Undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 15:52:50 (689)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:52]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það í öllum aðalatriðum en við munum aldrei ná niðurstöðu um það úr ræðustól í fyrri umræðu um þessar tvær tillögur heldur verður það alltaf verkefni utanríkismálanefndar þingsins að útfæra það og ákveða, leggja það til hvernig sá málatilbúnaður allur verði og það verður þá samþykkt sérstaklega í atkvæðagreiðslu á þinginu hvernig haldið verði nákvæmlega á því. En það er hins vegar sjálfsagt og nauðsynlegt að velta upp möguleikum á því hvað nefndin þurfi sérstaklega að skoða því að nefndin tekur auðvitað mið af þeim umræðum sem fara fram í þinginu þessa tvo daga um tillöguna. Allt sem þingmaðurinn nefndi eru réttmætar ábendingar og nauðsynleg úrlausnarefni um þá málagjörð og þann tilbúnað sem þarf að vera í kringum eins flókið, viðamikið og mikilvægt mál og aðildarumsókn að Evrópusambandinu svo sannarlega er.