Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 09. júní 2009, kl. 15:26:18 (1136)


137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[15:26]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt sem hæstv. ráðherra sagði, þáverandi hv. þm. Katrín Jakobsdóttir lagði fram mál um það að við ættum að kanna hvort við ættum ekki að leita eftir grundvelli til þess að fara í mál. Með því að samþykkja þessa Icesave-skuldbindingu undirgangast íslensk stjórnvöld akkúrat það að mega ekki höfða mál í framtíðinni um eitthvað sem orkar tvímælis í þessu. Hv. þingmaður gengur þar af leiðandi gegn eigin frumvarpi sem viðkomandi mælti fyrir einungis fyrir nokkrum vikum eða mánuðum. Það er einfaldlega staðreynd að á blaðamannafundi með utanríkisráðherrum Norðurlandanna sem hæstv. utanríkisráðherra í ríkisstjórn Vinstri grænna sat ásamt utanríkisráðherra Finna, meðal annarra, kom fram það mat finnska ráðherrans að það að leysa Icesave-málið væri grundvöllur þess að Ísland gæti orðið aðili að Evrópusambandinu. Það er smám saman að renna upp fyrir manni ljós að sú flýtimeðferð sem Icesave á að hafa upp á mörg hundruð milljarða króna fyrir íslenskt samfélag er einungis aðgöngumiði Samfylkingarinnar að Evrópusambandinu.

Það er líka orðin staðreynd, miðað við það að mér heyrðist hæstv. ráðherra ekki ætla að greiða atkvæði gegn þessum Icesave-skuldbindingum, að Vinstri grænir ætla sér að elta Samfylkinguna í þessum leiðangri og það er þvert á það sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð boðaði í aðdraganda síðustu kosninga. Flokkurinn sagði þá svo skýrt: Við viljum ekki ganga í Evrópusambandið.

Hvernig átti kjósendum þess flokks að detta í hug að viðkomandi flokkur mundi beita sér fyrir því að farið yrði í aðildarviðræður? Ef flokkurinn vill ekki ganga í Evrópusambandið fer hann náttúrlega ekki í aðildarviðræður, (Forseti hringir.) þ.e. ef flokkurinn vill vera skýr valkostur og heill í málflutningi sínum.