Undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 14:35:05 (656)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[14:35]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel það vera almenna reglu að fólk eigi alltaf að vanda sig, í smáum málum sem stórum, og auðvitað þarf að vanda sig í þessu stóra og mikla máli. Sumum okkar finnst nauðsynlegt að skrifa það nákvæmlega niður hvað þurfi að gera, öðrum þykir liggja í hlutarins eðli að fólk vandi sig. Þess vegna tel ég að margt í þeirri tillögu sem hér er mælt fyrir sé sjálfsagður hlutur og hljóti að vera unnið í utanríkismálanefnd. Mig langar samt sem áður að benda á annað sem mér finnst svolítið kostulegt í málflutningi sjálfstæðismanna. Hv. þm. Bjarni Benediktsson segir, réttilega, að 27 þjóðir þurfi að samþykkja samninginn. Við þurfum ekki bara að semja við Evrópusambandið, það er alveg hárrétt. Ég þekki ekki dæmi þess að nein þjóð hafi hafnað slíkum samningi til þessa en ég bendi á að á hinn bóginn sjá þingmenn Sjálfstæðisflokksins ofsjónum yfir því að Evrópusambandið sé að verða sambandsríki. Núna er mjög erfitt af því að við þurfum að semja við 27 þjóðir. En svona er þetta, Evrópusambandið er samvinna þjóða, ekki sambandsríki eins og Bandaríkin.