Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 11:55:05 (627)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:55]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Í umræðum um þetta mál hafa menn farið um víðan völl. Ég ætla að reyna að nálgast umræðuna frá örlítið öðru sjónarmiði en hingað til hefur verið gert og spyrja út í það á hvaða forsendum ríkisstjórnin vilji sækja um aðild að Evrópusambandinu. Fyrst er til að taka að draga má þá ályktun eðlilega og setja fram að sú tillaga sem hæstv. ríkisstjórn hefur borið upp sé gerð í þeirri fullvissu og trú að ríkisstjórnin telji sig færa um og treysti sér til að ganga til samninga við Evrópusambandið, ljúka þeim farsællega og markmiðið með þingsályktunartillögunni sé það að Ísland komist sem fyrst í hóp þeirra ríkja sem mynda Evrópusambandið. Ef við erum sammála um að þetta sé markmiðið með málflutningnum getum við aðeins farið að spá í það hversu raunhæft þetta er. Ljóst er að á þeirri vegferð sem ríkisstjórnin vill leggja í eru fyrirsjáanlega nokkrar hindranir sem miserfitt verður að stíga yfir. Því miður er ekki í greinargerð þingsályktunartillögunnar að finna umfjöllun eða svör í mörgum atriðum sem kallað er eftir.

Fyrst er til að taka að stjórnarskrá Íslands heimilar ekki, að mati flestra fræðimanna, aðild Íslands að Evrópusambandinu. Því er eðlilegt að spurt sé hvort umsókn um aðild sé heimil á grunni stjórnskipunar okkar. Hver svo sem niðurstaða lögspekinga verður í þeim efnum er engu að síður ljóst að í væntanlegum aðildarviðræðum verða samningamenn Íslands a.m.k. að fara til viðræðnanna með ríka fyrirvara á allri sinni vinnu. Í fyrsta lagi á eftir að gera breytingar á stjórnarskrá Íslands og í öðru lagi á eftir að leiða í lög ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu. Spyrja má hvort þeir fyrirvarar séu ekki þess eðlis að trúverðugleiki samningamanna okkar verði dreginn í efa. En hvernig svo sem úr því spilast hlýtur það að vera bæði eðlilegt og fullkomlega sjálfsagt að hæstv. ríkisstjórn svari landsmönnum því áður en allt þetta ferli hefst í þessu mikilvæga máli hvenær og þá með hvaða hætti fyrirhugað er að breyta stjórnarskránni til að geta fullnustað þann vilja sem opinberast í þessari þingsályktunartillögu ríkisstjórnarflokkanna. Hver eru tímasett áform ríkisstjórnarinnar um nauðsynlegar breytingar á stjórnskipuninni?

Í máli hæstv. fjármálaráðherra í umræðum um málið á Alþingi í gær kom fram að ekki væri ætlast til þess að þingmenn samþykktu greinargerðina með ályktunartillögunni. Vil ég þakka honum sérstaklega þá hugulsemi að leiða hv. alþingismenn í þann stóra sannleika. Engu að síður hlýtur greinargerðinni að vera ætlað að skýra út vilja ríkisstjórnarinnar um framgang tillögunnar. Því miður er þar margt óljóst, þar á meðal um þau stóru atriði sem lúta að breytingu á stjórnarskrá og lagasetningu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér þætti eðlilegt að í greinargerð með máli af því tagi sem hér er til umræðu væri með afar skýrum hætti gerð grein fyrir þessum grundvallaratriðum, en svo er ekki. Talsmenn þingsályktunartillögunnar hafa heldur ekki, ekki einn einasti þeirra, séð ástæðu til þess að gera þau grundvallaratriði að umtalsefni í umræðunni.

Einnig liggur fyrir að mati þeirra sem vel þekkja til Evrópusambandsins að samkvæmt núgildandi eða núverandi stofnsáttmála sambandsins verður aðildarríkjum þess ekki fjölgað. Mér fróðari menn fullyrða að engar ákvarðanir um frekari fjölgun aðildarríkja verði teknar fyrr en afdrif svokallaðs Lissabon-sáttmála verði ljós. Áformað er að laugardaginn 31. október í haust gangi Írar að kjörborði þar sem þeir taka afstöðu til Lissabon-sáttmálans í annað sinn. Því nefni ég þetta hér að úrslit þeirrar atkvæðagreiðslu hljóta óhjákvæmilega að hafa áhrif á fullnustu þeirra áforma sem ríkisstjórnin hefur um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ef Írar fella sáttmálann má telja nokkuð víst að ekki verði um frekari fjölgun aðildarríkja Evrópusambandsins að ræða í bráð. Að auki má gera ráð fyrir að ef niðurstaðan verður þessi hafi það óhjákvæmilega í för með sér að átök og innanbúðarerjur innan Evrópusambandsins muni magnast til mikilla muna.

Ef svo færi hins vegar að írska þjóðin samþykkti Lissabon-sáttmálann segja þeir sem best þekkja til að Evrópusambandið muni taka verulegum breytingum í þá átt að vart verði lengur um ríkjasamband að ræða, miklu frekar og fremur verði um að ræða að Evrópusambandið verði nokkurs konar lögpersóna eða sambandsríki. Það hefði í för með sér frekari dýpkun og samruna ríkjanna innan vébanda Evrópusambandsins og þá á kostnað áhrifa hvers og eins aðildarríkis. Ef það gerist og þær hugleiðingar leiða óhjákvæmilega hugann að því ákvæði í samstarfssáttmála núverandi ríkisstjórnarflokka þar sem rætt er um fyrirætlun ríkisstjórnarinnar um frekari jöfnun atkvæða hér á landi. Eins og kom fram í ágætri grein Vífils Karlssonar í Morgunblaðinu 17. maí sl. mun Ísland eiga um það bil hálfan þingmann á Evrópuþinginu ef vægi atkvæða yrði þar jafnað að fullu. Spyrja má hvort það séu áform ríkisstjórnarinnar að í væntanlegum aðildarviðræðum verði gerð þessi sama krafa um jafnt atkvæðavægi þjóða á Evrópuþinginu. Ef ekki á þá bara að gera þessa kröfu um kosningar til Alþingis Íslendinga en ríkisstjórnin mun í aðildarviðræðum fara fram á að misvægi atkvæða gildi áfram á Evrópuþinginu.

Ég vil einnig nefna í þessu sambandi varðandi mögulegar hindranir á leið ríkisstjórnarinnar í átt að Evrópusambandinu að ýmsir af forustumönnum sambandsins hafa sett fram fyrirvara á aðild fleiri ríkja að sambandi Evrópuríkja. Þar má sérstaklega vísa til yfirlýsinga sem hafðar hafa verið eftir forseta Frakklands. Ekki er heldur langt síðan Þýskalandskanslari lét hafa það eftir sér í fjölmiðlum að ef Þjóðverjar fengju einhverju um það ráðið væri Króatía eina ríkið sem fengi aðild í bráð að Evrópusambandinu. Vafalaust má halda því fram að Ísland eigi þann sama möguleika og Króatía en engu að síður sýnir þetta ágætlega þau viðhorf sem eru ofarlega á baugi meðal ráðandi ríkja Evrópusambandsins.

Jafnframt má minna á umfjöllun í erlendum fjölmiðlum sem vitnað hefur verið til í umræðunni um þetta mál á Alþingi og lýtur að því að víða erlendis er því haldið fram í fjölmiðlum að umsókn Íslands að Evrópusambandinu byggi á eiginhagsmunasemi.

Meiri fyrirstöðu við málið er þó að finna hér innan lands. Að flestra ef ekki allra dómi sem rætt hafa þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar er umsókn Íslands um Evrópusambandið eitt allra stærsta mál sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir frá stofnun lýðveldisins. Ef litið er fram hjá dæmigerðum pólitískum orðaskylmingum hafa flestir sem hér hafa talað enn fremur lagt mikla áherslu á það að nauðsynlegt sé að ná sem mestri sátt og samstöðu um allt ferlið frá upphafi til loka, ekki einungis á hinu háa Alþingi heldur einnig í þjóðfélaginu. Lítum þá á stöðuna í þeim efnum.

Samfylkingin er heil og óskipt að baki tillögu ríkisstjórnarinnar. Vinstri grænir fara eins og köttur í kringum heitan graut og greinilegt er að sá flokkur er ekki heill í stuðningi við eigið mál. Borgarahreyfingin hefur gert þrjá fyrirvara á stuðningi sínum við málið og enn er óljóst hvort ríkisstjórnin muni kaupa þá til stuðnings. Þingflokkar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks eru andvígir tillögu ríkisstjórnarinnar og hafa gert tillögu um aðra nálgun á málinu.

Af þessari upptalningu má ljóst vera að á Alþingi ríkir ekki sá eindregni meirihlutastuðningur sem flestir vonuðust eftir að gæti náðst um svona viðamikið og mikilvægt mál. Í þjóðfélaginu er ástandið svipað. Skoðanakannanir leiða í ljós mismunandi mikinn stuðning eða andstöðu við aðildarumsókn og einnig sveiflast andstaðan eða stuðningurinn við aðild milli kannana. Hin ýmsu hagsmunasamtök hafa mismunandi afstöðu til aðildar en sérstaklega mikil andstaða er innan landbúnaðarins og sjávarútvegsins. Mat mitt á þeirri stöðu sem við blasir, hvoru tveggja á Alþingi og sömuleiðis úti í þjóðfélaginu, er það að sú tillaga ríkisstjórnarinnar til þingsályktunar sem liggur fyrir leggi ekki þann grunn að nauðsynlegri og langþráðri niðurstöðu í þessu magnaða máli sem hefur verið rætt svo lengi, svo víða, svo oft og mikið að sumum þykir nóg um.

Þegar öllu er á botninn hvolft má álykta í þá veru að hagsmunum Íslands við mat á kostum og göllum aðildar megi skipta í fernt:

1. Aðgangur að innri markaði Evrópusambandsins. 2. Yfirráð yfir náttúruauðlindum. 3. Gjaldmiðill og myntsamstarf. 4. Fullveldi.

Mat á innbyrðis vægi þessara hagsmuna mun á endanum ráða úrslitum um hvort fýsilegt verður fyrir Íslendinga að gerast aðilar að Evrópusambandinu og þá ekki síður hvernig þessum hagsmunum verður raunverulega borgið annars vegar innan Evrópusambandsins og hins vegar utan þess.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ítrekaði þann 27. mars sl. þá afstöðu sína að það væri andstætt hagsmunum Íslands að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Ef Alþingi eða ríkisstjórn kæmist hins vegar að þeirri niðurstöðu að sækja bæri um aðild að Evrópusambandinu var það skoðun landsfundarins að fram ætti að fara þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun á grunni skilgreindra markmiða og samningskrafna. Skoðun landsfundarins var einnig sú að hugsanlegar niðurstöður úr samningaviðræðum ætti ávallt að bera undir þjóðaratkvæði.

Hugmyndin um svokallaða tvöfalda atkvæðagreiðslu hefur m.a. verið andmælt af formanni Samfylkingarinnar með þeim orðum að tvöföld atkvæðagreiðsla hafi lítinn tilgang þegar þjóðin veit ekki hvað í boði er með aðild að Evrópusambandinu. Um þessa afstöðu vil ég segja eftirfarandi: Hún er afstaða gærdagsins. Hvers vegna tekur Evrópusambandið ekki við umsóknum um viðræður um aðild? Hvers vegna skyldi það vera að einungis er tekið á móti umsóknum um aðild? Jú, það er vegna þess að Evrópusambandið gerir ráð fyrir því að lysthafendur hafi kynnt sér öll helstu gögn um starfsemi sambandsins, stofnsáttmála þess, laga- og dómasöfn og margt fleira. Þessi gögn eru öllum aðgengileg og því er litið svo á að aðildarskilmálar Evrópusambandsins séu væntanlegum aðildarríkjum að fullu kunnir í öllum megindráttum áður en til viðræðna kemur. Evrópusambandið lítur með öðrum orðum þannig á eins og eðlilegt er að umsóknarríkið hafi metið kosti og galla aðildar áður en viðræður hefjast. Umsóknarríkið leiti eftir aðildarviðræðum til að ljúka samningum þar að lútandi og meti stöðu sína þannig að ávinningurinn af aðild sé meiri en tap við aðild að sambandinu.

Íslendingar eru upp til hópa ágætlega upplýst þjóð. Þeir sem vilja hafa aðgang að flestum þeim sömu upplýsingum og alþingismenn hafa aðgang að, m.a. í því máli sem hér er til umræðu. Hinn almenni borgari á þar af leiðandi álíka mikla möguleika og hinn kjörni fulltrúi til að fræðast um og móta sér afstöðu til málefna líðandi stundar. Þess vegna má líta á tillögu um tvöfalda atkvæðagreiðslu um þetta mál sem tillögu um það að íslensk stjórnvöld fari að laga starfshætti sína að þeirri kröfu tímans sem birtist þjóðinni á liðnum vetri. Það var krafan um aukið lýðræði og aukin áhrif hins almenna borgara á ákvarðanatöku á öllu stigum mála. Hvers vegna, ef ekki í þessu stærsta máli þjóðarinnar frá lýðveldisstofnun eins og menn ræða oft, ættu stjórnmálamenn ekki að horfast í augu við þann veruleika sem við blasir og viðurkenna kröfu tímans um aukið lýðræði? Tillaga ríkisstjórnarinnar kemur að þessu leytinu til ekki til móts við strauma nýrra tíma. Þjóðinni er ekki gefið færi á því að taka með ákveðnari hætti þátt í helstu ákvörðunum í því ferli sem ríkisstjórnin lét setja af stað þegar í stað. Því miður er þetta mikilsverða mál sett á dagskrá losaralega undirbúið og því ekki svo búið um hnútana að stuðli að sem víðtækastri sátt með þjóðinni.

Sú tillaga sem þingflokkar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram og verður rædd í þinginu síðar í dag gefur alþingismönnum færi á því að þetta mikilvæga mál verði fært úr þeim átakafarvegi sem það hefur verið fært í síðastliðna tvo áratugi. Tillaga stjórnarandstöðunnar miðar að því að tryggja faglega almenna umfjöllun um alla meginhagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið áður en Alþingi tekur ákvörðun í þessu gríðarlega mikilvæga máli. Þingsályktunartillaga Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er tillaga um að Alþingi vinni að þessu stærsta máli í sögu lýðveldisins í takt við kröfu tímans, í takt við þjóðina.