137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[14:16]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að óska hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra til hamingju með þetta fyrsta mál sem hann flytur sem ráðherra á þessu þingi og vek athygli á því að hér er um að ræða, eins og önnur þau mál sem hæstv. ráðherra mun flytja hér á eftir, innleiðingu á reglum frá Evrópusambandinu.

Ég kem ekki hér upp til að ræða sérstaklega efnisatriði þessara mála enda eru þau í sjálfu sér skýr og kannski ekki stór ágreiningur um þau. Ég kem hér upp til þess að vekja athygli á því að við erum á sumarþingi þar sem sérstaklega er boðað til fundar til þess að ræða þá alvarlegu stöðu sem er í samfélaginu, þá alvarlegu stöðu sem er hjá heimilum, fyrirtækjum og almenningi í þessu landi.

Ég kem hér upp til að vekja sérstaka athygli á því að þegar blásið er til fundar á þessu þingi undir þeim formerkjum eru fyrstu mál félags- og tryggingamálaráðuneytis, þess ráðuneytis sem á nú að vera í forustu og sókn til að slá umrædda skjaldborg um hag heimilanna í landinu, innleiðing á Evróputilskipun og þau eru jafnframt fyrsta mál hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra.

Það er svo sem vitað að í þessari ríkisstjórn er mikill áhugi fyrir aðild að Evrópusambandinu, það hefur ekki farið leynt. Og vissulega læðist sá grunur að manni að grunnurinn á bak við það hversu mikið þeim samningi hefur verið hraðað sem skrifað hefur verið undir út af Icesave-deilunni, sé tengdur hinum mikla áhuga á Evrópusambandinu, að klára verði hér ákveðin mál til þess að umræddar mögulegar aðildarviðræður við Evrópusambandið geti farið í gegnum þingið.

Mér finnst það forkastanlegt og mér finnst þetta vera kolröng forgangsröðun. Sú dagskrá sem við höfum fyrir framan okkur í dag er til vitnis um það metnaðarleysi sem ríkir í þessari hæstv. ríkisstjórn. Ég ætla ekki að fara að ræða hér efnislega um þessar innleiðingar heldur er ég fyrst og fremst að vekja athygli á þessu og lýsa vanþóknun minni á þeirri forgangsröðun sem þarna kristallast hjá hæstv. ráðherra félags- og tryggingamála og hæstv. ríkisstjórn.