Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 11:52:40 (626)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:52]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson þurfi ekkert sérstaklega að fara hjá sér við þau orð sem hér voru sögð. Það er nefnilega svo heppilegt að í sama manni kemur margt saman að þessu sinni. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur unnið á mjög fjölbreyttu sviði í stjórnsýslunni, á sveitarstjórnarstiginu og í þinginu, hefur verið langdvölum í Brussel og kynnt sér aðstæður þar. (Gripið fram í: Og í Rússlandi.) Og í Rússlandi, já, ekki má gleyma því. Ég tel því að hv. þingmaður hafi ákveðna yfirsýn sem mun nýtast mjög vel í starfi utanríkismálanefndar einmitt í þessu máli.

Ég held að það sé líka svolítið heppilegt í þeirri stöðu þegar ríkisstjórn kemur fram með þingsályktun sem er af þessu kalíberi eða þessari þyngd, þetta er auðvitað stórt og þungt mál, og það er ráðherra úr Samfylkingunni sem ber kannski meginábyrgð á málinu í ríkisstjórninni, að þá sé það fulltrúi úr Vinstri grænum sem er formaður utanríkismálanefndar, sem er flokkur sem hefur miklar efasemdir og ekki bara miklar efasemdir heldur er eiginlega í hjarta sínu á móti Evrópusambandinu. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson með sína víðtæku reynslu, kemur úr flokki sem er á móti, hv. þingmaður þarf að sitja svolítið á girðingunni, ef maður má svo að orði komast, og taka tillit til beggja sjónarmiða. (Gripið fram í: ... ekki mjög lengi.) Nei, nei, það má ekki sitja kannski of lengi á girðingunni en þetta er staðan. Ég tel því að það sé svolítið farsælt að vera með málin svona uppteiknuð í máli af þessari tegund, sem er umsókn að Evrópusambandinu.

Ég tel að það sé vilji og það blasir við að auðvitað er það vilji Framsóknarflokksins að ná niðurstöðu í utanríkismálanefnd sem er á þeim nótum að sótt verði um, (Forseti hringir.) menn fari í viðræðurnar en með ákveðnum skilyrðum. Það er stefna okkar. Auðvitað viljum við ná henni fram.