Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 11:26:43 (620)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:26]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við höfum rætt um mjög langt skeið í íslensku samfélagi um hvort sækja eigi um aðild að ESB eða ekki. Menn hafa dregið fram kosti og galla aðildar og velt vöngum yfir því hvernig unnt væri að ná samningum ef farið væri í aðildarviðræður. Gjaldmiðilsmálin hafa einnig verið mjög mikið til umræðu, sérstaklega núna í kjölfar bankahrunsins og hafa mjög margar skýrslur verið unnar sem skoðað hafa það mál. Þessar skýrslur hafa verið unnar bæði á vegum stjórnvalda og hagsmunaaðila og ég vil undirstrika að Framsóknarflokkurinn, að öðrum stjórnmálaflokkum ólöstuðum, hefur lagt mesta vinnu í að greina stöðu okkar og gefið út nokkrar mjög vandaðar skýrslur sem fjalla um hagsmuni Íslands og ESB. Þær skýrslur hafa fjallað um gjaldmiðilsmál og samningsmarkmið okkar, um landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál o.s.frv. Við höfum líka ályktað sérstaklega um Evrópusambandsmál á flokksþingi okkar.

Til að víkja aðeins að tillögunni sem við ræðum hér, sem er tillaga ríkisstjórnarinnar, vil ég segja um hana í stuttu máli að hún er að mínu mati alls ekki galin eins og sumir hafa látið liggja að hér í þingsal, en hún er mjög rýr í roðinu. Ég hef spurt sjálfa mig: Af hverju er það? Hún er óvenju rýr í roðinu miðað við umfang málsins og með afar góðum vilja er hægt að túlka það með þeim hætti að það sé e.t.v. hugsun hæstv. utanríkisráðherra, sem ber málið inn í þingið, að hafa hana svona rýra í roðinu og umfangslitla til að skapa meiri möguleika svo að aðrir flokkar geti sett fingrafar sitt á þá vinnu sem fara mun fram í þinginu. Það má því vera að sú hafi verið hugsunin, að koma fram með svona litla og umfangslitla tillögu í því augnamiði.

Í henni er fjallað um að sækja eigi um aðild og svo eru tilgreind nokkur grundvallarhagsmunamál. Ég er sammála þeim grundvallaratriðum sem þar koma fram enda eru það nákvæmlega sömu skilyrðin og framsóknarmenn hafa sett við aðildarumsókn.

Við framsóknarmenn erum einnig með tillögu ásamt sjálfstæðismönnum sem verður reyndar rætt um síðar í dag. Hún er ekki mjög ólík tillögu ríkisstjórnarinnar, það eru ekki himinn og haf þar á milli en það er þó ákveðinn munur á þessum tveimur tillögum. Í tillögu framsóknarmanna og Sjálfstæðisflokks fær þingið miklu veigameira hlutverk en í tillögu ríkisstjórnarinnar. Það er skilgreint miklu betur hvaða hlutverk þingið fær, hvaða málum utanríkismálanefnd á að einbeita sér að. Hún er því mun lýðræðislegri að mínu mati því að þar er meira útfært hvað þingið á að gera.

Einhverjir hafa sagt að tillaga okkar sé tafartillaga en ég vil taka það fram að svo er alls ekki. Í tillögugreininni, í síðustu setningunni, kemur sérstaklega fram að nefndin, og þá er verið að vísa í utanríkismálanefnd, eigi að ljúka framangreindum verkefnum sem allra fyrst og eigi síðar en 31. ágúst 2009. Þarna stendur ekki að þeim eigi að ljúka 31. ágúst 2009 og ekki í síðasta lagi 31. ágúst 2009 heldur í allra síðasta lagi í lok ágúst 2009, þannig að verið er að undirstrika að þetta er ekki tafartillaga.

Ég vil líka benda á eitt, af því að hér hafa sumir hv. þingmenn og þar á meðal sá er síðast talaði, hv. þm. Pétur Blöndal, verið að stríða vinstri grænum svolítið, hvernig geta þeir skrifað undir ríkisstjórnartillöguna, af því að hún er ekki alveg í anda stefnu þeirra flokks? Það eru atriði í tillögu framsóknarmanna og sjálfstæðismanna sem eru ekki alveg í anda Framsóknarflokksins. Ég skrifa samt undir þessa tillögu þó að ég sé þar ósammála einu atriði. Það er atriðið sem er um að það komi til greina að vera með tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Framsóknarflokkurinn ályktaði um það á sínum tíma á miðstjórnarfundi á síðasta ári en við breyttum um skoðun. Við teljum að ekki sé þörf á því. Við erum komin fram hjá þeirri ályktun, ef svo má segja, og teljum að hægt sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu með ákveðnum skilyrðum. Ég skrifa samt undir þessa tillögu þó að ég sé ekki alveg sammála öllu innihaldinu. Það er að sjálfsögðu gert til þess að reyna að nálgast sjálfstæðismenn í þessu máli þannig að við getum staðið saman um þessa tillögu af því að hún er ágæt að öðru leyti.

Ég vil líka koma þeirri skoðun minni á framfæri að það er hægt að vinna að þessu máli þó að það sé mikið hagsmunamál og frekar stórt sem slíkt. Þó að maður eigi ekki að tala of mikið um það er það mín skoðun að hægt sé að vinna að því í stjórnsýslunni og í þinginu og vinna að efnahagsmálum á sama tíma, það er alveg hægt. En það hefur valdið okkur í stjórnarandstöðunni miklum vonbrigðum hvað ríkisstjórnin vinnur, að okkar mati, lítið í efnahagsmálum en það er óháð þessu máli. Ég tel að hægt sé að vinna þessi mál samhliða.

Hér hefur líka verið sagt í umræðunum, hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson, að það væri alveg fráleitt að senda hæstv. ráðherra í þessa för af því að hann muni taka öllu því sem Evrópusambandið réttir að okkur, eins og það hefur verið kallað, og koma heim með slakan samning. Ég held að það sé ákveðin rökvilla að halda því fram. Ég held að hver svo sem fær umboðið til þess að semja, hvort sem það verður hæstv. ráðherra, ríkisstjórnin, einhver í samstarfi við þingið eða hvernig sem það nú verður, muni þeir sem í þessa samningagerð fara leggja sig alla fram um að reyna að ná hagstæðum samningi. Af hverju ættu menn ekki að gera það? Þeir sem koma hingað heim með samning hljóta auðvitað að vilja hafa hann þannig að hann eigi möguleika á að ná í gegn. Ég trúi því t.d. ekki að það muni einhver fara fyrir okkar hönd og semja og koma með slakan samning heim, ég sé það ekki fyrir mér. Ég held einmitt að í þessari stöðu sé mjög nauðsynlegt að fá góðan samning, annars verður hann stráfelldur hér í þjóðaratkvæðagreiðslu og hver vill það? Varla þeir sem fara út til að semja, varla þeir sem leggja mikla áherslu á að við förum inn í Evrópusambandið. Ekki fara þeir að koma hingað með slakan samning, mér finnst það mjög ólíklegt. Mér finnst ákveðin rökvilla í þessum málflutningi.

Virðulegur forseti. Aðeins til þess að skauta hratt yfir forsöguna vil ég nefna að framsóknarmenn ræddu EES-samninginn mjög mikið á sínum tíma og sitt sýndist hverjum og reyndar samfélaginu öllu. Við tókum djarft skref og fórum inn í EES. Það hefur reynst okkur mjög vel og enginn talar um að fara út úr EES í dag.

Framsóknarmenn gáfu út skýrslu árið 2001 um Evrópumál. Árið 2006 hélt Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, mikla ræðu á viðskiptaþingi. Þar lagði hann áherslu á og spáði því að Ísland yrði komið inn í Evrópusambandið 2015. Hann tengdi sína spá aðallega við gjaldmiðilinn og taldi að gjaldmiðilsumræðan yrði ráðandi í umræðunni. Hann nefndi einnig í ræðu sinni að hann undraðist litla umræðu atvinnulífsins um Evrópumálin og tiltók að launþegahreyfingin hefði staðið fyrir þeirri umræðu.

Það hefur breyst síðan og í dag vilja langflestir aðilar atvinnulífsins — ekki allir — fara inn í Evrópusambandið. Ég vil nefna hérna Samtök iðnaðarins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök bankamanna, íslenska stórkaupmenn, Alþýðusambandið. Þeir sem eru helst á móti, ef við getum flokkað aðilana í með og á móti, eru Bændasamtökin, BSRB og LÍÚ, ef ég man það allt rétt. Það hefur því breyst þannig að það má vera að Halldór Ásgrímsson hafi rétt fyrir sér með sína spá, að við verðum komin inn í Evrópusambandið 2015.

Árið 2007 gaf Framsóknarflokkurinn út aðra skýrslu um Evrópumál og árið 2008, þ.e. í fyrra, gáfum við út skýrslu um gjaldmiðilsmál. Það var Jóhannes Geir Sigurgeirsson sem var í forsvari í þeirri nefnd sem vann það verk. Þar er sérstaklega tilgreint að við höfum ekki mjög marga kosti, við höfum tvo kosti, annaðhvort að halda krónunni sem framtíðargjaldmiðli og þá með fjölbreyttari framkvæmd peningastefnunnar og stórefldum gjaldeyrisvarasjóði, eða að taka upp evru. Rökin fyrir því að taka upp evru eru þau að við þurfum nýjan gjaldmiðil sem endurspeglar utanríkisviðskipti þjóðarinnar sem best og þessi alþjóðlegi gjaldmiðill þarf að vera stór. Sá gjaldmiðill sem er besti samnefnari þessara þátta fyrir Ísland er evran. Þessu komst gjaldmiðilsnefnd Framsóknarflokksins að, að þetta væru þær tvær leiðir sem við stæðum frammi fyrir.

Ég hef einnig skrifað grein um evruna og færi þar rök fyrir því að hún sé sá gjaldmiðill sem við eigum að stefna á.

Síðan ákváðum við framsóknarmenn á miðstjórnarfundi 2008 að hafa tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu en féllum svo frá því á flokksþingi 2009. Við samþykktum þá að sækja ætti um aðild að ESB en með ákveðnum skilyrðum sem ég ætla ekki að tilgreina sérstaklega hér.

Það sem er mikilvægast er að fá úr því skorið hvað er rétt, hverju við getum náð fram. Mér finnst að þjóðin eigi rétt á því að fá að vita það. Við eigum ekki endalaust að togast á um eitthvað sem við vitum ekki. Við eigum að fara í þessar samningaviðræður, komast að niðurstöðu um hvað hægt er að fá, hvað er í pakkanum, eins og það heitir. Svo fær þjóðin að velja og segir já eða nei við því hvort hún telur hagsmunum okkar betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins.

Ég tel að norrænt samstarf verði mjög mikilvægt í þessum viðræðum og fagna því að við höfum nálgast Erik Solheim, umhverfisráðherra Noregs, og ég veit að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur rætt við hann. Ég veit einnig til þess að hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, hefur rætt við Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi ráðherra í Noregi, og fleiri aðila. Ég hef sjálf rætt við forsætisráðherra Finnlands um þessi mál í lok síðasta árs og hann er mjög jákvæður gagnvart því að aðstoða Íslendinga í samningaviðræðum og þá kannski sérstaklega gagnvart sjávarútvegi. Ég hef því mikla trú á því að norrænt samstarf geti aðstoðað okkur í því samningsferli sem við erum hugsanlega að fara í.

Nú fer málið til utanríkismálanefndar og hún talar við hagsmunaaðila sem er svo sjálfsagt að það þarf ekki að tiltaka það, það eru hefðbundin vinnubrögð í þinginu. En það væri mjög farsælt ef utanríkismálanefnd getur teygt sig í þá átt að ná sáttum milli stjórnar og stjórnarandstöðu og ræði báðar þessar tillögur, tillögu ríkisstjórnarinnar og tillögu frá Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, og að reynt verði að búa til leið sem felur í sér það besta úr báðum tillögum, ef svo má að orði komast. Að tekið verði tillit til ábendinga stjórnarandstöðunnar, unnið verði faglega að þessu máli og að þingið fái veigameiri sess en við höfum áður séð fyrir okkur í þessu máli. Ég hef mikla trú á formanni nefndarinnar, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni. Ég tel að hann sé afar heppilegur til þess að leiða þetta starf í nefndinni, m.a. vegna þess að hv. þingmaður er úr flokki Vinstri grænna þar sem hverjum sýnist sitt um þetta mál og ég tel að hv. þingmaður hafi það næmi sem þarf til þess að geta náð niðurstöðu.

Ég heiti á utanríkismálanefnd, alla fulltrúana sem eru í henni og hv. formann hennar, Árna Þór Sigurðsson, að leggja mjög mikinn metnað í þetta mál og sýna fagleg og góð vinnubrögð, að draga ekki af sér þar og ná sem víðtækastri samstöðu. Ég held að íslensk þjóð eigi rétt á því að við förum í þessar samningaviðræður til þess að útkljá hvað í boði er. Hver ætti að vera á móti því að útkljá það? Þá sjáum við sannleikann, hver hefur rétt fyrir sér, hvað er í boði. Síðan fær þjóðin sjálf að gera það upp við sig, hver og einn í sínu hjarta: Er svarið já, þetta er góður samningur, eða er svarið nei, þetta er slakur samningur?

Eins og þið heyrið sem hafið hlýtt á mál mitt tel ég að við eigum að sækja um aðild til að komast á þann stað að við getum svarað og gert upp við okkur hvort er betra að vera innan eða utan Evrópusambandsins.