeir. Og það gerist, ef menn eru bjartsýnir, eftir svona sjö ár, kannski tíu ár, sumir segja 30 ár. (Gripið fram í: Fimm ár.) Vegna þess að hið ágæta Evrópusamband kúgaði Íslendinga til að taka yfir Icesave-reikningana, þannig að skuldsetning ríkissjóðs verður mjög myndarleg um alla framtíð, um langa framtíð.

Svo segja menn að vextir lækki þegar evran kemur sem gerist ekki strax. Þetta eru loforðin, áróðurinn og fagurgalinn. Það eru mjög mismunandi vextir á evrusvæðinu. Vextir eru ekki alls staðar eins og þeir eru að sjálfsögðu háðir framboði og eftirspurn og trausti manna á viðkomandi gjaldmiðli og viðkomandi ríkisstjórn. Menn þurfa fyrst að byggja upp traust og fyrst verður að minnka eftirspurn eftir lánsfé áður en vextir fara að lækka.

Síðan segja menn að verðlag verði lægra og það byggir aðallega á því að landbúnaðarvörur lækki. En hvað ætla menn að gera fyrir landbúnaðinn í staðinn? Svo tala menn um stöðugleika. Og það er kannski helst það sem ég gæti fallist á.

Svo tala menn um alþjóðahyggju, að við ætlum að vera svo voða alþjóðleg. En það er akkúrat öfugt, við erum að fara inn í lokaðan klúbb. Eftir að við erum gengin inn í Evrópusambandið gerum við ekki samninga við önnur ríki. Danir gera ekki viðskiptasamninga við Kína. Þeir eru ekki sjálfstæð þjóð að því leyti. Þetta er ekki alþjóðahyggja, þetta er svona sveitamennska.

Og svo tala menn um verðtryggingu og meira að segja hæstv. forsætisráðherra, sem er nú ekki viðstödd umræðuna af því að hún er ekki merkilegri en það. Hæstv. forsætisráðherra sagði í gærkvöldi meira að segja að vandamál með verðtrygginguna væri það af því við að hækkuðum hér skatta, að þá hækki lán íbúðareigenda o.s.frv. Og hver er lausnin? Töfrasprotinn, bing, bing, ganga í Evrópusambandið. En það leysir ekki vandann því að við þurfum að leysa verðtrygginguna hvort sem er. Hvað ætla menn að gera við verðtryggðan samning þegar við tökum upp evru? Í samningnum stendur að hann eigi að vera verðtryggður og hann er samningur á milli tveggja aðila og sá sem á kröfuna er ekki sáttur við að geta allt í einu ekki fengið verðtryggingu sem hann treysti á og sætti sig við lægri vexti út af. Menn þurfa því að leysa verðtrygginguna áður en þeir taka upp evru. Vandamálið er alveg nákvæmlega jafnmikið eftir sem áður. Svona fagurgali, áróður og trúboð er ekki sæmandi. Þetta er ekki sæmandi fyrir Alþingi.

Og svo lofa menn undanþágum. Já, já, göngum inn í Evrópusambandið. Þeir hafa ákveðnar reglur en það skiptir engu máli þeir veita okkur undanþágur. Undanþágur varðandi sjávarútveg og varðandi allt það sem við biðjum um. Þetta segja þeir og vita ekki að eiginlega eina undanþágan sem hefur fengist varanleg sem mér er kunnugt um var eitthvert snufftóbak í Svíþjóð. Það getur vel verið að þegar sótt er um Evrópusambandsaðild fái menn undanþágu við sjávarútveg í tíu ár vegna þess að Evrópusambandið hugsar til langtíma en Íslendingar skammtíma, eða þeir sem eru að sækja um. Ég hef aðeins heyrt einn þingmann ræða um málin til langtíma. Allir hinir eru að tala um að redda næstu viku en ekki næstu tveim mánuðum eða kannski næstu tveimur árum. Hjá Evrópusambandinu er hugsað til langtíma og þar segir: Ef við gerum samning við Íslendinga skulum við bara leyfa þeim að veiða fisk í tíu ár. Eftir tíu ár gerum við eitthvað, tökum af þeim fiskinn. Ég hugsa að við fáum líka undanþágu með hákarl. Hann telst skemmdur matur í Evrópusambandinu. Við megum kannski borða hákarl í 15 ár og Vestfirðingar mega borða hnoðmör á laun ef þeir lofa að láta engan vita. En þetta verða undanþágurnar. Ég lofa ykkur því, hv. þingmenn.

Svo segja menn: Þegar við komum þarna inn hættum við að vera hlutlausir þolendur ákvarðana í Evrópusambandinu. Við förum að stjórna — draumurinn að 0,3 milljónir á Íslandi geta farið að stjórna 500 milljónum. Ég bara skil ekki þetta fólk, það er svo veruleikafirrt. Við fáum fimm þingmenn að hámarki af 600 þingmönnum. (Gripið fram í: Sex.) Hér kemur einn draumaprinsinn og vill fá sex og þá ræður hann allt í einu öllu, 1% af öllum þingmönnum. Hann veit ekki einu sinni að þýska atkvæðið vegur miklu þyngra en atkvæði allra hinna (Gripið fram í: Það eru vinir okkar.) vegna þess að Þjóðverjar borga. (Gripið fram í: Það eru vinir okkar.) Nú eru þeir sagðir vinir okkar. Ókei, þeir voru miklir vinir okkar í Icesave-reikningunum, skilst mér. Það voru aldeilis vinir. (Gripið fram í.) Það voru þeir aldrei, þeir kúguðu okkur. Og hvað sagði ekki hæstv. utanríkisráðherra á þeim tíma? Ég læt aldrei beygja mig í svaðið og viku seinna var hann beygður í svaðið. (Utanrrh.: Ég kyssi ekki á vönd kvalara minna.) Hann kyssti ekki á vönd kvalaranna. Og hverjir voru kvalararnir? Það voru Þjóðverjar. (Gripið fram í: Nei, það voru Bretar og þeir voru …)

Menn eru með áróður og trúboð, þeir eru með fagurgala og loforð en þeir eru líka með hótanir. Hér kom meira að segja hæstv. félagsmálaráðherra og sagði: Það verður ekki samið á Íslandi nema við göngum í Evrópusambandið. Svo segja menn að Evrópska efnahagssvæðið sé í uppnámi ef við göngum ekki í Evrópusambandið. Og svo segja aðrir: Við erum ein í heiminum ef við göngum ekki í Evrópusambandið. Það eru engir vinir okkar. Við erum ein í heiminum, hvað eigum við að gera? — Eins og hræddir kjúklingar.

Þetta eru hótanirnar. Svo kemur óðaverðbólgan, hún er náttúrlega þekkt sem hótun. Og svo koma menn með það að ef við ekki göngum í Evrópusambandið flytji allir Íslendingar á brott. Það höfum við heyrt líka. (Gripið fram í: Og þú.) Nema ég og ég held einn í viðbót. (Gripið fram í.) Það er reyndar kona.

Það er sem sagt fagurgali og loforð og hótanir ef menn vilja ekki gera þetta, brottflutningur o.s.frv. Það liggur við að menn ætli að leysa allan vanda með Evrópusambandinu. Það er sama hvort það er heimilisofbeldi, vandamál í umferðinni, vont veður eða hvað það nú er, það er bara að ganga í Evrópusambandið og bingó — allt í lagi. Að láta sig dreyma um þetta og vera að bjóða þetta viti bornum þingmönnum á hv. Alþingi. Þetta er ekki sæmandi. (Gripið fram í.) Ekki með veðrið reyndar. Ég tek það aftur.

Núna þegar ríkisstjórnin stendur frammi fyrir því að bankarnir eru lokaðir, fyrirtækin eru stopp, atvinnulífið fær ekki fjármagn þó að það sé nóg af því í bönkunum o.s.frv. hvað gera menn þá? Út af ákvarðanafælni taka þeir upp hvert málið á fætur öðru til að þurfa ekki að taka á vandanum. Fyrst var það Seðlabankinn, að koma einhverjum manni út úr Seðlabankanum. Það tókst, flott. Svo var það stjórnlagaþing. Það tókst ekki, flott. Það tók þó tíma, menn þurftu ekki að taka á vandanum á meðan. Og nú er það Evrópusambandið. Á meðan eru bankarnir stopp. Og svo á að fara að eyða núna bæði fjármagni sem þjóðin á ansi lítið af og mannskap því að ráðuneytin verða á fullu á næstu tveim, þrem árum að sækja um Evrópusambandsaðild. Allir litlu ráðuneytismennirnir sem dreymir um að fá að vinna í Brussel. Fókusinn fer frá þeim raunverulega vanda sem er við að glíma gagnvart heimilum og fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu yfir á eitthvað allt annað sem hugsanlega leysir vandann eftir tíu, fimmtán ár, hugsanlega. Ég hef enga trú á því reyndar.

Þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar er galopin. Þar er bara sagt: Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að sækja um, ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn. Og hver skyldi gera það? Það er hæstv. utanríkisráðherra samkvæmt stjórnarskránni. Hann fer suður til Brussel og semur. Hann langar svo mikið til að fara þangað inn og það vita allir að hann hefur enga samningsstöðu af því hann langar svo mikið til að fara inn. Og þeir sem eru að semja við hann vita það. Samningsstaðan verður mjög slæm einmitt með því að senda hann.

Svo er enginn tilgangur með tillögunni. Hver er tilgangurinn með þingsályktunartillögunni? Hann er að þjóðin fái tækifæri til að hafna eða samþykkja samning um aðild að sambandinu. Þetta er tilgangurinn. Við getum gert bara hvað sem er og leyft þjóðinni að hafna því eða samþykkja það. Þetta er náttúrlega enginn tilgangur í sjálfu sér. Þetta er fáránleg tillaga.

Svo segir að umsókn sé ekki sama og aðild. Merkilegt nokk, menn ætla að sækja um en þeir ætla ekki að ganga inn. Hvað halda menn að viðræðuaðilar okkar í Brussel haldi þegar þeir lesa þetta? Hér koma menn og ætla að sækja um en þeir ætla ekkert að ganga inn. Þetta er bara í plati. Það stendur þarna. Þetta er í plati. Svo á að skipa faglega viðræðunefnd, það er þekkt. Víðtækt samráð, það er líka þekkt. Aðilar vinnumarkaðarins þekkja það og eru ekkert sérstaklega hrifnir af því.

Svo eru það málsaðilar, stendur hér, málsaðilar áskilja sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum. Hverjir eru málsaðilar? (Gripið fram í.) Hver er málsaðili? Hann er einn því að Alþingi felur ríkisstjórninni að gera þetta. Ríkisstjórnin er málsaðili og/eða utanríkisráðherra. Því samkvæmt stjórnarskránni fer hann með þetta mál. Málsaðilinn er einn og hann ætlar að semja og hann áskilur sér rétt til að hafna eigin samningi því að hann er málsaðili og enginn annar er málsaðili. Hvað halda menn að aðilar úti í Brussel haldi þegar þeir lesa þetta þegar búið er að þýða þetta yfir á ensku, frönsku eða þýsku eða hvað það nú er? Þeir segja: Hvað, hér kominn maður og hann ætlar að semja við okkur og hann ætlar ekki að standa við samninginn. Hvað halda menn? Þetta er náttúrlega bara galið.

Og svo eru, merkilegt nokk, taldar upp einhverjar staðhæfingar þarna, að meðal grundvallarhagsmuna Íslands sé að tryggja forræði þjóðarinnar yfir vatns- og orkuauðlindum. Ég vissi þetta allt saman. Þetta er ekkert merkilegt. Þetta er í engum tengslum við þingsályktunartillöguna. Þetta er bara talið upp þarna. Það hefði alveg eins verið hægt að segja þarna: Þekkt er að sólin kemur upp á Austfjörðum. Þeir hefðu getað sagt það. Einhverjar svona staðreyndir. Það er ekki sagt að það eigi að taka tillit til þessara atriða. Nei, þau eru bara talin upp þarna af einhverjum ástæðum, algjörlega úr tengslum við þingsályktunartillöguna sjálfa.

Sú tillaga sem stjórnarandstaðan leggur fram er um mögulega umsókn og henni lýkur með því að það skuli kannað hvort gengið skuli til aðildarviðræðna. Þetta get ég vel skrifað undir af því það er ekki einu sinni á hreinu að það eigi að gera það. Það byggir á því hvort meiri rök séu með því að ganga inn en á móti. Það finnst mér skynsamlegt. Og líka hvort eigi að leggja það fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort eigi að fara í aðildarviðræður yfirleitt. Það er líka í þessari tillögu. Ég ætla að biðja menn um að lesa þetta.

Þá ætla ég að fara í gegnum ýmis atriði. Vinstri grænir eru í miklum vanda. Þingmenn Vinstri grænna — ég held ég sjái einn, tvo — eru í miklum vanda vegna þess að þeir styðja ríkisstjórnina þ.e. þeir ætla að verja hana vantrausti, en nú er hún að gera hlut sem gengur þvert á stefnuskrá þeirra. Hvað mundi gerast ef í tengslum við þetta mál kæmi fram vantraust á ríkisstjórnina? Hvað mundu þeir gera? Eða eru aðrir hagsmunir meiri en þessir? Ætla menn að segja að það séu meiri hagsmunir en þessir, þ.e. að það séu til meiri hagsmunir sem þeir séu að verja en þeir að afsala sér sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar? (Gripið fram í: Leyfa fólkinu að ráða.) Já, að leyfa fólkinu að ráða. (Gripið fram í.) Hvort það ætli að ganga inn? Já. Eru til meiri hagsmunir? Ég ætla bara að biðja hv. þingmenn Vinstri grænna að segja mér það.

Öll umræða um Evrópusambandið er skammtímahugsun. Ég bið menn um að líta 60 ár aftur í tímann og sjá hvernig Evrópusambandið hefur þróast og hvernig það er að breytast. Það er að breyta fiskveiðistefnunni núna og það getur breytt henni aftur til baka. Það getur breytt öllu. Ef við hugsum næstu 60 ár fram í tímann þá verður þetta pikkfast ríki eftir 60 ár. Við Íslendingar höfum 600 ára reynslu af því að vera í sambandi við ríki suður í Evrópu sem var ekki góð reynsla af. Það er ekki vegna þess að Danir hafi verið vont fólk, heldur höfðu þeir ekki þekkingu eða skilning eða áhuga á vandamálum Íslendinga. Og það nákvæmlega sama verður upp á teningnum þegar við erum gengin inn í Evrópusambandið. Við verðum pínulítill hreppur á jaðri risastórs ríkis og við þurfum að fara að rifja upp eldgamlar bænaskrár frá 17. öld.