Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 12:42:39 (634)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka þá ágætu og málefnalegu umræðu sem hefur verið um það mikilvæga þingmál sem hér liggur fyrir og ég vil lýsa mínum eindregna stuðningi við. Ég fagna því sérstaklega að komin er fram stjórnartillaga í þinginu þrátt fyrir að hjá öðrum stjórnarflokknum gæti efasemda um Evrópusambandið og andstöðu almennt um það að við tökum hið mikilvæga skref að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fá úr því skorið hvaða kostir okkur bjóðast í þeim viðræðum.

Ég held líka að það sé gríðarlega mikilvægt að um þetta takist þverpólitísk sátt í þinginu og sem allra flestir geti komið hér að, að okkur takist að lyfta þessu máli upp úr skotgröfum flokkanna og setja það í sem mestri samstöðu í lýðræðislegan farveg sem lyktar með því að almenningur á Íslandi fær úr því skorið hvaða kostir bjóðast og getur tekið afstöðu til þess.

Það liggur einfaldlega fyrir að ríkur vilji er hjá íslenskum almenningi, ríkur meirihlutavilji til þess að þannig sé farið að. Ég held að það yrði að mörgu leyti frelsun fyrir flokkana, þá ekki fyrir Samfylkinguna en ýmsa aðra stjórnmálaflokka þar sem deilur um þetta málefni hafa skipt mönnum í hópa innan flokkanna. Það yrði að mörgu leyti frelsun fyrir flokkana til að ná þessu máli upp úr þeim farvegi.

Þess vegna held ég að það væri mikilvægur áfangi ef okkur tækist að vinna málið þannig í utanríkismálanefnd að sú tillaga sem hér liggur fyrir gæti hugsanlega tekið einhverjum breytingum er tækju mið af sjónarmiðum í tillögum tveggja stjórnmálaflokka á þinginu, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, ef það gæti orðið til þess að skapa algjöra einingu um umsóknina. Ég held að slík eining væri gríðarlega mikilvæg fyrir okkur, bæði í viðræðunum og alþjóðlega séð, vegna þess að við Íslendingar þurfum á því að halda núna að sýna það bæði inn á við í landinu, þ.e. stjórnmálaforustan, og út á við að á þessari ögurstundu í lífi þjóðarinnar sé stjórnmálaforusta sem geti hafið sig upp yfir karp og hversdagsþrætur og sameinast um að setja brýn álitaefni í lýðræðislegan farveg og leiða þau með þeim hætti.

Ég vil þó segja að að því leyti sem vísað er til tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu í tillögu þessara tveggja flokka þá tel ég að það sé algjörlega útilokað að huga að þeim þætti því hvort tveggja er tímaþáttur málsins sem auðvitað er mjög brýnn en um leið hitt að þjóðin verður að hafa það fyrirliggjandi hvað það er sem hún á að taka afstöðu til. Það verður aðeins gert að loknum aðildarviðræðunum, auk þess sem það getur veikt samningsstöðu okkar. Það er mikilvægt að við höfum sterka samningsstöðu í þessum mikilvægustu viðræðum lýðveldissögunnar. Það getur einfaldlega veikt samningsstöðuna að fyrir liggi þjóðarvilji um aðildarumsókn í allsherjaratkvæðagreiðslu þegar farið er að semja við sambandið.

Ég lýsi þeirri skoðun minni að ég hef fyrir fram ákaflega jákvæða afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu en auðvitað að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ég held að það sé engin þjóð í raun og veru eins vel í stakk búin til þess, eða fáar þjóðir, því við höfum átt í nánu samstarfi við Evrópuþjóðirnar og í gegnum EES-samninginn tekið upp býsna mikið og eigum býsna náið samstarf þar. Sá samningur er ein af þeim ástæðum fyrir því að við eigum að gerast fullgildir aðilar að Evrópusambandinu.

Það sem hefur gerst á umliðnum árum og áratugum er að fyrirtækin í heiminum stækka og markaðirnir í heiminum stækka. Heimurinn minnkar og samskipti milli þjóða aukast hratt og stig af stigi. Við, 300.000 manna þjóð, höfum gerst aðili að gríðarlega stórum markaði, mörg hundruð milljóna manna markaði. Það er einfaldlega skoðun mín að við eigum að vera aðilar bæði að hinu lýðræðislega skipulagi sem sett er yfir þennan markað og að þeim félagslegu stofnunum sem menn skipuleggja yfir þennan markað. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að ég er í grundvallaratriðum bæði lýðræðissinni og félagshyggjumaður. Þess vegna er það djúp sannfæring mín að við eigum utan um þann markað sem við störfum á að skipuleggja félagskerfið og margháttaða samvinnu og yfir hana lýðræðisskipulag til þess að við megum njóta farsældar.

Hver er ástæðan fyrir því? Ástæðan fyrir því er sú að markaðir bresta. Markaðir og hin frjálsa samkeppni getur gengið ákaflega vel og skilað okkur miklum framförum. En með reglubundnum hætti bresta markaðir. Þess vegna er það að við höfum skipulagt félagskerfi yfir markaði og lýðræðiskerfi til þess að geta tekið á því.

Hvað var það sem gerðist hjá okkur í haust? Það varð hrun. Ég held að við höfum fundið tilfinnanlega fyrir því. Hér voru fyrirtæki vaxin stjórnkerfi okkar, lýðræðisskipulagi okkar og eftirlitskerfi langt yfir höfuð. Kannski með svipuðum hætti og varð á Sturlungaöld og endaði með hruni þar. Við eigum af því að læra að við eigum að verða hluti af því sambandi, því lýðræðislega samstarfi og stjórnkerfi sem hefur verið byggt upp í Evrópu utan um þetta með því að gerast aðilar að Evrópusambandinu á þeirri forsendu auðvitað að við fáum sanngjarnan samning.

Ég er líka jákvæður gagnvart aðild að Evrópusambandinu af menningarpólitískum ástæðum. Það er einfaldlega svo, eins og hér hefur verið vísað til og við þekkjum, að við höfum tengsl bæði austur og vestur yfir hafið. Ég tel hins vegar að sögulega og menningarlega liggi samleið okkar fyrst og fremst með Evrópuþjóðunum og við eigum að taka þá menningarpólitísku afstöðu að við viljum vera virkir og fullgildir þátttakendur í samstarfi evrópskra þjóða og í lýðræðislegu starfi evrópskra þjóða vegna þess að það er tiltekið menningarsvæði og fyrir því eru pólitískar ástæður.

Ég er líka jákvæður gagnvart aðild að Evrópusambandinu vegna þess að Evrópusambandið er fyrst og fremst hugsjón um frið. Það er sett á stofn til að ryðja úr vegi hindrunum yfir landamæri til að auka samskipti og viðskipti á milli þjóða og binda þjóðirnar þannig hagsmunatengslum sín á milli sem gerir það að verkum að ekki verði stríð á meðal þeirra. Það er auðvitað einhver mesti og stærsti ávinningurinn sem við höfum af starfi Evrópusambandsins þann tíma sem það hefur starfað og mestu varðar fyrir langtímahagsmuni álfunnar. Við eigum að taka fullan og eindreginn þátt í því. Líka vegna þess að á hinum alþjóðlega vettvangi er Evrópusambandið friðarafl í þeim alþjóðlegu hagsmunum þar sem við eigum mest undir sem eru umhverfismálin, loftslagsmálin, hlýnun andrúmsloftsins og hinar skelfilegu afleiðingar sem það getur haft í för með sér. Þar hefur Evrópusambandið einnig hina pólitísku forustu um að vekja þjóðir heims til vitundar um málið og fara fyrir í því að ná um það alþjóðlegum samningum. Við eigum einnig að vera þar samverkamenn þjóðanna á meginlandinu og starfa með þeim að slíkum markmiðum en ekki einangra okkur hér. Þetta eru nokkur af þeim langtímasjónarmiðum sem ég vil lýsa í málinu. Einnig eru sjónarmiðin um efnahagsmálin. Vissulega eru ýmis skammtímasjónarmið í efnahagsmálunum eins og vísað hefur verið til. Kannski sérstaklega það að aðildarumsóknin, að ég tali nú ekki um aðild, mun auðvitað auka trúverðugleika Íslands og íslensks efnahagslífs um leið og af öðru hvoru verður, ef af verður.

En efnahagslegu ávinningarnir eru fyrst og fremst langtímamál. Vegna þess að staðreyndin er einfaldlega sú að okkur hefur, ekki bara nú hin síðustu missiri heldur um margra áratuga skeið, verið það um megn að skapa efnahagslegan stöðugleika á Íslandi. Til að reyna að leysa úr því höfum við byggt upp hin flóknustu kerfi, m.a. kerfi um verðtryggingar og víxlverkanir sem nokkuð var til umfjöllunar á þingfundi okkar í gær, til að reyna að lifa með stöðugleikanum og þó er það ekki hægt. Annmarkarnir á hagsveiflunum hér, hinar slæmu afleiðingar fyrir áætlanagerð fyrirtækja, fyrir langtímauppbyggingu atvinnulífs og fyrir áætlanagerð heimila eru öllum löngu kunnir og ljósir, fyrir nú utan hitt sem ég hygg að allir geti fallist á, að sá gjaldmiðill sem við höfum notast við hefur reynst íslenskum almenningi bæði erfiður og dýr. Hér hefur löngum verið mikil verðbólga. Verðtrygging lögð á almenning og einhverjir hæstu raunvextir í heimi með tilheyrandi áhrifum á lífskjör skuldsetts fjölskyldufólks þó í því kunni að hafa falist ákveðinn ábati fyrir aðra hópa í samfélaginu.

Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur, til langs tíma efnahagslega séð, að verða hluti af efnahagskerfi Evrópusambandsins, að myntbandalaginu og eiga aðild að seðlabanka Evrópu til lengri tíma litið. Vegna þess að það eru einmitt slíkar stofnanir sem skipta máli þegar á bjátar þegar markaðir hrynja eins og við fundum fyrir í haust.

Þetta eru sannarlega ekki töfralausnir. Það er ekki þannig að maður sendi bréf til Brussel og gangi í Evrópusambandið og þar með séu verkefni okkar almennt leyst um alla framtíð. Þó að Ítalía sé í Evrópusambandinu er mafía þar enn þá. En það er hins vegar þannig, að ég hygg, að nokkuð betur gangi að halda við einhverjum stöðugleika þar í efnahagslífinu og eiga við hin efnahagslegu verkefni með evruna að gjaldmiðli heldur en það var með þeirri líru sem fyrir löngu varð heimsfræg rétt eins og íslenskur efnahagur varð nú í haust.

Það er einnig svo að við eigum og viljum vera hluti af þessu nána evrópska samstarfi vegna þess að á næstu árum og áratugum mun það eitt gerast að viðskipti og samskipti okkar við þessa helstu markaði okkar munu aukast ár frá ári og áratug frá áratug. Börnin okkar munu sækja menntun sína þangað jafnvel í ríkari mæli en verið hefur. Þau munu leita starfa í ólíkum löndum á þessum hundruð milljóna markaði vegna þess að þau hafa rétt til þess. Fólk giftist í ríkari mæli yfir landamærin, fjölskyldur verða þannig evrópskar og við viljum líka hafa áhrif á það hvernig allt það samfélag til lengdar mun þróast.

Ég bind miklar vonir við það að sú málefnalega umræða sem hefur farið fram um málið í þessa tvo daga gefi okkur góða von í utanríkismálanefnd um að vinna okkar næstu daga og vikur geti skilað okkur góðri samstöðu og bætt málið ef það er hægt.