Undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 15:20:46 (676)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Einu sinni þegar ég var pistlahöfundur á Ríkisútvarpinu flutti ég pistil um það hvernig við mundum sem þjóð einhvern tíma ákveða að sækja um aðild að Evrópusambandinu, við mundum væntanlega gera það í flýti á sumarþingi eftir einhverja katastrófu. Ég vona að þingheimur hafi skilning á því að mér finnst dálítið fyndið að standa núna sem þingmaður og vera að ræða það á sumarþingi í flýti hvort það eigi ekki alveg örugglega eftir katastrófu að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Ég hef að mörgu leyti skilning á þessum flýti og er í hjarta mínu sammála því að við eigum að fara í þetta ferli, sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég tel það einfaldlega mikilvægt vegna þess að mér finnst að þjóðin eigi að fá tækifæri til þess að taka afstöðu í þessu máli, þessu stóra máli sem við höfum rætt í þjóðfélaginu mjög lengi. Framsóknarflokkurinn hefur ályktað að hann styðji það að farið verði í aðildarumsókn en hann setur líka kröfu um að það verði gert á réttan hátt, að við vitum í hvað við erum að fara og við skilgreinum samningsmarkmið, setjum skilyrði fyrir því hvers konar samning við viljum fá.

Ég tek ekki undir að núna liggi sérstaklega á að senda inn umsóknina vegna þess að bara það að senda inn umsóknina muni leysa mjög aðkallandi efnahagsleg vandamál sem blasa núna við í samfélaginu. Ég held t.d. ekki að þegar bréfið fer til Brussel muni höfuðstóll íslenskra lána lækka, ég held ekki að þá þegar muni vextir lækka, ég held ekki að þá þegar muni atvinnuleysi minnka. Ég held að það sé með öðrum orðum afskaplega mikilvægt að við gerum okkur fulla grein fyrir því að þó að aðildarumsóknin fari jafnvel í júlí og það verði Svíi sem taki á móti henni, og allt, munu þessi vandamál ekki hverfa og við þurfum að ræða þau. Það er algjört lykilatriði.

Ég hef hins vegar skilning á því að við eigum að flýta okkur í þessu máli vegna þess að við þurfum einmitt að verja tíma frekar í að ræða þessi mál sem ég tíundaði hér, atvinnuleysið, vextina, verðtrygginguna, skuldastöðu heimilanna og hvernig við ætlum að takast á við það í bráð, og það fljótt og það vel.

Gott og vel, ég segi að það sé að mörgu leyti skynsamlegt að fara í aðildarviðræður og það geti legið á af ákveðnum orsökum, en að því sögðu verðum við líka að hafa í huga að við erum ekki að ræða hér efnislega hvort þjóðin eigi að gerast aðili að Evrópusambandinu. Sú ákvörðun bíður og við verðum að gera okkur grein fyrir því að það getur orðið mjög langt þangað til sú ákvörðun verði sett í hendur þjóðarinnar. Það getur vel verið að það standi jafnvel upp á aðra ríkisstjórn en þá sem nú situr að gera það. Það gerðist t.d. í EES-málinu, það var ein ríkisstjórn sem ákvað að hefja það ferli en önnur ríkisstjórn sem lauk því. Það getur orðið langt þangað til. Við skulum ekki blekkja okkur neitt í þessu máli, í því felst ekki nein sérstök töfralausn á aðkallandi vanda íslenskra heimila og fyrirtækja.

Þess vegna er líka skiljanlegt að út af því að við erum ekki að ræða efnislega um það hvort þjóðin eigi heima í Evrópusambandinu eða ekki og að margir telja að samningur verði að vera fyrirliggjandi áður en afstaða sé tekin til þeirrar spurningar séum við hér einungis að ræða um hvernig við eigum að standa að umsókn að Evrópusambandinu. Um það snýst tillagan sem við erum að ræða hér núna. Hún kemur fram vegna þess að í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar, að hluta eða í heild, kemur ekki nægilega vel fram hvernig menn sjá fyrir sér að þetta ferli verði. Hér er um mjög skiljanlega tillögu að ræða og það hefur komið fram í máli bæði formanns utanríkismálanefndar og hæstv. utanríkisráðherra að þeir hafa djúpan og ríkan skilning á þessari tillögu. Hún snýst bara um það að utanríkismálanefnd geri greinargerð um helstu hagsmuni Íslendinga og hver samningsmarkmiðin eigi að vera í viðræðum við Evrópusambandið ef til þeirra viðræðna kemur. Hún snýst líka um það að við ætlum að gera vegvísi, ef til viðræðna kemur, þar sem tilgreint er hvernig við ætlum að meðhöndla væntanlegan aðildarsamning, hvernig hann verður lagður fyrir þjóðina, hver upplýsingaskyldan verður við þjóðina, hvernig þetta ferli verður. Þetta eru mjög skiljanlegar kröfur.

Mér finnst mjög undarlegt að heyra þau sjónarmið, en þau hafa sem betur fer ekki farið hátt, að þetta sé á einhvern hátt óskynsamlegt ferli. Því hefur verið fleygt hér í umræðunum að menn telji jafnvel skynsamlegra að setja þessi samningsmarkmið eftir á og jafnvel að þau séu á einhvern hátt leynileg eins og hefur komið fram í máli sumra, jafnvel hæstv. ráðherra. Ég held að það sé mjög skynsamlegt að við reynum eftir fremsta megni að setja áður niður þessi samningsmarkmið og við áttum okkur á því hver ferill málsins verði á undan og svo tökum við ákvörðun um það og hver greiðir atkvæði samkvæmt sinni samvisku um það hvort við sækjum um aðild að Evrópusambandinu. Mér finnst þetta vera hið rétta ferli.

Við flutningsmenn þessarar tillögu segjum að þetta ferli eigi að geta gengið hratt og vel fyrir sig. Við segjum að í allra síðasta lagi 31. ágúst verði þessari vinnu lokið. Við erum ekki að tefja málið, hreint ekki, og ég held að þessi umræða hafi sýnt að þó að einhverjir hafi verið á þeirri skoðun í gær að við værum að tefja málið hafa þær skoðanir ekki skotið rótum í stjórnarliðinu.

Ég vek líka athygli á því að hér erum við ekki að gera tillögu um að það verði stofnuð einhver ný nefnd, það er bara hv. utanríkismálanefnd sem fjallar um þetta mál og því er í raun og veru ekkert því til fyrirstöðu að álykta, eftir að hafa hlustað á alla þessa umræðu í dag og í gær, að í raun og veru sé komin niðurstaða, a.m.k. tímabundið. Ef maður les í orð hv. formanns utanríkismálanefndar og orð hæstv. utanríkisráðherra heyrist mér sem þeir séu reiðubúnir til að láta þetta verða verklagið í umfjöllun þingsins um þetta stóra mál, láta verklagið verða það sem birtist í tillögu stjórnarandstöðuflokkanna, að gerð verði greinargerð fyrir helstu hagsmunum Íslands og hver samningsmarkmiðin eigi að vera og það verði gerður vegvísir um það í hvaða ferli umsóknin á að fara. Þá er eðlilegt að maður spyrji: Er ekki komin þessi sátt um málsmeðferðina að sinni og er það ekki gott dagsverk?

Ólafur Ragnar Grímsson, hæstv. forseti Íslands, bað um að við reyndum að vinna þetta mál í sátt. Ég er stoltur af því að tilheyra þeim stjórnmálaflokki sem hefur haft forgöngu um það á þinginu í samvinnu við annan stjórnarandstöðuflokk að við setjum þetta mál, a.m.k. að sinni, í farveg sem getur orðið til þess að sátt skapist. Þá er kannski bara ástæða til að vitna að lokum í annan Ólaf Ragnar, sem ekki er hæstvirtur, a.m.k. ekki að sinni, en er starfsmaður á plani, og segja: Þarf þá að ræða það eitthvað frekar?