Undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 15:03:19 (666)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var nefnilega nokkuð gott sem hv. þingmaður endaði hér með vegna þess að í raun má segja að tillaga stjórnarandstöðuflokkanna tveggja gæti verið lýsing á vinnuferlinu í utanríkismálanefnd við vinnuna við hitt þingmálið. Hún gæti allt eins verið það. Hún gæti allt eins verið það, að segja: Það er þetta sem utanríkismálanefnd á að gera í vinnunni við hitt þingmálið. Þegar þessi vinna liggur fyrir þá er hægt að taka ákvörðun.

Það hefur aldrei staðið til af hálfu stjórnarflokkanna að taka ákvörðun um stjórnartillöguna fyrr en að lokinni vinnu í utanríkismálanefnd. Það hefur aldrei staðið til að hún kæmi til atkvæða fyrr en nefndarvinnunni væri lokið. Og nefndarvinnan getur m.a. falið í sér það sem tillaga stjórnarandstöðuflokkanna leggur til að verði gert. (BJJ: Styðurðu það?) (SDG: Ertu samþykkur því?)

Ég hef sagt að ég vilji vanda vinnubrögðin við vinnuna í utanríkismálanefnd. Ég hef greint hv. þingmanni, (Gripið fram í.) formanni Framsóknarflokksins, frá þeim hugmyndum sem ég hef um vinnulag í nefndinni. Það hef ég líka gert gagnvart formanni þingflokks Borgarahreyfingarinnar og boðið formanni Sjálfstæðisflokksins upp á fund um sama efni sem hann hefur að vísu ekki séð sér fært að þiggja enn þá en ég vona að það verði nú áður en yfir lýkur.

Ég tel að í þessu liggi viss kjarni, að tillaga stjórnarandstöðuflokkanna tveggja gæti sem sagt verið lýsing á þessu vinnulagi og þegar þeirri vinnu nefndarinnar er lokið komi fram nefndarálit með einhverri tillögu um málsmeðferð, t.d. tillögu um að samþykkja þá tillögu sem hér liggur fyrir, annaðhvort óbreytta eða breytta með lýsingum í nefndaráliti um hvernig vinnuferlarnir ættu að ganga fyrir sig o.s.frv. Þess vegna segi ég það og meina það einlæglega að ég tel að hægt sé (Forseti hringir.) að flétta þessar tillögur saman.