Undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 15:44:33 (682)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. trúboði, hv. þingmaður veifaði töfrasprotanum, það var gengið, það var evran, það voru vextirnir og það var verðtryggingin, allt tóm loforð, innantóm.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann ætli að halda áfram með svona innantóm loforð á meðan landið brennur, meðan fyrirtækin eru stopp, meðan atvinnuleysi vex, meðan fjölskyldurnar og heimilin eru stopp. Ætlar hv. þingmaður að halda áfram að sækja um? Veit hann hvað þetta kostar og veit hann hvaða mannafla þarf í ráðuneytunum þann tíma sem það tekur? Á þá allt annað að vera stopp á meðan? Ætlar hann að keyra Ísland í kaf vegna þess að hann er í trúboði við að koma Íslendingum inn í Evrópusambandið með innantómum loforðum, frú forseti.