Undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 15:12:15 (670)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Um fyrra atriðið, tímann, hvort rétti tíminn sé núna, þá er spurning mín til hv. þingmanns hvort hún muni beita sér í hv. utanríkismálanefnd fyrir því að málinu verði frestað. Að það verði bara hreinlega saltað og sagt: Við skulum taka þetta upp eftir tvö ár, því þá er betri tími til að taka það upp. Það breytir engu varðandi evru og annað slíkt vegna þess að við uppfyllum Maastricht-skilyrðin nákvæmlega jafnhratt eftir sem áður, hugsanlega hraðar ef við förum að taka á vandanum. (ÁÞS: Vill ekki þingmaðurinn að þetta verði ekki seinna en í ágúst?) Gert er ráð fyrir að það verði kannað hvort farið verður í aðildarviðræður yfirleitt, þannig að hugsanlega fella menn það. Ég ætla að spyrja hv. þingmann að þessu.

Síðan varðandi það að hún ætli hugsanlega að fara inn og hugsanlega ekki, hún sveiflast á milli þess, ég hugsa að margir séu þannig. Segjum nú að sótt verði um og gengið yrði að öllum skilyrðum, það undur gerðist að Evrópusambandið mundi bara hlusta og segja: Íslendingar eru rosalega skynsamir, við ætlum að breyta öllu okkar kerfi fyrir þá. 500 milljónir manna mundu bara breyta öllum sínum strúktúr og öllu Evrópusambandinu eins og Íslendingar vildu hafa það. Mundi þá hv. þingmaður ganga inn?

Þá vil ég biðja hv. þingmann að skoða reynslu síðustu 60 ára, hvernig Evrópusambandið hefur breyst og fara í söguskoðun. Og hugsa síðan 60 ár fram í tímann, hvernig það muni breytast áfram, breytast í pikkfast ríki og hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér Ísland sem pínulítinn hrepp í risastóru ríki og muna svo eftir því að í sögubókunum lærði hún um það að Íslendingar voru í 600 ár í sambandi við ríki í Evrópu og það var dapur tími get ég upplýst hv. þingmann um.