Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 12:58:02 (635)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:58]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu ríkisstjórnarflokkanna um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Ég skil tillöguna þannig að ríkisstjórnin fái svo til opið umboð til viðræðna og útkoman verði svo lögð í dóm kjósenda.

Afstaða mín til aðildar að Evrópusambandinu er sú að ég tel hagsmunum þjóðarinnar betur borgið utan sambandsins en innan. Mín skoðun er sú að það þjóni ekki hagsmunum íslensks landbúnaðar að ganga inn í Evrópusambandið og það þjóni ekki hagsmunum íslensks sjávarútvegs að ganga þar inn. Sú staðreynd að atvinnuleysi er fast í sessi í aðildarríkjum Evrópusambandsins fellur mér ekki í geð.

Mikil umræða hefur skapast í þjóðfélaginu um aðild að Evrópusambandinu í kjölfar bankahrunsins. Það er eðlilegt enda eru allir Íslendingar að keppast við það að finna lausnir á þeim efnahagsvanda sem við Íslendingar höfum ratað í. Í raun hefur öll umræðan um Evrópusambandið snúist um gjaldmiðilsmál en ekki um innviði sambandsins og ekki um allt hitt sem fylgir með.

Staða krónunnar er veik og því eðlilegt að rætt sé um hvaða stefnu við eigum að taka varðandi peningamálastefnuna. Staðreyndin er hins vegar sú að til þess að geta tekið upp evru með aðild að Evrópusambandinu þurfum við að uppfylla Maastricht-skilyrðin. Það gerum við ekki í dag og ég tel að það séu reyndar allir sammála um að við eigum að uppfylla þessi skilyrði. Þetta eru góð skilyrði og ákveðið heilbrigðisvottorð um að efnahagslífinu gangi vel. En það tekur langan tíma að ná því markmiði á Íslandi og þess vegna er ekki rétt að halda því fram að aðild að Evrópusambandinu sé einhver töfralausn sem komi til með að vera lykillinn að því að við komumst upp úr þessari efnahagslægð. Því miður er það ekki svo að lausnin sé svona einföld. Slík töfralausn er ekki til og við verðum að tala hreint út um þetta mál. Ýmsir talsmenn þess að við göngum inn í Evrópusambandið tala með allt öðrum hætti. Vekjum ekki falskar væntingar hjá fjölda manns hér í samfélaginu og það er rangt að beita slíkum málflutningi. Við verðum að tala um málin eins og þau eru.

En þrátt fyrir andstöðu mína við aðild að Evrópusambandinu skil ég þá þörf sem íslenska þjóðin hefur fyrir svör. Ýmsir þeir talsmenn sem tala með þessum hætti að aðildin sé eina rétta lausnin hafa skapað þær aðstæður að fólkið í landinu þarf að fá skýr svör um kosti og galla aðildar. Menn hafa jafnframt haldið því fram að eina vonin til að ná samningum við aðila vinnumarkaðarins sé aðild. Eina vonin fyrir heimilin sé að ganga þarna inn. Eina vonin fyrir atvinnulífið og í rauninni bara eina vonin fyrir einhverja tilveru hér í landinu. Það er ekki boðlegur málflutningur. En af þeim ástæðum, vegna þarfa fyrir skýr svör tel ég mig geta verið aðili að þeirri þingsályktunartillögu sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram í samvinnu við framsóknarmenn um vandaða málsmeðferð að gerð greinargerðar um mikilvægustu hagsmuni Íslands og um gerð vegvísis í málinu. Grundvallarmunurinn á tillögum okkar og tillögum ríkisstjórnarinnar felst í því að þegar niðurstaða utanríkismálanefndar liggur fyrir samkvæmt tillögu okkar er gert ráð fyrir því að Alþingi ákveði næstu skref, þ.e. hvort gengið skuli til aðildarviðræðna við Evrópusambandið eða eftir atvikum hvort sú ákvörðun verður borin undir íslensku þjóðina. Þetta er grundvallarmunur og í því felst stærsti munurinn á þessum tveimur tillögum.

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið talað um undanþágur og allar þær undanþágur sem okkur Íslendingum kunna að bjóðast og komi til með að bjóðast í þessum viðræðum. Við þekkjum reynslu annarra landa og við þekkjum hvaða undanþágur þau hafa fengið. Reyndar eru talsmenn ríkisstjórnarinnar alls ekki sammála um hvaða undanþágur eru í boði. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í gær að hann teldi að engar slíkar undanþágur væru í boði. Hann sagði jafnframt að menn ættu ekki að fara í einhverjar þykjustuviðræður heldur alvöruviðræður. Þess vegna skýtur það svolítið skökku við og maður áttar sig einfaldlega ekki á því hvort Samfylkingin stendur ein að þessari tillögu eða hvort Vinstri grænir eru þar með.

Vandamál Íslands verða einfaldlega leyst á Íslandi. Það verður erfitt. Við þurfum að gera þetta sjálf. Evrópusambandið er ekki einhver töfralausn sem kemur til með að koma okkur út úr þessu. Við Íslendingar erum duglegt fólk, kraftmikið fólk, sem komum til með að komast upp úr þessu með því að treysta á einkaframtakið og með því að treysta á okkur sjálf og okkar eigin kunnáttu. Evrópusambandið kemur ekki til með að leysa þetta fyrir okkur.