Einkavæðing bankanna -- upplýsingagjöf til nefnda -- Icesave o.fl.

Þriðjudaginn 09. júní 2009, kl. 13:54:45 (1107)


137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Frú forseti. Mig langar aðeins til að svara hér og beina spurningu til hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur. Hér hefur komið fram að Vinstri grænir séu ekki búnir að taka neinar kollsteypur á sinni kosningastefnuskrá og svo kemur hv. þm. Árni Þór Sigurðsson upp og segir að þeir séu að semja aftur. Það er ekki hægt að semja aftur um ekki neitt. Það lá enginn samningur fyrir. Það sem er á því blaði sem hæstv. fjármálaráðherra veifaði hér í umræðunni og sagði að væri samningur er ekki samningur, það var yfirlýsing.

Mig langar að spyrja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur hvort hún ætli að fara út á Austurvöll í dag og horfast í augu við kjósendur Vinstri grænna, sem standa þar með búsáhöld og sleifar, og segja: Ég sveik ykkur, ágætu kjósendur. Við getum ekki annað.

Hér er að störfum skuggaríkisstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og nú hefur verið upplýst að það er sannað að Evrópusambandið stendur á bak við þetta allt, eins og hv. þm. Birkir Jón kom inn á áðan.

Auðvitað hlaut þetta að (Forseti hringir.) hanga saman. Vinstri grænir …

(Forseti (ÁRJ): Ég vil biðja þingmanninn að nefna þingmenn fullu nafni.)

Sjálfsagt. Vinstri grænir eru á fullri ferð með Íslendinga inn í Evrópuhraðlestina með Samfylkingunni í andstöðu við þing og þjóð, því að ekki hefur verið tekin nein einasta ákvörðun um hvort það eigi yfir höfuð að fara þangað inn hvað sem um þjóðaratkvæðagreiðsluna verður. 65 ára lýðveldisgjöf Íslendinga þetta árið eru Icesave-skuldbindingar til 15 ára sem Íslendingar geta engan veginn staðið við. Til hamingju með daginn, kjósendur Vinstri grænna.