Undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 14:36:38 (657)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[14:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ábendingarnar. Mér finnst mikilvægt að það sé alveg skýrt vegna þessarar þingsályktunartillögu að ég lít svo á að ekki dugi að vísa henni til bara utanríkismálanefndar og fella hana þannig einhvern veginn inn í störf nefndarinnar samhliða hinum þingmálunum. Nei, þeir sem flytja þetta mál ætlast til þess að utanríkismálanefnd afgreiði tillöguna til þingsins og þingið taki afstöðu til þess hvort þetta er málatilbúnaðurinn sem menn fara fram á að verði lagður hinu málinu til grundvallar. Það er það sem málið snýst um, að það fari ekki bara til utanríkismálanefndar og verði grautað saman við hina tillöguna, heldur að það verði afgreitt og staðfest á þinginu að það er svona sem þingið vill standa að málinu.

Varðandi Evrópusambandið sem sambandsríki er auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni að Evrópusambandið er ríkjasamband með þessum hætti. Það breytir hins vegar ekki hinu að meira að segja heilu þinghóparnir á Evrópusambandsþinginu hafa stefnu, eins og t.d. European People's Party, EPP, um að Evrópusambandið eigi að þróast yfir í sambandsríki. Sú umræða er lifandi og hún er raunveruleg, og það er ríkur vilji hjá mörgum til að þróa Evrópusambandið meira í þá átt. Núna síðast er Lissabon-sáttmálinn til vitnis um að fyrstu einkenni þess að menn sjái glitta í einhvers konar sambandsríki eru að birtast þó að ég haldi því ekki fram að Evrópusambandið sé orðið að slíku í dag.