Undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 15:15:23 (672)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:15]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir ágæta ræðu og málefnalega. Ég get um margt tekið undir með hv. þingmanni í málflutningi hennar, sérstaklega hvað varðar þann dapurlega atburð sem átti sér stað hér í gærkvöldi þegar ríkisstjórnin ákvað að hækka lán skuldugra heimila um 8.000 millj. kr., hækka verðbólguna í ofanálag, sem mun leiða það af sér að við munum geta lækkað stýrivexti mun síðar en ella hefði orðið. Það sem gerðist hér í gærkvöldi voru mjög dapurlegir atburðir, og eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir benti á greiddi hver einasti stjórnarliði atkvæði með þeirri óhæfu sem átti sér stað í gærkvöldi.

Í dag óskar ríkisstjórnin eftir því að hver og einn þingmaður stjórnarandstöðunnar og stjórnarinnar fylgi afstöðu sinni í þessu máli. Það er því holur tónn, frú forseti, í lýðræðismálflutningi ríkisstjórnarinnar þegar kemur að þessum málum.

Við hv. þingmaður erum hjartanlega sammála um að það þurfi að taka góðan tíma til að fara yfir það mikilvæga mál sem Evrópumálin eru. Við höfum lagt hér fram í fullri einlægni þingsályktunartillögu sem kveður á um það að utanríkismálanefnd eigi að fá góðan tíma til þess að fara yfir málið og við höfum rætt um tímafresti allt til loka ágústmánaðar, enda er hér jafnvel um að ræða eitt stærsta hagsmunamál í sögu lýðveldisins.

Í ljósi þess að við leggjum til að algjör þingræðisleg meðferð verði hér með aðkomu allra flokka með rúmum tímaramma spyr ég hvort hv. þingmaður gæti verið reiðubúin til að samþykkja þá þingsályktunartillögu sem við ræðum hér.