Einkavæðing bankanna -- upplýsingagjöf til nefnda -- Icesave o.fl.

Þriðjudaginn 09. júní 2009, kl. 13:52:28 (1106)


137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að taka aðeins upp umræðu um Icesave-málið og afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og það sem spurt hefur verið í því efni, m.a. um tengslin við umræður um Evrópusambandið.

Ég vil fyrst geta þess varðandi afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að hún birtist m.a. í nefndaráliti fulltrúa flokksins í utanríkismálanefnd. Þegar þetta mál var til umfjöllunar þá var þar hv. þingmaður og núverandi hæstv. fjármálaráðherra og Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði þar fram rökstudda dagskrártillögu. Í fyrsta lagi að málið yrði tekið út af dagskrá vegna þess að það væri í raun vanreifað og vegna þess að það var talið að leita þyrfti að sanngjarnari samningsniðurstöðu en þá var í kortunum, eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur gert grein fyrir í umræðum um þetta mál. Til vara var síðan lagt til að ef sú tillaga yrði ekki samþykkt, og hún var felld, þá yrði bætt inn í tillögugreinina þeim orðum að gengið yrði til samninga um þetta mál þegar Bretar hefðu aflétt frystingu eigna Landsbankans í Bretlandi.

Þetta var sú afstaða sem kom fram af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í meðförum málsins í þinginu og í þingskjölum. Við teljum að það hafi verið farið í að endursemja, eins og okkar upphaflega tillaga gekk út á, og nú hefur það verið tryggt að frystingunni hefur verið aflétt. (Gripið fram í: Í kjölfar samningsins.) Það er hluti af samningnum. Við teljum því að hér hafi verið staðið þokkalega að málum miðað við þær forsendur og þær aðstæður sem búið var að búa þessu máli. (Gripið fram í.) Ég held að menn verði að sjálfsögðu að horfa á það og Sjálfstæðisflokkurinn ekki síst vegna þess að hann á auðvitað ríkan þátt í því hvernig þetta mál allt er vaxið og (Forseti hringir.) í hvaða farveg það er komið.