Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 11:21:22 (616)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:21]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru náttúrlega ákveðin forréttindi að fá að hlusta á svona ræðu eins og hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Það er ágætur föstudagsgalsi í þessu, meira að segja veðrið er í höfn við það að ganga í Evrópusambandið.

Ég skal hafa það í huga að það er sitthvað að sækja um og sætta sig við samninginn. Um það snýst umræðan í dag og á að snúast. En mig langar að spyrja að gefnu tilefni hv. þm. Pétur H. Blöndal: Hver er peningastefna Péturs H. Blöndals? Hver er peningastefna Sjálfstæðisflokksins? Er hún sú að halda í krónuna eða gera eitthvað annað? Um það snýst m.a. þessi umræða.