Undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 15:40:19 (678)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:40]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjuefni hér í þinginu að menn skuli ræða tvær tillögur í þá veru hvort og hvernig sækja eigi um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Við erum í þeirri stöðu, Íslendingar, að við þurfum að leita okkur að pólitískum og efnahagslegum bandamönnum og það er skoðun mín að þá sé frekar að finna í Evrópu en annars staðar.

Þessar tvær tillögur eru ólíkar að því leyti að tillaga framsóknarmanna og sjálfstæðismanna gengur út á það að skoða með hvaða hætti við förum í þessa vegferð á meðan hin ákveður að fara í málið. Mig langar að spyrja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson um tvennt: Hvað er það í tillögu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna sem hann telur að gagni ekki? Í öðru lagi, hvernig sér hann þjóðaratkvæðagreiðslu um þessi mál fara fram? Er það í einni spurningu að loknum samningaviðræðum eða er það með einni spurningu til þjóðarinnar fyrir umræður og hvers konar þjóðaratkvæðagreiðslu sér hann? Er hún tvöföld, er hún einföld og er hún í beinhörðum (Forseti hringir.) spurningum til þjóðarinnar, já eða nei?