Einkavæðing bankanna -- upplýsingagjöf til nefnda -- Icesave o.fl.

Þriðjudaginn 09. júní 2009, kl. 13:48:00 (1104)


137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar aðeins að blanda mér í umræðu sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hóf hér með fyrirspurn til hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um sameiginlegan fund viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar í morgun. Ég verð að segja alveg eins og er við hv. þingmenn hér — ég hef starfað 15 ár í stjórnmálum, í sveitarstjórn og þar af tvö ár á Alþingi Íslendinga — að fundurinn sem ég sat í morgun fer í mínum huga á spjöld sögunnar. Hvers vegna gerir hann það? Jú, vegna þess að þar varð ég vitni að farsa sem gekk út á það að tveimur þingnefndum, skipuðum þjóðkjörnum fulltrúum á Alþingi Íslendinga, var meinað um upplýsingar á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga.

Hvað stendur í 5. gr. upplýsingalaga, frú forseti? Þar er kveðið á um rétt almennings til að fá tilteknar upplýsingar. Í mínum huga eru þjóðkjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga ekki jafnréttháir og almenningur til þess að fá upplýsingar í jafnviðamiklum og stórum málum sem hér er um að ræða.

Þess vegna segi ég það og endurtek það hér sem ég sagði á nefndarfundi í morgun: Þetta mál er prófsteinn á styrk þingsins, á styrk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og gagnvart stofnunum og embættismannakerfi Íslands að ganga eftir upplýsingum. Þess vegna var formönnum þessara tveggja nefnda falið að fylgja málinu eftir í morgun og ganga eftir því að þessar upplýsingar yrðu veittar vegna þess að það er algjörlega fráleitt að ætlast til þess að kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga taki upplýstar ákvarðanir (Forseti hringir.) nema á grundvelli réttra upplýsinga.