Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 11:45:56 (623)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þarf ekki að teygja mig neitt, ég er sammála skilyrðum Framsóknarflokksins í öllu nema hugsanlega einu. Ég er hugsi yfir einu skilyrði sem mér finnst ganga skemur en EES-samningurinn, en þær viðræður sem ég hef átt við framsóknarmenn bera það með sér að þeir hafa líka skilning á því.

Í þeirri tillögu sem Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa lagt fram eru tvö verkefni. Það er annars vegar að búa til vegvísi og verkefni þess vegvísis eru rakin á bls. 2 í greinargerð. Þau verkefni eru þannig að engan tíma tekur að ljúka þeim, það er bara spurning um ákvarðanatöku. Það eru ýmsir valkostir uppi í ýmsum efnum, það er engin spurning um að velja úr þeim.

Í öðru lagi að því er varðar síðan hitt verkefnið, sem er að setja saman greinargerð um mikilvæga hagsmuni, vill svo til að allir stjórnmálaflokkarnir hafa sett saman greinargerð um mikilvæga hagsmuni. Allir stjórnmálaflokkarnir hafa dregið ramma sem nánast má fella saman eins og mismunandi skapalón. Allir stjórnmálaflokkarnir virðast vera þeirrar sömu skoðunar hverjir grundvallarhagsmunirnir eru og síðan er spurning um hvernig beri að útfæra það. Ekki má heldur gleyma því að af þeim 35 köflum sem við þurfum að semja um má heita að niðurstaða liggi fyrir kannski um 22 vegna þess að við erum aðilar að EES. Við erum búin að vera aðilar í 15 ár. Við þekkjum þetta, erum búin að taka upp um 65 gerðir. Ef maður skoðar t.d. sjávarútvegsmálin kemur í ljós að varlega áætlað eru kannski 90%, hugsanlega 95% af öllu því sem samþykkt hefur verið þess eðlis að við getum gengið að því.

Það eru ákveðnir hlutir sem út af standa, þeir varða landbúnað. Við höfum séð hvernig Evrópusambandið náði samkomulagi við aðrar Norðurlandaþjóðir, það samkomulag fer ansi langt með að duga okkur. Ákveðnir hlutir tengjast sjávarútvegi og þar höfum við líka á takteinum ýmsar snjallar lausnir sem ekki hafa verið notaðar áður vegna þess að Ísland hefur sérstöðu sem ekkert aðildarland hefur, þ.e. það á enginn sameiginleg landamæri. (Forseti hringir.) Það skapar möguleika sem við getum útfært með hugvitssamlegum hætti. Ég á því fulla von á því að okkur takist (Forseti hringir.) að ná góðri samstöðu um þessar tillögur tvær.