Undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 14:03:28 (643)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[14:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem er 1. flutningsmaður tillögunnar, óskaði eftir því að menn tækju hér með málefnalegum hætti þátt í umræðu um hana. Það ætla ég að gera. Þess vegna ætla ég ekki að falla í sömu gryfju og hv. þingmaður gerði sjálfur undir lok ræðu sinnar sem var ákaflega ómálefnalegt af honum. Ég ætla ekki að eyðileggja þessa umræðu með því að svara honum um Icesave. Það er tóm vitleysa sem hv. þingmaður segir en við skulum ræða það síðar.

Það sem ég vil segja er að það er algjörlega hárrétt hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að í svona mikilvægu máli þarf víðtækt samráð. Það samráð þarf að ná um allt samfélagið til allra hagsmunasamtaka en hér innan þings þarf samráðið líka að ná til allra stjórnmálaflokka, ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það.

Hann sagði í framsögu sinni áðan að sú þingsályktunartillaga sem hann flytur ásamt öllum öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar væru viðbrögð við þeirri tillögu sem ég mælti fyrir í gær. Það finnst mér ágætt. Mér finnst þetta vera góð tillaga. Nú hefur mér gefist tími til þess að tyggja hana, melta og sofa á henni og finnst hún að mörgu leyti mjög góð. Það er eitt atriði sem ég felli mig kannski ekki algjörlega við í henni. Lykilatriðin í þessari tillögu eru þau að með henni er beinlínis lagt til að utanríkismálanefnd verði falið það hlutverk að tryggja að meginhagsmunir Íslands í aðildarviðræðum fái fullnægjandi faglega umfjöllun áður en ákvörðun um aðildarumsókn er tekin. Ég er því algjörlega sammála.

Þarna tel ég hins vegar að því sé slegið föstu að menn séu að búa sig undir aðildarumsókn. Það er niðurstaðan í þessu, reyndar er það heiti þessarar tillögu. Það kemur fram að flutningsmenn í greinargerð skýra hana út með þeim hætti að markmið þeirra sé að ná víðtækri sátt um málið í þjóðfélaginu. Um hvað ætla menn að ná víðtækri sátt? Það hlýtur að vera um umsókn um aðild að Evrópusambandinu þannig að ég fagna því alveg eins og ég fagna yfirlýsingu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í gær.

Í þessari þingsályktunartillögu eru tvenns konar verkefni sem flutningsmenn vilja fela utanríkismálanefnd. Fyrra verkefnið er að setja saman greinargerð um mikilvægustu hagsmuni Íslands í aðildarviðræðum um Evrópusambandið. Ég tel að það sé alveg hið prýðilegasta mál og tel að það muni ekki taka mikinn tíma. Hvers vegna? Af tveimur ástæðum:

Í fyrsta lagi vegna þess að á síðustu missirum hefur einvala lið úr hópi stjórnmálaflokka og atvinnulífsins verið sett í tvær nefndir til þess að draga einmitt þetta saman. Þessi gögn liggja að verulegu leyti fyrir, þó hugsanlega ekki að öllu leyti. Það sem skiptir meira máli varðandi þetta er að allir stjórnmálaflokkarnir hafa fjallað ítarlega um málið innan sinna flokksstofnana. Allir stjórnmálaflokkarnir hafa á þessum vetri lokið landsfundum eða flokksþingum þar sem þeir hafa mótað afstöðu til þess með hvaða hætti nálgast eigi málið en líka hvernig beri að skilgreina og hverjir eru grundvallarhagsmunirnir. Grundvallarhagsmunirnir liggja fyrir í þeirri ágætu tillögu sem stjórnarandstöðuflokkarnir tveir hafa lagt fram, markaðir með svipuðum hætti í þingsályktunartillögunni sem ég mælti fyrir í gær. Það er sjálfsagt mál að menn setjist niður og vinni saman að því að búa til samningsmarkmið á þeim grundvelli.

Í öðru lagi er verkefnið það að vinna vegvísi að mögulegri aðildarumsókn. Það verður ekki erfitt verk. Það vill svo til að þeir ágætu þingmenn sem að þessari tillögu standa hafa lýst því í sex atriðum hver verkefnin eru sem eigi að leysa í þessum vegvísi. Þau ganga m.a. út á að taka ákvarðanir um tiltekna hluti. Í sumum þeirra eru vissir valkostir þar sem stjórnarflokkar og stjórnarandstöðuflokkar þyrftu að ræða og ná samkomulagi um. Ég tel að ef ég og nokkrir hv. þingmenn mundum setjast niður yfir kaffibolla mundum við fara ansi langt með það en auðvitað vinnum við ekki málið þannig. Það verður væntanlega utanríkismálanefnd sem fjallar um það. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að þau tvö verkefni sem þarna eru lögð fyrir utanríkismálanefnd séu góð og að það taki ekki langan tíma að vinna þau. Það er sjálfsagt að vinna þau í sameiningu.

Hverjir eru hagsmunir mínir sem utanríkisráðherra? Það kom fram í svari við fyrirspurn eins hv. þingmanns Framsóknarflokksins í gær. Ég var spurður: Hvort telur utanríkisráðherra að það sé betra að ganga til samninga við Evrópusambandið með nauman þingmeirihluta að baki eða breiðan, jafnvel samstöðu? Það er engin spurning í mínum augum að að sjálfsögðu eru hagsmunir Íslands fólgnir í því að okkur takist hér innan Alþingis að ná sem víðastri samstöðu. Ég hef lýst því yfir alveg eins og hv. þingmaður, formaður utanríkismálanefndar, hefur ítrekað sagt sjálfur að menn vilja gera það sem hægt er til þess að ná þessari breiðu samstöðu, við viljum ganga langt til þess. Ég tel að við eigum að hafa náið samráð við stjórnarandstöðuflokkana, ekki bara um undirbúninginn heldur líka þegar leiðangurinn sjálfur hefst. Þá þurfum við að hafa mjög ítarlegt og varanlegt samráð við þingið alveg eins og við fulltrúa hagsmunasamtaka utan þings um það hvernig loka beri hinum einstöku af þeim 35 köflum sem tengjast þessum samningaviðræðum. Það verður aldrei farið í samningaviðræður um neinn kafla án þess að ráðgast sé við þá nefnd eða þann hóp sem þingið telur að eigi að vera fulltrúi þess í þessum viðræðum og sömuleiðis eftir þær. Því lýsti ég kannski ekki svona nákvæmlega vegna þess að mér vannst ekki tími til þess í gær en það er vilji minn. Þetta vil ég gera, svona vil ég vinna það. Ég vil miklu frekar hugsa taflið alveg til enda og það sem vakir fyrir mér er að þegar upp er staðið, hvernig sem þjóðaratkvæðagreiðsla kann að leggjast í þessu máli, geti allir gengið frá málinu án þess að skilja eftir flakandi undir á samfélaginu. Það finnst mér skipta mjög miklu máli.

Þá kem ég að því atriði sem ég er kannski ekki að öllu leyti sáttur við en það er tímasetningin. Það kemur fram í 2. tölulið tillögunnar að þessum verkefnum eigi að vera lokið eigi síðar en 31. ágúst. (Gripið fram í.) Menn hafa talað um það hér — og þá hafa kannski helst menn úr mínum röðum ekki talað nógu virðulega um þessa tillögu, svo ég vísi í mat hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar — að þarna sé verið að slá því föstu að verkefnum eigi að vera lokið 31. ágúst. Ég les auðvitað orðin á undan, „eigi síðar“, þ.e. um leið og menn hafa gengið frá þessum verkum eru þeir til í að sækja um, ekki satt?

Af hverju er ég áfram um að klára þetta eins og ég hef sagt bæði við formenn stjórnarandstöðuflokkanna og sagt hér í ræðustóli? Ég er áfram um að ljúka þessu máli helst fyrir lok júní, helst ekki síðar en í fyrstu viku júlí og ég skal segja mönnum af hverju. Áður en ég lagði fram þessa tillögu ráðgaðist ég við menn hér heima og líka erlendis. Ég ráðgaðist við utanríkisráðherra allra helstu vinaþjóða okkar, þ.e. Norðurlandaþjóðanna. Án þess að ég vilji fara út í hvað okkur fór á milli var niðurstaða mín sú að hagsmunum okkar varðandi umsókn yrði best borgið ef hægt væri að koma henni inn á þeim tíma þegar sú þjóð sem er í hópi okkar öflugustu vina af langri fortíð, þ.e. Svíar, tekur við forustunni í Evrópusambandinu. Ég hef rætt þessi mál við Carl Bildt. Ég hef rætt þessi mál við fleiri og ég er þeirrar skoðunar að hagsmunum Íslands væri best borgið ef okkur tækist að koma þessari umsókn til afgreiðslu þar þannig að undir forustu Svía væri hægt að ganga frá henni á desemberfundi leiðtoganna. Þá gætu samningaviðræður síðan hafist, ef svo verkast vill, í upphafi næsta árs og mundu standa eftir því sem því ári yndi fram. Það er ástæðan fyrir því að ég vil ljúka málinu sem fyrst og það er ástæðan fyrir því að ég óska eftir samvinnu við alla flokka á Alþingi um hvort mögulegt sé að ná fyrir því sterkum meiri hluta, að uppfylltum viðhorfum og forsendum þingsins, til þess að geta lokið því með þessum hætti.

Frú forseti. Þetta er í stórum dráttum afstaða mín til þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir og ég hef orðið við þeim tilmælum hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem er 1. flutningsmaður hennar, að reifa þetta málefnalega. Ég tel sem sagt að eftir þær umræður sem hér hafa staðið með litlum sleitum í hartnær tvo daga sé miklu skemmra á milli manna (Gripið fram í.) og flokka en menn töldu kannski þegar lagt var af stað til umræðunnar og ég og minn flokkur greiddum fyrir því að þetta mál stjórnarandstöðunnar yrði tekið á dagskrá með afbrigðum. Ég á kannski sök á því sem hv. þm. Sigmundur Davíð skammaðist út af við forseta áðan, kannski átti ég sök á því að óska eftir því a.m.k. við suma af mínum félögum að þeir drægju sig til baka til þess að þessi umræða gæti átt sér stað í dag, að menn gætu lokið henni og þessi mál færu saman til nefndar. Ég tel að menn eigi að reyna að þætta saman meginásana í báðum þessum tillögum. Það held ég að sé hagsmunum Íslendinga í þessu mikla máli fyrir langbestu.