Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 16:31:37 (698)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

fjármálafyrirtæki.

33. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni viðskiptanefndar fyrir þessa athugasemd. Ég held hins vegar að stóra málið og eins og flestir nálgist þetta sé með þeim hætti að þetta snerist um það að leysa þetta mál fyrir þessa fyrrverandi starfsmenn fjármálafyrirtækjanna þannig að það kemur í raun á sama stað niður fyrir viðkomandi starfsmann hver ástæðan er ef viðkomandi fær ekki greidd laun. Ég veit hins vegar að formaður hv. viðskiptanefndar er mér hjartanlega sammála og örugglega allur þingheimur um að við vonum svo sannarlega að þessar áhyggjur séu óþarfar alveg á sama hátt og ég vona svo sannarlega að þessar viðvaranir sem komu nokkurn veginn fram hjá langflestum, næstum öllum umsagnaraðilum varðandi það að varhugavert sé að samþykkja þetta sökum þessara stóru hagsmuna, út af því að við séum að ganga inn í þá slitameðferð sem nú þegar er hafin, ég vona svo sannarlega, virðulegi forseti, að það séu óþarfa áhyggjur. En eins og fram hefur komið náðum við ekki að fara nógu vel yfir það til að geta lagt á það fullnægjandi mat.